Staðsetning hússins, umhverfið, stofan, er hún nógu stór eða skemmtileg, svefnherbergin þægileg, er baðið rúmgott, hvernig er ástand hússins að utan, eru sprungur í veggjum, gluggar ófúnir og hvernig er bílskúrinn og lóðin? Allt tekur þetta sinn tíma en þetta er spennandi; að finna fjölskyldunni samastað til næstu ára eða áratuga.
Fasteignasalinn bendir á að það séu Danfosslokar á öllum ofnum og þar með er það útrætt, hann dregur heldur ekki undan að það þurfi að endurnýja pakkningar í blöndunartækinu í eldhúsinu og þétta með spindli á stopploka kalda vatnsins, annað var það ekki.
Að gera við lekana
Það má búast við því að húsið sé á milli 20 og 30 ára gamalt, kann að vera byggt á uppgangsárum sjötta áratugarins. Hinir nýju húseigendur vildu hafa allt á hreinu og allt í lagi. Pípulagningameistari var fenginn á vettvang til að kippa þessu smáræði í liðinn sem fasteignasalinn benti á, tæplega tæki þetta langan tíma né kostaði mikið.
En þessi pípulagningameistari var svolítið sérvitur. Hann starfaði eftir skrítinni reglu, leit á lagnakerfin sem sjúklinga og sig sem lækni, hann tilheyrði nokkurskonar heilbrigðisstétt þó aldrei hefði hann farið í verkfall. Því síður að útvarps- og sjónvarpsstöðvar hefðu verið uppfullar af viðtölum við hann og hans stéttarbræður um hvað allir væru vondir við þá.
Hann gerði ekkert með töng eða snitti, snuðraði hinsvegar um allt hús svo húseigendur urðu þeirri stund fegnastir þegar hann hvarf á braut með þeim orðum að þau fengju snarlega skýrslu frá honum.
„Eru píparar nú farnir að skrifa,“ stundi húsbóndinn, „nú þykir mér stungin tólg.“
Og áfram lak blöndunartækið.
Hvað sagði skýrslan?
Hún var heljarmikil lesning og sagði margt. Blöndunartækið í eldhúsinu var ekki aðeins lekt, það var ónýtt, nauðsynlegt að fara með snigla í allt frárennsliskerfið undir húsinu, jafnvel að láta mynda það.
„Við verðum að finna lítinn ljósmyndara sem ekki er of pempíulegur, ha, ha, ha,“ hneggjaði húsbóndinn.
Vatnslás undir handlaug ónýtur, Danfoss þrýstijafnara og slaufuloka þarf að hreinsa og skipta um pakkningar í, skipta um alla hita- og þrýstimæla, einnig öryggisloka sem var farinn að leka en einhver ráðagóður hafði lokað honum kirfilega með tappa, allir Danfosslokar á ofnum ónýtir, hitakostnaður alltof mikill, nýtingarhlutfall 2,2 samkvæmt álestrarsögu frá Hitaveitu Reykjavíkur.
„Eru þeir nú farnir að gefa út rómana,“ sagði frúin, „sér er nú hver déskotans vitleysan“
Og rúsínan í pylsuendanum; hitakerfið og neysluvatnskerfin þarf að hreinsa með sérstöku hreinsiefni sem dæla skal um rör og ofna í nokkrar klukkustundir.
„Á að nota Ajax eða Ariel Ultra,“ hnussaði frúin.
Húsbóndinn hringdi í meistarann og spurði með þjósti hvað þetta ætti að þýða, hann hefði verið beðinn um að þétta blöndunartæki og krana, því hefði hann ekki komið í verk en sent í þess í stað langloku á blaði um að allt væri ómögulegt.
Svar meistarans var dropinn sem fyllti mælinn;
„Ef þú ferð til læknis vegna þess að þú ert slæmur af gyllinæð og læknirinn finnur út að þú ert líka með of háan blóðþrýsting, magasár, botnlangabólgu og brjósklos í baki, á hann ekki að segja þér frá því?“
Sjúkrasaga hússins var hvergi skráð enda enginn til að skrásetja, lagnakerfin í húsinu höfðu aldrei haft neinn „heimilislækni“. Þannig er með lagnakerfi flestra þessara húsa 20 til 30 ára gamalla, á þau hefur aldrei verið litið, allt látið slampast meðan mögulegt var.
Því miður virðast húseigendur ekki gera sér grein fyrir því að reglubundið eftirlit og viðhald er besta forvörnin hvort sem um er að ræða bílinn, eigin skrokk og sál eða lagnakerfin. En þetta er ekki sök húseigenda, þetta er sök lagnamanna, hönnuða og iðnaðarmanna, þeir eiga að upplýsa húseigendur um það hvers þarf með.
En þar hafa þeir brugðist og það er nauðsynlegt að húseigendur skilji hver þörfin er og að þeir og fagmennirnir skilji hvorir aðra, húseigendur verða að geta treyst „sjúkdómsgreiningu læknanna“.