Heitt vatn – Aukinn eftirspurn

Grein/Linkur: Hvernig önnum við aukinni eftirspurn?

Höfundur: Haraldur Ingólfsson

Heimild: 

.

Hitaveitunotkun Akureyringa hefur um það bil tvöfaldast frá áriniu 2002, en íbúum á svæðinu hefur ekki fjölgað að sama skapi og því ljóst að hver einstaklingur er að nota meira af heitu vatni en áður. Þessi staðreynd er reyndar ekki bundin við Akureyri og Eyjafjörð. Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson.

.

Nóvember 2023

Hvernig önnum við aukinni eftirspurn?

VATN – III

Hvort sem mótvægisaðgerðir vegna innstreymis sjávar við borholur á Hjalteyri ganga upp eða ekki liggur fyrir að önnur svæði þurfa að bætast við. Árangurinn af aðgerðunum breytir aðeins því eftir hve stuttan eða langan tíma það verður.

Fram kom í fyrri grein og viðtölum sem Akureyri.net átti við þá Hjalta Stein Gunnarsson, sviðsstjóra framkvæmdasviðs Norðurorku, og Hörð Hafliða Tryggvason, fagstjóra hita- og vatnsveitu, að vegna stöðunnar sem nú er komin upp á Hjalteyri hafi enn meiri kraftur verið settur í rannsóknir og undirbúning fyrir nýtingu hitaveituréttinda á Ytri-Haga, skömmu norðan við Hjalteyri.

Vatnið var aldrei heitara í Vaðlaheiðinni

Jarðhitasvæði inni í Vaðlaheiðargöngunum mun ekki nýtast hitaveitunni að sögn þeirra Hjalta Steins og Harðar. Við rannsókn á heitu vatni er mældur það sem kallað er efnahiti í vatni, en hann segir til um það hve heitt vatnið var þegar það var heitast. Ákveðin efni leysast upp í vatni eftir því sem það hitnar og er notast við hugtakið kísilhiti. Málið með heita vatnið í Vaðlaheiðargöngunum er, samkvæmt slíkum rannsóknum, að það er ekki nógu heitt fyrir hitaveituna. Það hefur ekki verið mikið heitara en það er núna og því ekki talið fýsilegt að bora á því svæði.

Hörður útskýrir þetta með hitann, að þessi greining sé mjög góður grunnur. „Ef þú finnur einhverja laug einhvers staðar úti í móa, tekur úr henni sýni sem er efnagreint, þá er mögulega hægt að sjá hvort þetta vatn hefur einhvern tímann verið t.d. 90 gráðu heitt og þá er náttúrlega spennandi að fara að skoða það. En vatnið í Vaðlaheiðinni, nákvæmlega þetta vatn sem er að koma úr göngunum, það hefur ekki verið mikið heitara en það er núna þegar það kemur út.“

Hörður nefnir jafnframt að þetta sé erfitt svæði, djúpt inni í fjallinu og það væri erfitt að bora þarna. Vissulega er vitað af þessu svæði í Vaðlaheiðinni, sem er í skoðun, en það sé ekki í forgangi þar sem það sem jarðvísindafólk sér þar er ekki nógu spennandi, að sögn Harðar.

Því lengra í burtu, því dýrara

Norðurorka er með ýmis rannsóknarverkefni í gangi í sambandi við heitt vatn, bæði á nýjum svæðum og svæðum sem höfðu verið rannsökuð og jafnvel nýtt áður. Eitt þessara svæða er við bæinn Botn, rétt sunnan við Hrafnagil í Eyjafjarðarsveit. „Við erum að taka vatn þarna innan úr Botni núna,“ segir Hörður. „Þar voru gerðar miklar rannsóknir í kringum 1980 sem gáfu til kynna að líklega væri hægt að fá meira vatn þar. Það var á sínum tíma talið að boranir yrðu dýrar þar sem það er setlag í botni fjarðarins,“ segir Hörður. Vegna þess hve dýrt er að fóðra það af til að geta borað niður úr setlaginu, var í staðinn leitað út á Þelamörk þar sem vitað var að til væri heitt vatn. Að sögn Harðar er svæðið á Botni hins vegar komið aftur á dagskrá og verið er að setja upp rannsóknaráætlun fyrir svæðið næstu árin.

Meðal rannsóknarverkefna sem eru í gangi hjá Norðurorku er að kanna möguleika svæðum sem hafa jafnvel verið rannsökuð og nýtt áður. Eitt þessara svæða er að Botni rétt sunnan Hrafnagils. Ljósmyn: Haraldur Ingólfsson

Mögulega gerir betri tækni vinnsluna á Botni aðeins auðveldari núna. Auk þess kalli þörfin einfaldlega á að allra leiða verði leitað og þeim mun nær sem vatnið er notendunum því ódýrara er að ná í það. „Það verður dýrara eftir því sem farið er lengra í burtu,“ segir Hörður. „En þarna erum við nær. Þó það sé dýrt að bora holurnar þá erum við með innviðina til staðar á svæðinu. Aðveitulögnin til Akureyrar er til staðar.“

Rándýr ljósmynd

Hjalti Steinn sýnir blaðamanni mynd sem segja má að sé frekar spaugileg, en þó ekki. „Þetta er dýrasta myndin okkar,“ segir Hjalti Steinn. „Hún kostar hátt í 200 milljónir.“ Myndin sýnir litla sprænu upp úr borholu, minni en venjulegan rúðuvökva á framrúðu bíls. Þarna var boruð 1.900 metra djúp hola á milli tveggja vinnsluhola á Botni (sem aðeins eru tæplega 100 metrar á milli) í þeim tilgangi að sameina holurnar. Þessi litla spræna var afraksturinn. Hjalti Steinn segir þetta hafa breytt myndinni. „Kerfið er ekki eins og okkar helstu sérfræðingar héldu þannig að nú erum við bara komin aftur á teikniborðið og þurfum að rannsaka enn frekar áður en við gerum meira, hvað við gerum næst og hvernig.“

Hörður segir rannsóknir verða í gangi inni á Botni á næstu árum og segir spennandi að sjá hvað kemur út úr þeim.

Fleira áhugavert: