Orkuvinnsla, skattheimta – Endurskoðun, sveitarfélögin

Grein/Linkur: Endurskoða skattheimtu af orkuvinnslu

Höfundur: Alexander Kristjánsson, Hafdís Helga Helgadóttir

Heimild:

.

.

Maí 2023

Endurskoða skattheimtu af orkuvinnslu

Umhverfisráðherra segir unnið að breytingum á skattkerfinu, sem eiga að auka tekjur sveitarfélaga af virkjunum í þeirra landi. Það sé sanngirnismál að tekjur renni í auknum mæli til nærsamfélagsins.

Stjórnvöld hafa hafið vinnu við endurskoðun skattkerfisins með það að markmiði að auka tekjur sveitarfélaga. Það er sanngirnismál að mati umhverfisráðherra.

Kröfur sveitarfélaga um aukna hlutdeild voru til umræðu á orkufundi á Hótel Hilton í Reykjavík í morgun.

Sex sveitarfélög hið minnsta hafa sett virkjanatengd skipulagsmál á ís. Þau vilja ekki frekari virkjanir í sínu landi meðan ekki fást meiri tekjur. Undir það falla helstu virkjanakostir Landsvirkjunar, svosem Hvammsvirkjun í Þjórsá og stækkun Sigölduvirkjunar í Ásahreppi.

Gæti skilað milljörðum frá orkuframleiðendum til sveitarfélaga

Samtök orkusveitarfélaga skiluðu á dögunum tillögum til ráðherra um breytingar á skattkerfinu. Þær ganga að mestu út á að fallið verði frá undanþágum fyrir skatta á virkjanir.

„Við erum í raun bara að draga fram þá augljósu staðreynd að orkuvinnsla er undanþegin sköttum. Þetta er eina atvinnugreinin sem er undanþegin tekjustofnum sveitarfélaga,“ segir Haraldur Þór Jónsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps formaður samtakanna.

Hann vísar til þess að öll mannvirki tengd virkjunum eru undanþegin fasteignagjöldum, ef frá eru talin stöðvarhúsin. Talið er að virði virkjana og annarra tengdra mannvirkja sem ekki bera fasteignagjöld, sé um þúsund milljarðar króna.

Væru fasteignagjöld innheimt gæti það skilað sveitarfélögum í orkuvinnslu um 15 milljörðum króna á ári.

„Það er ekki hægt að hafa stöðuna þannig að Alþingi ákveði í rammaáætlun hvar á að virkja. Þar er búið að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögunum og þeim ber að innleiða virkjanir á sama tíma og við höfum ekki tekjur af starfseminni,“ segir Haraldur.

Stjórnvöld skoða málið

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra hefur ítrekað lýst yfir vilja til breytinga. „Öll þau lönd sem við berum okkur saman við eru með það fyrirkomulag að nærsamfélagið fái að njóta þess efnahagslega að vera með virkjanir,“ segir Guðlaugur.

Fram kom í máli hans á þinginu að ef skattheimta væri með sama hætti og í Noregi gætu sveitarfélög áttfaldað tekjur sínar af starfseminni, en þá vitanlega á kostnað orkufyrirtækjanna.

Þá benti Guðlaugur Þór á að eitt sinn hefðu ekki aðeins orkumannvirki verið undanþegin fasteignagjöldum, heldur einnig fasteignir í eigu ríkisins. Því hefur síðan verið breytt.

Á síðasta ári fékk Reykjavíkurborg 2,3 milljarða króna í gjöld af fasteignum ríkisins, um 65% af heildartekjum sveitarfélaga af fasteignum ríkisins.

„Ég held að menn hljóti að sjá sanngirnisrökin í þessu.“

Fleira áhugavert: