Lagnaleiðir – Snjöll hugmynd, önnur galin..

Heimild: 

.

Júní 1999

Hvar er vitlausasti staðurinn fyrir lagnir?

Lagnir í einangrun utan á húsi eru ekki nema örfáa sentimetra frá 10 stiga frosti á vetrarnótt. Þá má ekki mikið út af bregða til að í lögnunum frjósi og hvað þá?

Þegar lagnakerfi eru hönnuð í venjuleg hús er margs að gæta og eitt af því er að velja lagnakerfið. En áður en að því kemur þarf að ákveða annað, sem ekki skiptir minna máli, það þarf að velja lagnaleiðina, ákveða hvar lagnirnar eiga að vera.

Allt fram undir þennan dag hefur verið harla einfalt; hvort sem það eru miðstöðvarlagnir eða neysluvatnslagnir hefur þeim yfirleitt verði troðið í einangrun útveggja með þeim hörmulegu afleiðingum, oft á tíðum, að raki komst inn um sprungur á rammgerðu steinsteyptu húsunum og tærði rörin í sundur og svo hefur vatnið runnið út um allt hús og skemmt fína parketið og ýmislegt fleira í leiðinni.

Fyrir um fjörutíu árum fórum við úr öskunni í eldinn og tróðum lögnunum í gólfraufar í kjöllurum og sú gjörð er nú að skila sér í auknum verkefnum fyrir hönnuði og pípulagningamenn og hefur raunar gert í þó nokkuð langan tíma.

En það er að fleiru að hyggja í nýbyggingum en lögnum, húsin þarf líka að einangra því að öðrum kosti yrðu þau tæplega íbúðarhæf fyrir utan þau ósköp, sem það mundi kosta að halda einhverjum yl innandyra.

Til einangrunar hafa verið notuð ýmis ágæt einangrunarefni, þótt segja megi að frauðplastið hafi verið algengast á síðustu áratugum, þar áður var það korkur og það þekktist að einangra útveggi með vikurplötum. Til sveita var reiðingur talinn til einangrunar nytsamur og fyrir hálfri öld voru framleiddar plötur úr mosasteypu. Mosinn var rifinn upp í hrauni upp við Vífilfell, það þættu umhverfisspjöll í dag og það með réttu.

En það urðu til „kuldabrýr“ t.d. þar sem innveggir eða loftplötur tengdust útvegg.

Snjöll hugmynd, önnur galin

Ekki er vitað hver fékk þá snjöllu hugmynd að flytja einangrunina út úr húsi, að einangra húsið að utan. Nú sjást fleiri og fleiri hús þannig einangruð, oftast með hinni stórgóðu framleiðslu Steinullarverksmiðjunnar á Sauðárkróki, þar utan yfir kemur grind og klæðning úr sterkum plötum.

Þá er búið að færa húsið í hlífðarföt sem gagnast á öllum árstíðum. En hvað þá um leiðslurnar, hvað á að gera, einangrunin horfin, hvar í ósköpunum á að troða leiðslunum?

Flestir snjallir hönnuðir finna góðar lagnaleiðir og lagnaefni sem hæfir hverri leið, það getur verið rör í rör-kerfi, utanáliggjandi stál- eða plastlagnir, yfir þær lagnir settir snyrtilegir listar eða ekki neitt, lagnirnar látnar njóta sín.

Hér erum við komin með skynsamlega blöndu, húsið einangrað að utan og lagnir utanáliggjandi eða í plastbörkum inni í veggjum eða gólfum, hægt að skipta um rörin með því að draga þau gömlu úr plastbörkunum og ný inn í staðinn, ekkert að brjóta.

En það eru ekki allir hönnuðir sem hugsa, því miður. Þess vegna er komin á kreik sú arfavitlausa hugmynd að elta einangrunina, fara með lagnirnar út úr húsinu og troða þeim þar inn í hana. Það væri svo sem allt í lagi að einhverjir hönnuðir hefðu föndrað við þessa gölnu hugmynd í sínum gráu heilasellum og látið þar við sitja, það er nú einu sinni svo að við fáum engar snjallar hugmyndir nema þeim fylgi oft aðrar ákaflega heimskulegar.

En því miður hafa nokkrir látið verða af þessari vitleysu, að troða lögnunum í einangrunina, þótt hún sé utan á húsinu.

Nú heimtar einhver rökin á borðið og það strax, hvers vegna ekki megi troða leiðslum í einangrun utanhúss. Já, hvers vegna er það galin hugmynd að troða lögnum í einangrun utan á húsum?

Í fyrsta lagi er það algjör óþarfi, það eru til aðrar og betri leiðir.

Þetta sannfærir ekki alla, að sjálfsögðu ekki.

Aðalrökin eru þau að lagnir í einangrun utan á húsi eru ekki nema örfáa sentimetra frá -10 kulda á vetrarnótt. Þá má ekki mikið út af bregða til að í lögnunum frjósi og hvað þá?

Þær geta sprungið og í næstu þíðu fossar vatnið niður undan klæðningunni. Þá er ekki annað til ráða en að fá pípulagningamenn á staðinn, líklega trésmiði einnig, til að fjarlægja klæðninguna og ekki má gleyma krana eða lyftubíl. En þá er eitt eftir, hvar er lekinn? Það segir lítið þótt vatnið fossi undan klæðningunni á háhýsi, er lekinn á fyrstu hæð eða þeirri sjöundu?

Nú segir einhver: „Þetta hefur ekki gerst hérlendis?“

Líklega ekki, enda eru þau hús ekki mörg sem eru með lagnir í einangrun utanhúss, en þau eru þó til.

Notum nú skynsemina og fjölgum þeim ekki.

Það er hægt að leggja miðstöðvarlögn á snyrtilegan hátt, bæði í eldri sem nýrri byggingar, án þess að troða lögnunum inn í einangrun.

Fleira áhugavert: