Affallsvatn virkjana – Framleiðsla fæðurbótaefnis
.
.
Affallsvatn frá jarðvarmavirkjunum hefur hingað til verið töluverður höfuðverkur fyrir virkjanir hér á landi og hefur vatninu annað hvort verið dælt út í sjó eða dælt niður í jarðhitageyminn eins og gert er á Hellisheiði. Ekki hefur verið hægt að nýta vatnið til orkuframleiðslu vegna kísilútfellinga, en nú hafa tveir umhverfistæknifræðingar, sem útskrifuðust frá Keili, stofnað fyrirtæki og ætla að nýta steinefnin í vatninu til að framleiða heilsuvörur og kísilríkt drykkjarvatn.
Lokaverkefni verður að vænlegri söluvöru
Fida Abu Libdeh og Burkni Pálsson stofnuðu fyrirtækið geoSilica í framhaldi af lokaverkefnum þeirra í orku- og umhverfistæknifræði, en þar skoðaði Burkni hreinsun á felldum kísil með rafdrætti og Fida rannsakaði áhrif kísils og jarðsjávar á gerla og sveppa. Komust þau að því að raunhæft væri að nýta affallsvatn frá Hellisheiðavirkjun og hreinsa það af arsenik og öðrum efnum sem geta verið eitruð í of miklu magni.
Í samtali við mbl.is segir Fida að þau búist við að framleiða um 12 þúsund einingar af kísil-heilsuvörum á fyrsta ári, en eftir það sé hægt að auka framleiðsluna gífurlega mikið. Bendir hún á að markaður fyrir heilsuvörur með kísil hafi stækkað mikið undanfarið og að kílóverð þeirra sé mjög hátt, það geti gert nýtingu vatnsins mjög arðbæra.
Sjóða vatnið þrjátíufalt
Fida segir að hingað til hafi vatnið nær eingöngu verið notað vegna varmans við að hita upp gróðurhús og fiskeldi, en við kólnun verða til kísilútfellingar og stífla allar lagnir og tæki. Því hefur nýtingin verið takmörkuð hingað til.
Hugmynd Fidu og Burkna gengur út á að taka um 60°C-120°C heitt affallsvatn frá virkjuninni og hreinsa burt arsenik og ál, sem er yfir leyfilegum mörkum. Vatnið er mjög kísilríkt, en til að ná upp hæfilegu magni fyrir heilsuvöruna segir Fida að það þurfi að sjóða vatnið þrjátíufalt niður, en þannig verði kísilstyrkurinn nægur. Gert er ráð fyrir því að neytendur taki um eina matskeið af þessu á dag, en það er ráðlagt magn til að vinna gegn beinþynningu og hafa góð áhrif á húð, hár og neglur.
Steinefnaríkt drykkjarvatn
Til viðbótar við þetta segir Fida að ætlunin sé að þróa einnig kísil- og steinefnaríkt drykkjarvatn. Magn kísils væri þó mun lægra í þessu vatni en í fæðubótarefninu og segir Fida að stefnt sé að því að markaðssetja það eins og íslenskt vatn sem hefur verið flutt út, en að beina sjónum sérstaklega að konum á breytingaskeiði og öðrum sem eru í áhættuhópi vegna beinþynningar.
Mikil aðstoð frá Orkuveitunni
GeoSilica hefur þegar fengið styrk frá Tækniþróunarsjóði, en styrkurinn nær til þriggja ára og segir Fida að það hafi gert þeim kleift að hefjast handa og byrja þróunina markvisst. Þá hafi Orkuveita Reykjavíkur veitt þeim aðgang að affallsvatni og mun aðstoða þau við að leggja lagnir að suðuaðstöðu við virkjunina.
Frá suðuaðstöðunni verður kísilsviflausnin flutt til frekari framleiðslu hjá fyrirtækinu að Ásbrú, en Ölgerðin mun svo sjá um töppun, dreifingu og markaðssetningu hér á landi.
Ódýr aðföng og möguleiki á mikilli framleiðsluaukningu
Fida segir að aðföngin vegna framleiðslu á þessum vörum séu ekki dýr og lítill skortur á affallsvatni. Því verði hægt að auka framleiðsluna gífurlega á næstu árum ef allt gengur að óskum, en hún segist gera ráð fyrir því að innan örfárra ára verði hægt að selja hundrað þúsund vörueiningar á ári.