Google orka – Atlandshafs vindar
.
Ágúst 2011
Orkufyrirtækið Google og Atlantic Wind
Fjárfestingafyrirtækið Google Energy, sem er í eigu hins heimsþekkta Google, virðist hafa mikinn áhuga á endurnýjanlegri orku. Og verkefnin þar verða sífellt stærri.
Ekki veitir af, því Google hefur sett sér afar metnaðarfullt markmið í orkumálum: RE<C. Með fjárfestingum sínum í vel völdum orkuverkefnum hyggst Google sem sagt ná því fram að ódýrara verði að framleiða endurnýjanlega orku (Renewable Energy) heldur en með kolum (Coal).
Þessu markmiði segist Google Energy ætla að ná innan einungis nokkurra ára! Þetta markmið fyrirtækisins miðast við brátt verði unnt að ná kostnaði við að beisla vindorku mjög mikið niður. En þarna er mikið bil að brúa. Víðast hvar í heiminum er kolaorkan miklu ódýrari kostur til að knýja orkuver – og vindorkuverin eru einnig talsvert mikið dýrari en gasorkuver.
Þar að auki er verð á raforku í Bandaríkjunum almennt mikið lægra en það sem vindorkuverin þurfa að fá fyrir raforkuna til að rekstur þeirra geti borið sig. Algengt raforkuverð þar vestra er um 40-55 USD pr. MWst í heildsölu, en skv. Google þurfa ný vindorkuver a.m.k. 73 USD pr. MWst og þau sem eru á hafi úti þurfa miklu meira eða 196 USD.
Þess vegna eiga vindorkuverin enn sem komið er ekki raunhæfan rekstrargrundvöll nema þau njóti fjárhagslegrar aðstoðar í einhverju formi. Þar er ýmist um að ræða beina styrki af ýmsu tagi, skattaafslætti og/eða að aukagjöld séu lögð á kolvetnisorkuna (kolefnisskattur á útblásturinn eða skylda til að kaupa losunarkvóta).
En hjá Google Energy eru menn handvissir um að innan einungis eins áratugar verði hagkvæmni vindorkuvera orðin miklu meiri en er í dag. Og þá muni vindorkuverunum nægja raforkuverð sem nemur 47-60 USD pr. MWst (að núvirði) til að geta staðið á eigin fótum – og þá verða samkeppnishæf við kolaorkuverin. Í samræmi við þetta álítur Google Energy að markmiðið RE<C sé ekkert grín heldur þvert á móti fyllilega raunhæft og það jafnvel fyrir árið 2020.
Það eru reyndar nokkur ár síðan Google hóf að sýna endurnýjanlegri orku áhuga. Fyrirtækið hefur t.a.m. sett talsvert fé í jarðvarmaverkefni vestur í Kaliforníu. Fram til þessa hafa verkefni Google Energy á sviði orku þó verið fremur smá í sniðum. En núna álítur Google orðið tímabært að hugsa stórt. Og að þar sé vindorkan heppilegust. Í þessu skyni hefur fyrirtækið ákveðið að taka þátt í gríðarstóru vindorkuverkefni, sem áformað utan við austurströnd Bandaríkjanna.
Þetta risastóra vindorkuverkefni nefnist Atlantic Wind. Gert er ráð fyrir að fullbyggt verði Atlantic Wind með uppsett afl upp á 6.000 MW. Þarna er vel að merkja verið að tala um vinorkuver sem á að vera úti í sjó – langt utan við ströndina og jafnvel tugi km úti á landgrunninu. Tilgangurinn með því að reisa turnana fjarri landi er bæði að fá stöðugri vind og að forðast neikvæð sjónræn áhrif frá landi. Svona vindorkuver við strendur hafa einmitt mætt mikilli andstöðu vegna meintrar sjónmengunar og mikilvægt að forðast slíka árekstra.
Samtals eiga turnarnir sem bera þessa samtals 6.000 MW hverfla að verða á bilinu 1.200-2.000 talsins. Endanlegur fjöldi mun auðvitað ráðast af afli hverflanna. Í dag er sjaldgæft að vindhverflar séu stærri en 3 MW, en horfur eru á að senn verði nokkrir framleiðendur komnir með 5 MW túrbínur í fjöldaframleiðslu – og brátt jafnvel ennþá stærri. Þ.a. talan 1.200 turnar gæti senn orðið raunhæf.
Það er til marks um hversu stórhuga þessar áætlanir eru, að enn hefur ekki eitt einasta vindorkuver risið í sjó innan bandarískrar lögsögu. Nokkur vindorkuver eru í sjó við strendur N-Evrópu, en í Bandaríkjunum eru þau öll á landi enn sem komið er. Stutt er síðan leyfi fékkst til að reisa fyrsta bandaríska vindorkuverið í sjó, sem er u.þ.b. 450 MW Cape Wind utan við Þorskhöfða (Cape Cod) milli Boston og New York. Ennþá berjast þó eigendur margra glæsihýsa á strönd Þorskhöfða og aðrir andstæðingar Cape Wind gegn verkefninu fyrir dómstólum. Það er því ekki endanlega útséð um hvort Cape Wind verði að veruleika.
Bæði Cape Wind og ýmis önnur áformuð vindorkuverkefni við strendur Bandaríkjanna eru algerir smámunir þegar þau eru borin saman við Atlantic Wind. Enn er á huldu hvað þessi herlegheit – samtals 6.000 MW vindrafstöðvar langt útí sjó – munu koma til með að kosta. Til samanburðar má nefna að stærsta vindorkuver Dana á hafi úti, sem er fyrirhugað 400 MW vindorkuver Dong Energi við eyjuna Anholt langt úti í Kattegat, á að kosta um 10 milljarða DKK. Það jafngildir rétt tæpum 2 milljörðum USD eða um 5 milljónum USD pr. MW. Og kostnaðaráætlunin vegna Cape Wind við Þorskhöfða virðist vera á svipuðum nótum.
Eflaust þykir sumum sem þekkja til kostnaðar við byggingu og rekstur raforkuvera, að þessi kostnaður nálgist brjálæði. T.d. þegar haft er í huga að vindorkuver af þessu tagi munu vart skila meiri nýtingu en max. 35-40%. Hér má líka minnast þess að kostnaður við nýtt kjarnorkuver í Bandaríkjunum er talinn myndi verða um eða jafnvel innan við 4,5 milljónir USD. pr. MW. Er þó nýtingin þar miklu hærri en í vindorkunni.
Sé miðað við umrædda tölu danska vindorkuversins við Anholt, myndi Atlantic Wind (6 þúsund MW sinnum 5 milljónir USD pr. MW) kosta samtals um 30 milljarða USD! Þetta er rosaleg fjárfesting. En mikill kostnaður er einfaldlega sá raunveruleiki sem blasir við þegar menn fara í óhefðbundinn orkuiðnað, eins og vindorku á hafi úti.
Það skemmtilega er að Google Energy er ekki einu sinni farið að spekúlera í þessum kostnaði. Áður en að því kemur að byrja að reisa turna þarna langt úti í sjó, hyggst Google Energy nefnilega einbeita sér að því að byggja upp öflugt orkuflutningskerfi utan við austurströnd Bandaríkjanna.
Hugsunin er sú að slík háspennutenging sé alger forsenda þess að nokkru sinni verði hagvæmt að byggja vindorkuver utan við strönd Bandaríkjanna. Þessi hluti verkefnisins sem felst í háspennulínum meðfram ströndinni kallast Atlantic Wind Conncetion. Þetta á að verða um 400 km löng, tvöföld háspennulína, sem á að liggja eftir hafsbotninum ca. 15-30 km út af ströndinni, allt frá Norfolk í suðurhluta Virginíu og norður til New Jersey. Tengivirki í land verður svo reist á svona 4-5 stöðum og þaðan dreifist raforkan hefðbundnar leiðir til þéttbýlissvæðanna á austurströndinni.
Þetta nýja háspennukerfi á sem sagt að geta tekið við raforkunni frá gríðarlegum fjölda vindturbína og flutt hana langar leiðir til einhverra mestu þéttbýlissvæða Bandaríkjanna. Hjá Google Energy segja menn að þessi útfærsla muni gera orkuflutninga miklu hagkvæmari heldur en þegar byggðar eru tengingar í land fyrir hvert einasta vindorkuver af hefðbundinni stærð (líkt og gert hefur verið við Danmörku og annars staðar þar sem vindorkuver hafa verið byggð við strendur Evrópu). Fullyrt er þetta fyrirkomulag lækki kostnað við vindorkuver á hafi úti um u.þ.b. 20% og þar með muni vindorkan fyrr geta veitt kolaorkunni raunverulega samkeppni.
Þetta er eiginlega nýtt bisnessmódel í vindorkunni. Enda er Google þekkt fyrir að hugsa öðruvísi en flestir aðrir. Kostnaðaráætlunin vegna þessara rafmagnskapla hljóðar upp á litla 5-6 milljarða USD. Bara háspennulínurnar einar og sér (ásamt tengivirkjum og spennistöðvum) kosta sem sagt meira en eitt stykki kjarnorkuver upp á 1.000 MW. Og kostnaðurinn við þetta flutningskerfi er rúmlega 150% meiri en að reisa danska vindorkuverið við Anholt – sem þó þykir með metnaðarfyllri vindorkuverkefnum dagsins í dag. Þá er eftir allur kostnaður vegna sjálfra vindrafstöðvanna; 1.200-2.000 turnar með spöðum og hverflum; samtals 6.000 MW. Allur sá risapakki er eftir – og hann mun væntanlega kosta tugi milljarða dollara, eins og nefnt var hér að ofan.
Áætlað er að Atlantic Wind Connection verði reist í fimm skrefum. Fyrsti áfanginn á að vera nettur 200 km spotti milli New Jersey og Rehboth í Delaware. Kostnaðaráætlunin þar hljóðar upp á 1,8 milljarð USD og aðstandendur verkefnisins segja að þessum áfanga eigi að geta verið lokið snemma árs 2016. Allar háspennulínurnar í þessu risaverkefni yrðu aftur á móti í fyrsta lagi tilbúnar 2021.
Þessir háspennukaplar eiga að liggja í sjónum nokkuð langt útaf strönd fjögurra fylkja; New Jersey, Delaware, Maryland og Virginíu (og þar með í lögsögu alríkisins en ekki fylkjanna). Sjálfar vindrafstöðvarnar eiga að verða í álíka fjarlægð frá landi. Þarna út af austurströnd Bandaríkjanna er vel að merkja fremur hógvært dýpi.
Ríkisstjórar viðkomandi fylkja hafa keppst við að dásama verkefnið, enda er það til þess fallið að hjálpa þeim við að ná markmiðum um að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Ríkisstjórarnir hafa sömuleiðis sumir lýst sig andvíga áætlunuum þess efnis, að lagðar verði háspennulínur vestur á bóginn til að tengjast vindorkuverum þar á sléttunum miklu. Engu að síður er það staðreynd að þar langt í vestri eru náttúrulegar aðstæður hvað bestar og ódýrastar til nýtingar á vindorku í Bandaríkjunum. Vindorkuverin á sléttunum eru sennilega vel innan við helmingi ódýrari en að fara svona útí sjó. En svona er nú innanlandspólítíkin í Bandaríkjunum svolítið skrítin – rétt eins og kjördæmapotið á Íslandi.
Google er 37,5% hluthafi í Atlantic Wind Connection. Aðrir hluthafar eru svissneskt fjárfestingafyrirtæki sem nefnist Good Energies, stórt japanskt fjármálafyrirtæki sem kallast Marubeni og raforkuflutningsfyrirtækin Trans-Elect Development og Elia.
Hugmyndin að Atlantic Wind á sér nokkuð sérkennilegan aðdraganda. Þessi humynd mun nefnilega hafa fæðst í skíðalyftu í Vail í Colorado, þar sem forstjóri Trans-Elect lenti við hliðina á forstjóra Good Energies. Í kjölfarið á laufléttu lyftuspjalli þeirra upp fjallið var svo hóað í Google. Enda hafa menn þar á bæ bæði talað fjálglega um RE<C og líka um að Google stefni að því að verða kolefnishlutlaust. Google var því líklega ekki stætt á öðru en að segjast vilja vera með og fljótlega var Atlantic Wind komið á koppinn
Verkefni Google á sviði orkumála hafa fengið gríðarlega fjölmiðlaathygli, enda líklega fá fyrirtæki sem eiga jafn greiðan aðgang að fjölmiðlum heimsins. Staðreyndin er nú samt sú, að enn sem komið er hefur Google sett sáralítinn pening í þessi orkuverkefni. Ef Google Energy ætlar sér í alvöru að verða brautryðjandi í endurnýjanlegri orku þarf fyrirtækið að verða miklu stórtækara á orkusviðinu en verið hefur. Kannski er Atlantic Wind Connection eitt skref í þá átt.