Raforkunotkun – Heimsmet, 4,5 MW/heimili

Heimild:

.

Mars 2016

Raforkunotkun á mann mest á Íslandi

Raforkunotkun á mann er sú mesta í heiminum á Íslandi og hefur aukist á síðustu árum vegna stóriðju. Ný spá um raforkunotkun er komin út og nær til ársins 2050, þar er því spáð að notkun forgangsorku hafi aukist um 100 prósent í lok spátímans.

Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar og tæknisviðs Landsnets, fór fyrir þeim sem gerðu spána. Hlutur stóriðjunnar var um helmingur af landsnotkun fyrir 25 árum en var í hittiðfyrra 21 prósent og verður 31 prósent í lok spátímans miðað við núverandi samninga. „Þessi raforkuspá, hún í rauninni nær ekki til þessa stóru einskiptisaukningar ef við getum kallað það. Þarna getur kannski komið einhver starfsemi sem er á við heilt bæjarfélag þess vegna,“ segir hann.

Til dæmis jók Fjarðaál á sínum tíma úttekt frá flutningskerfinu um 5 terawattstundir.

Almenn heimilisnotkun önnur en rafhitun náði hámarki árið 2009 og var þá 4,9 megawattstundir á heimili. Hún hefur minnkað jafnt og þétt síðan og var í hittiðfyrra 4,5 MW/heimili. Munar þar mestu um breytingar í lýsingu, það er sparperurnar. Heimilistækjum hefur fjölgað en þau eru sparneytnari en þau voru og flest ný tæki orkugrönn. Því er spáð að notkun á heimili fari niður í 4 MW en verði ekki minni. Þá dragi úr raforkunotkun í landbúnaði þegar breytingar í lýsingu ryðji sér til rúms í garðyrkju eftir nokkur ár.

Raforkunotkun í atvinnustarfsemi annarri en stóriðju jókst um 24 prósent frá 2009 til 2014. Fiskimjölsverksmiðjur vega þar þungt. Því er spáð að raforka verði nýtt í samgöngum í mjög vaxandi mæli og að flestir nýir fólksbílar verði knúnir rafmagni, beint eða óbeint.

„Þarna erum við í raun og veru að tala um að fara úr jarðefnaeldsneytinu yfir í rafmagn eða eru tengdir við rafmagn á einhvern hátt,“ segir Sverrir.

Síðast kom út slík spá, sem gerð er af fulltrúum Landsnets, Orkustofnunar, Norðurorku, Veitna, Rariks og Samorku, fyrir sex árum.

Fleira áhugavert: