Bretland, Sviss – Eignast virkjanir, Sæstreng?
.
Janúar 2019
Óheppilegir óvissuþættir um sæstreng
Tvö nátengd fyrirtæki, annað skráð í Bretlandi en hitt í Sviss, vinna nú að því eignast hér virkjanir og að sæstrengur til raforkuflutninga verði lagður milli Íslands og Bretlands. Þetta sæstrengsverkefni er áhugavert, enda er mögulegt að með raforkusölu til Bretlands (eða meginlands Evrópu) geti arðsemi af nýtingu orkulindanna á Íslandi aukist umtalsvert.
Á móti kemur að verkefnið gæti þróast þannig að það verði erlendur eigandi sæstrengsins sem einkum myndi njóta þess hagnaðar sem þarna kann að myndast. Það er líka athyglisvert að svissneska fyrirtækið sem er nátengt breska fyrirtækinu sem sækir það fastast að fá slíkan sæstreng lagðan, hefur nú eignast umtalsverðan hlut í HS Orku. Og sökum þess að hinn kanadíski meirihlutaeigandi HS Orku hefur nú kynnt áhuga sinn á að selja þá eign sína, er mögulegt að svissneska fyrirtækið eignist ríflegan meirihluta í HS Orku.
Þar með yrði mögulegt að sú raforka sem HS Orka selur nú til álvers Norðuráls í Hvalfirði, yrði seld til Bretlands um sæstrenginn. Reyndar gæti öll raforkuframleiðsla HS Orku farið í strenginn og þá mögulega einnig það rafmagn sem framleitt yrði í fyrirhugaðri Hvalárvirkjun á Ströndum, en HS Orka á meirihluta hlutabréfanna í því verkefni.
Í liðinni viku fóru fram tveir athyglisverðir fundir í Reykjavík, þar sem sæstrengur til Bretlands var mikilvægur þáttur í fundarefninu. Annars vegar var það fundur á vegum Landsvirkjunar þar sem kynnt var ný skýrsla um yfirvofandi mikla aukningu í arðsemi fyrirtækisins og hvernig ráðstafa megi þeim arði. Hins vegar var fundur á vegum Félags atvinnurekenda þar sem fjallað var um þriðja orkupakka Evrópusambandsins (ESB) og áhrif hans á Íslandi, þ.m.t. gagnvart sæstreng.
Það vakti athygli þess sem hér skrifar að á þessum fundum var lítt minnst á nokkur mikilvægustu atriðin sem snerta slíkan sæstreng. Þá er einkum átt við þá lagalegu óvissu sem virðist vera uppi um það hvort íslenskum stjórnvöldum væri heimilt að neita sæstrengsfyrirtæki um að tengjast flutningskerfi Landsnets eða það hvort íslensk stjórnvöld yrðu skuldbundin af ákvörðunum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um nýtingu sæstrengs. Svo og er það atriði hvort eðlilegt sé að sæstrengur og virkjanir á Íslandi verði í eigu sama fyrirtækis eða nátengdra fyrirtækja.
Að mati greinarhöfundar er mikilvægt að fram fari breið umræða um þessi atriði og að vönduð greining eigi sér stað um þessi álitaefni. Um leið er mikilvægt að skýr afstaða stjórnvalda og ríkisstjórnar liggi fyrir um þessi álitaefni, áður en til þess kemur að Alþingi samþykki að innleiða þriðja orkupakkann án fyrirvara.
Þarna eru á ferðinni afar mikilvægir þjóðhagslegir hagsmunir. Það er grundvallaratriði að hnýta þá lausu enda sem nauðsynlegt kann að vera til að tryggja að við sitjum ekki allt í einu uppi með sæstrengsverkefni sem skili litlu til íslensks almennings og íslenskra orkufyrirtækja í opinberri eigu. Greinarhöfundur er sem fyrr talsmaður þess að leita leiða til að auka arðsemi í íslenska raforkugeiranum, enda hefur arðsemin þar verið lág. Um leið er greinarhöfundur á varðbergi gagnvart fákeppni og einokunaraðstöðu.
Gætum þess að sýna fyrirhyggju.