Þarf vatnið að kosta eitthvað?

Grein/Linkur:  Undarleg skilaboð frá Orkuveitu Reykjavíkur

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild:  

.

September 2003

Undarleg skilaboð frá Orkuveitu Reykjavíkur

Sigurður Grétar Guðmundsson 1934-2013

Það er víst að bera í bakkafullan lækinn að fara að mæra það enn einu sinni hve heppnir við erum Íslendingar, að vera búandi í svo ungu landi að enn ólgar eimyrja undir fótum, eimyrja sem stundum minnir óþyrmilega á sig í spúandi eldgosum.

Vissulega fer mörgum sögum af því hve skelfilegar afleiðingar eldgos höfðu og þarf ekki að fara langt aftur í tímann til að rifja það upp. En þessi nálæga eimyrja heldur berggrunni landsins heitum og þangað niður hripar vatn, kalt vatn sem fer um óravegu, ferð sem jafnvel tekur aldir.

En þetta ferðalag vatnsins breytir um stefnu þegar það hitnar og það leitar upp á við; gamla góða eðlisfræðin að heitt vatn er léttara en kalt, eða með öðrum orðum þá eykst rúmmál þess, það þenst út við hitnun. En nóg um eðlisfræðina, snúum okkur heldur að því hvað verður um þetta ágæta vatn þegar það hitnar.

Það leitar aftur upp til yfirborðsins eftir einu stærsta hitakerfi heimsins, miðstöðvarkerfi sem á engan sinn líka. Þar hefur enginn verkfræðingur komið að hönnun, ekki heldur neinn pípulagningamaður að lögn. Ekki er þetta þó með öllu rökrétt.

Síðustu 60-70 árin hafa einmitt íslenskir tæknimenn úthugsað aðferðir til að fanga vatnið áður en það kemur upp á yfirborðið sem sytrandi sprænur eða gjósandi hverir. Farið er niður í iður jarðar með stórvirkum borum, vatninu dælt upp og notað til upphitunar. Gufan brýst upp af eigin krafti, en sú ótemja er hamin og beygð miskunnarlaust undir mannsandann. Hún er látin snúa hverflum sem framleiða rafmagn, látin umbreyta köldu vatni í heitt. Og svo er að sleppa skepnunni þannig að hún valdi ekki skaða á mönnum, málleysingjum eða umhverfi.

Þarf vatnið að kosta eitthvað?

Stundum heyrast þær raddir að heita vatnið sé dýrt þegar það streymir úr krana í vask eða rennur um hitakerfi húss, vatn sem streymir ókeypis úr jörðinni eigi nánast ekki að kosta neitt.

En því miður kostar það talsvert að fanga vatnið, koma því upp á yfirborðið og til okkar sem heima sitjum.

Olían er að sama skapi ókeypis í jörðinni, en einhvern veginn eiga menn betra með að skilja að auðvitað kostar hún eitthvað og hún er dýr, ekki vafi. En við getum fullyrt eitt; heita vatnið er ódýr orka til hitunar og heimilishalds þegar miðað er við aðra orkugjafa.

Samt sem áður viljum við fara sparlega með vatnið til þess að enginn þurfi að borga meira en nauðsyn krefur. Sá sparnaður kemur auðvitað niður á seljandanum og sá sem ber höfuð og herðar yfir aðra orkuseljendur er Orkuveita Reykjavíkur.

Á suðvesturhorni landsins hefur veðrið „leikið við hvurn sinn fingur“ í sumar, þannig hefur það nánast verið á landinu öllu. En þar eru ekki allir ánægðir með blíðuna, sólskinið og varmann frá himinhvolfinu.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur fór í fýlu, súr út í máttarvöldin yfir þessari góðu tíð og hækkaði verð á sinni vöru, heita vatninu úr iðrum jarðar.

Hvaða skilaboð er Orkuveita Reykjavíkur að senda sínum kaupendum, þeim sem hún á að þjóna? Eiga menn ekki að hafa sín kerfi í lagi, kemur það þeim í koll ef þeir sóa ekki heita vatninu, eiga þeir á hættu að allar endurbætur á hitakerfum sem minnka eyðslu á heitu vatni, oftast óþarfa eyðslu og sóun, komi þeim í koll með hækkun á verði heita vatnsins?

Orkuveita Reykjavíkur missteig sig hrapallega með þessari óþörfu hækkun og þessum röngu skilaboðum til viðskiptavina sinna.

En hver veit nema Eyjólfur hressist.

Stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur ættu strax að fara að huga að vetrartaxtanum og taka sér far til Dalvíkur. Þar getur hinn landsfrægi veðurklúbbur aldraðra sagt þeim tíðindi af verðurfari skammdegisins. Verður harður vetur? Kemur einhver „frostaveturinn mikli“? Þá verður gaman að lifa. Ekki nokkur vafi á að heita vatnið frá þessari miklu veitu mun hríðlækka, eða hvað?

Í slíku árferði hlýtur vatnssalan að aukast stórlega, þýðir það ekki lækkun á heita vatninu? Já, og svo er sláturtíðin að hefjast. Þeir ættu ekki að gleyma að koma við hjá konunni sem spáir í garnir, þaðan gætu komið tíðindi um tíðarfarið sem gæfu ástæðu til að setja taxtatölvuna í gang.

Fleira áhugavert: