Löggiltur meistari – Verðlagning, verklýsing..

Heimild:

 

Janúar 1999

Viðskipti við verktaka

Verðlagning á vinnu og þjónustu pípulagningameistara er frjáls. Gakktu því frá því fyrirfram, á hvaða fjárhagslegum grundvelli meistarinn ætlar að vinna fyrir þig.

ORÐ eru til alls fyrst, stendur einhvers staðar, en einnig er sagt að orð geti verið dýr.

Það eru að hellast yfir okkur gífurlega mikil verkefni í endurnýjun eldri húsa, ekki síst endurnýjun lagna. Þetta hefur til þessa ekki verið stór þáttur í verkefnum byggingariðnaðarmanna og kemur til af því af við hófum ekki að reisa varanlegar byggingar að ráði fyrr en nokkuð var liðið á öldina. Skyndilega er til orðinn hérlendis fjöldi bygginga sem eru hálfrar aldar gamlar eða rúmlega það.

Endurnýjun lagna 

Þegar lagnir bila er ekkert undanfæri, viðgerð er nauðsynleg. En það verður aldrei nægilega brýnt fyrir húseigendum að í húsi sem er meira en þrjátíu ára gamalt er „viðgerð“ sjaldnast rétt leið, réttara er að tala um „endurlögn“, á þessu er mikill munur. Oft á tíðum verður mikið fjaðrafok þegar lagnir bila, það er rokið í að „redda“ hlutunum, rokið í símaskrána eða smáauglýsingar DV, fundinn einhver sem segist gera við lagnir, hann beðinn að koma og hann kemur.

En farðu þér hægt, hver er kominn?

Í fysta lagi skaltu kanna hvort sá sem kemur hefur öll réttindi, það er ekki einu sinni nóg að hann hafi meistararéttindi, því hann þarf einnig að hafa löggildingu í faginu. Þetta skaltu sannreyna, því ef hann hefur ekki löggildinu getur hann ekki haft uppfyllt þau skilyrði sem uppfylla þarf hjá byggingarfulltrúa og hitaveitu og það er húseigandanum í hag að allar tilkynningar og uppáskriftir séu í lagi, ef fara þarf í endurlögn kerfa í heild.

Fyrir ekki löngu voru iðnmeistarar þrælbundnir af verðlagsákvæðum, en svo er ekki lengur, verðlagning á vinnu og þjónustu pípulagningameistara er frjáls.

Þess vegna, fyrir alla muni; gakktu frá því fyrirfram á hvaða fjárhagslegum grundvelli meistarinn ætlar að vinna fyrir þig. Þar kemur þrennt til greina; hann getur unnið eftir tímataxta og hver er þá taxtinn? Hann getur unnið eftir mælingartaxta en hvert er einingargjaldið? Og að síðustu getur hann gefið þér fast tilboð í verkið.

Verklýsing og fleira 

Ekki síður er mikilvægt að það sé skilgreint fyrirfram hvað á að vinna, það er sjálfsagður hlutur, ef þetta er umtalsvert verk, að fá skriflega verklýsingu frá pípulagningameistaranum, ef teikning af lögninni liggur ekki fyrir, sem ætti að vera ef þetta er heildar endurlögn.

Þá er ekki síður nauðsynlegt að semja um það hvernig skuli greiða fyrir verkið, það er báðum í hag að um það sé rætt fyrirfram. Það gæti t.d. verið samkomulag um að 1/3 greiðist við upphaf verks, 1/3 þegar verkið er hálfnað og lokagreiðsla þegar verki er lokið í fullu samræmi við teikningar eða verklýsingu og eftir að byggingarfulltrúi hefur tekið verkið út, sé það tilkynningaskylt. Þá er sjálfsagt fyrir húseiganda að sannreyna hjá innlagnadeild Orkuveitu Reykjavíkur, eða sambærilegum veitum annars staðar, hvort pípulagningameistarinn hefur tilkynnt verkið eins og honum ber skylda til. Reikningurinn frá meistaranum á einnig að vera á löglegu númeruðu eyðublaði og á því á að koma fram m.a. virðisaukaskattsnúmer meistarans eða fyrirtækisins. Á reikningum á vinnuliður að vera færður sérstaklega, skiptir engu þó um fast heildartilboð sé að ræða og ekki síður er skylda að virðisaukaskattur komi fram sem sérstakur liður. Þetta er m.a. nauðsynlegt til að húseigandi geti útfyllt sérstakt eyðublað frá ríkisskattstjóra og fengið endurgreiddan hluta af virðisaukaskatti vegna vinnuliðar, slík endurgreiðsla er ekki fáanleg vegna efniskostnaðar.

Pípulagningameistarar hafa sín eigin samtök, Félag pípulagningameistara. Í því félagi eru einungis pípulagningameistarar með full réttindi, með löggildingu, húseigendur ættu ekki að hika við að leita til þess um upplýsingar en auk þessa félags má benda á Húseigendafélagið og Neytendasamtökin.

ENDURLÖGNUM fylgir mikið rask, þess vegna er nauðsynlegt að verja góðum tíma í undirbúning, upplýsingaöflun og til að festa alla enda áður en byrjað er á framkvæmdum.

Fleira áhugavert: