Vottun bygginvara – Kröfur til lagnaefna
.
September 2000
Vottun á bygginagvörum
Vottun bygginga og byggingarefna hefur verið skotspónn ýmissa aðila sem ekki virðast hafa kynnt sér málið til hlítar. Til að varpa ljósi á þær leikreglur sem um þessa vottun gilda viljum við draga upp þá mynd af þessari starfsemi sem við vitum réttasta og sannasta. Vottun byggingarvöru er staðfesting óháðs aðila á því að vara hafi tiltekna tæknilega eiginleika sem geta verið mælanlegir eða sannanlegir á einhvern hátt. Yfirleitt er um að ræða eiginleika sem vara þarf að hafa til að vera hæf til einhverrar skilgreindrar notkunar.
Vottunar er krafist í lögum og reglugerðum. Þar má benda á reglugerð um viðskipti með byggingarvörur (nr. 431/1994) sem skilgreinir ákveðinn samræmdan vottunarferil (staðfesting á samræmi) fyrir evrópskar byggingarvörur, sem síðan leiðir til CE-merkingar á byggingarvörum. Þessi sam-evrópski vottunarferill er háður því að til séu samræmdar evrópskar kröfur um eiginleika hverrar vörutegundar. Slíkar kröfur eru ekki til í dag, nema í undantekningartilvikum, en verða settar á næstu árum. Því munu líða nokkur ár þar til reglugerðin verður að fullu virk gagnvart öllum byggingarvörum.
Kröfur um tímabundna vottun eru settar fram í byggingarreglugerð, meðan þetta ástand varir. Þar er ákvæði sem kveður á um að þar til samræmdar Evrópukröfur liggja fyrir beri að leita vottorða/umsagnar um notkunarsvið byggingarvöru hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins.
Í samræmi við þetta ákvæði veitir Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins vottun eða umsögn um byggingarvörur á því sviði sem stofnunin starfar á.
Mismunandi stig vottunar
Greina má á milli nokkurra leiða sem farnar eru við að veita vottun/umsögn varðandi byggingarvörur hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Fyrst má nefna gerðarvottun sem er veitt til ákveðins tíma, t.d. 3-5 ára.
Áður en vara fær gerðarvottun er hún skoðuð, prófuð eða gengið úr skugga um á annan fullnægjandi hátt að hún uppfylli settar kröfur eða hafi þá eiginleika sem votta ber. Gerðarvottun er ekki veitt nema varan uppfylli öll sett skilyrði.
Eitt af meginskilyrðum fyrir gerðarvottun er að framleiðandi vörunnar komi á fót innra eftirlitskerfi sem tryggir stöðugleika framleiðslunnar. Jafnframt verður að vera fyrir hendi ytra eftirlit sem unnið er af óháðum aðila.
Einnig er veitt stök vottun. Þá er um að ræða að byggingarvara er viðurkennd til einnar tiltekinnar notkunar, þ.e. til notkunar í einu ákveðnu húsi. Þar gæti t.d. verið um að ræða einingar sem ekki bera gerðarvottun, þá þarf sérstaka yfirferð í hvert skipti sem slíkar einingar eru notaðar.
Sé veitt stök vottun uppfyllir varan við skoðun settar kröfur, en framleiðandinn nær ekki að uppfylla öll þau skilyrði sem sett eru varðandi gerðarvottun, yfirleitt er þar um að ræða kröfuna um ytra og innra framleiðslueftirlit.
Að lokum er um að ræða umsagnir sem geta hvort sem er tengst ákveðinni byggingu eins og stök vottun eða verið ótengdar einstökum byggingum og lýst almennt eiginleikum eða notkunarsviði vöru. Þær gefa álit stofnunarinnar á þeim tíma sem umsögnin er gerð og miðast við þær reglur og hefðir sem gilda við dagsetningu umsagnarinnar.
Umsagnir geta verið hvort sem er jákvæðar eða neikvæðar. Yfirleitt er tekið skýrt fram í umsögninni hvers vegna umsögn er veitt en ekki vottun.
Kröfum til byggingarvara er yfirleitt lýst í stöðlum, tæknisamþykktum, reglugerðum eða öðrum tæknilegum leiðbeiningum. En þar sem byggingarvörur og byggingarefni eru afar fjölbreytt er mjög misjafnt hvort og í hvaða mæli kröfur til þeirra eru fyrir hendi á Íslandi.
Í byggingarreglugerð er tekið fram að íslenskir staðlar skuli vera leiðbeinandi við gerð bygginga. Þar sem íslenskir staðlar ná ekki til skulu ákvæði norrænna staðla og ISO-staðla vera leiðbeinandi. Í dag er mest um að Rb votti einingahús og stálgrindarhús, innlend eða innflutt, eða einstaka byggingarhluta, s.s. þakeiningar, útveggjaeiningar og lagnaefni.
Hvað varðar einingahús, stálgrindahús og byggingarhluta, s.s. þakeiningar og útveggjaeiningar, eru innlendar kröfur skýrar. Þær eru fyrir hendi í byggingarreglugerð og þeim stöðlum sem reglugerðin vísar til.
Í stuttu máli má segja að vottunin sé fólgin í því að ganga úr skugga um að burðarkerfi húsa sé hannað í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar hverju sinni og hönnunin uppfylli að öðru leyti kröfur reglugerðar, t.d. varðandi einangrun, þéttleika og aðra gerð.
.
.
Kröfur til lagnaefna
Vottun lagnaefna er hins vegar talsvert annars eðlis. Almennar innlendar reglur, t.d. í byggingarreglugerð, eru nánast ekki til. Meginvandamálið við vottun lagnaefna á Íslandi er því skortur á skýrum innlendum reglum í formi reglugerða eða staðla.
Vottun þessara efna verður því að byggja á ákvæði mgr. 3.1 í byggingarreglugerð um heimild til notkunar norrænna reglna. Rétt er að benda á að víða erlendis er nánast einungis um að ræða vottun efna til neysluvatns- og frárennslislagna. Erlendar reglur tengjast þannig oftast hollustu- og umhverfisþáttum.
Þessar gæða- og hollustukröfur eiga fullan rétt á sér hérlendis og geta því vel verið grundvöllur innlendrar vottunar. Hins vegar er vel ljóst að þær taka ekki til sérstakra aðstæðna sem kunna að vera til staðar í íslenskum veitukerfum. Í innlendum vottorðum er notkunarskilyrðum því ávallt lýst.
Kröfur til efna sem á að nota í íslenskum jarðvarmaveitum hafa ekki verið skýrar og því vandkvæðum bundið að votta efni til þeirra nota. Reyndar að undanskilinni vottun stálofna, þar sem vottunin staðfestir prófun þeirra samkvæmt íslenskum staðli ÍST/EN-442.
Efni til notkunar í lagnakerfum á Íslandi er og verður að meginþorra til framleitt erlendis samkvæmt þeim stöðlum og reglum sem þar gilda.
Reynsla er fyrir ágætri endingu margra lagnaefna hérlendis í hitakerfum sem nota hveravatn. Á grundvelli þeirrar reynslu ætti að vera hægt að byggja áframhaldandi notkun.
Hins vegar er ekki unnt, eins og fram kom áður, að votta ný lagnaefni fyrir þessar aðstæður, án undangenginna rannsókna. Þó má benda á aðferð sem margir hönnuðir beita í dag, t.d. gagnvart plastefnum, að nota varmaskipti og hafa hitakerfin lokuð með ferskvatni. Með þessari aðferð fæst einnig hitastigsstýring á neysluvatn.
Aðeins einn þáttur
Vottun er aðeins einn þáttur í að gera verkframkvæmdir öruggari og þá vöruflokka sem notaðir eru í byggingar betri. Því er eðlilegt að seljendur vöru veiti skýrar og vel grundaðar upplýsingar um þá vöru sem er á boðstólum. Margir vilja eflaust flokka kvöð frá stjórnvöldum um vottun byggingarvöru sem forsjárhyggju.
Slík kvöð er hins vegar fullkomlega réttmæt þegar hún tengist mikilvægustu þáttum byggingarinnar, s.s. burðarþoli og stöðugleika, vörnum gegn eldsvoða, hollustu, öryggi við notkun, hávaðavörnum og orkusparnaði.
Eigi kvöðin að vera marktæk verða kröfurnar sem byggingarefnið á að uppfylla að vera ljósar. Þær verða að koma fram í reglugerðum eða stöðlum. Gagnvart flestum tegundum byggingarvöru eru innlendar kröfur skýrar, þær vörur er hægt að votta.
Gagnvart öðrum vörum, eins og til dæmis efnum til notkunar í jarðvarmaveitum, eru innlendar kröfur ekki skilgreindar í reglugerðum eða stöðlum. Þær vörur er þá einfaldlega ekki hægt að votta. Kröfurnar sem byggingaryfirvöld gera eru einfaldlega ekki ljósar.