Þvagskálar – Vatnsfríar, án vatns

Grein/Linkur: Þvagskálar án vatns

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

.

Ágúst 2005

Þvagskálar án vatns

Fyrir nokkru kom póstur frá víðförlum manni, hann hafði flogið víða um heim enda var það hans atvinna. Á síðari árum hefur hann einnig ferðast mikið um Ísland og þar hafði hann margt að athuga við hérlenda klósettmenningu og kemur það vissulega ekki á óvart.

Ekki verður frekar tíundað nú af hans gagnrýni annað en þau sjálfsögðu sannindi að menn eru misjafnlega háir til hnés og mittis, menn eru einfaldlega misháir að vexti. Þess vegna er það því hlálegra að stöðluð hæð þvagskála á opinberum stöðum (annars staðar eru þær ekki) er greinilega reiknuð út frá hinum hæstu og lengstu. Það sem nú á síðari árum bjargar þeim sem eru fótstuttir er að á hinum betri stöðum er farið að setja upp þvagskálar fyrir unga og litla menn, fyrir drengi innan við fermingu og þaðan af yngri. Að vísu er ekki hægt annað en að láta fljóta með eina sjálfsagða ábendingu, hvort sem hún kom frá þeim víðförla eða ekki. Hún er sú að það er með ólíkindum að karlar skuli láta bjóða sér það að ekki séu hlífar á milli þvagskála. Nóg er að þurfa að hlýða á grobb og langar útlistanir á eigin ágæti frá þeim sem sprænir næstur þó ekki megi búast við að úðinn berist ekki yfir á eigið svæði.

En það var reyndar ekki þetta sem átti að vera kjarninn í þessum pistli þó síst sé dregið úr mikilvægi þess sem að framan stendur.

Einhvern tíma hefði það þótt saga til næsta bæjar að það þætti hreinlæti hið besta að hafa ekki rennandi vatn í þvagskálum. En nú er sú stund upp runnin og full ástæða fyrir þá sem reka opinbera staði, hvort sem það eru samkomuhús, stórir vinnustaðir eða skólar, skiptir ekki máli. Vatnslausar eða vatnsfríar þvagskálar eru staðreynd og þeim fjölgar stöðugt sem velja slík tæki erlendis, engum sögum fer af notkun þeirra hérlendis.

Ekki mikil lykt

Tvær þvagskálar á opinberum stað, vatnsfríar og úr ryðfríu stáli. Takið einnig eftir skilplötunni á milli skálanna, sjálfsagður hlutur sem sjaldan sést

Tvær þvagskálar á opinberum stað, vatnsfríar og úr ryðfríu stáli. Takið einnig eftir skilplötunni á milli skálanna, sjálfsagður hlutur sem sjaldan sést

En hvers vegna að þróa og framleiða vatnsfríar þvagskálar, er nokkur ástæða til þess? Fyrir því eru einkum tvær ástæður. Sú fyrri er af peningalegum rótum runnin. Víða um lönd er vatnið dýrt og það er sparað eins og kostur er og það er ætíð borgað eftir mæli, hérlendis gera það aðeins stórnotendur. En hin ástæðan er miklu athyglisverðari. Svo ótrúlegt sem það er eru vatnsfríu þvagskálarnar miklu hreinlegri og umfram allt; af þeim er miklu minni lykt. Af þvagi er alls ekki sú mikla lykt sem margir halda. Lyktin kemur fyrst og fremst þegar þvag blandast vatni. Við þá blöndun myndast efni sem nefnist ammoníumoxíð og af því er sú skæða lykt sem oft verður ekki kveðin í kútinn nema með margskonar ilmefnum eins og stundum sjást kynnt í skelfilega hallærislegum sjónvarpsauglýsingum.

Það sem þó toppar þetta er að sá framleiðandi, sem fyrstur er til að framleiða vatnsfríar þvagskálar, framleiðir skálarnar úr ryðfríu stáli. Þar koma enn frekari plúsar, slíkum þvagskálum er miklu auðveldara að halda hreinum, hjá einhverri hreinsun verður aldrei komist hvort sem vatnið rennur eða ekki. Auk þess eru skálar úr ryðfríu stáli miklu sterkari og þar sem þær eru er minna um skemmdarverk á opinberum salernum.

Og þá er best að botna þennan þvagskálapistil með því að eggja menn og konur enn og aftur; setjið upp þvagskálar fyrir karlmenn á hvert baðherbergi. Það er ekki aðeins í þeirra þágu heldur miklu fremur í þágu kvenna, sem enn þann dag í dag sjá um að halda baðherbergjum hreinum, þar ætla karlar seint að vakna.

Fleira áhugavert: