Rör í rör – Merk nýjung, framtíð
Júli 1997
Merk nýjung, sem á framtíð fyrir sér
Rör í rör kerfið byggir á því, að plastlagnir eru dregnar inn í aðrar plastlagnir á sama hátt og rafþræðir inn í rafmagnsrör. Skipta má um hvort tveggja síðar, ef þörf krefur.
Það skiptir alla þjóðfélagsþegna miklu máli hvaða lagnir og hvaða lagnaleiðir eru valdar í hverskonar húsbyggingar. Það væri að bera í bakkafullan lækinn að tíunda einu sinni enn hve mikill fórnarkostnaður vatnsskaðanna á undanförnum árum er. Ef til vill finnst sumum einkennilegt að nefna þetta fórnarkostnað en það er vissulega réttnefni, íhaldssemi á gallaðar lagnahefðir, misheppnaður byggingamáti, rangt val á bygginga- og lagnaefnum og ekki síst fjársvelti þeirra stofnana sem eiga og geta rannsakað hvaða efni henta okkur hérlendis, miðað við okkar séríslensku forsendur, þarna liggja mistökin Það er nú svo einkennilegt, já svo furðulegir fuglar erum við Íslendingar, að á meðan við höldum dauðahaldi í úr sér gengnar aðferðir í lagnamálum, berjast margir hverjir með allt að því offorsi gegn hverskonar nýjungum. Á meðan það þykir sjálfsagt og óumflýjanlegt að hinar hefðbundnu leiðir valdi stórfeldum skaða er samt haldið áfram á sömu braut, en ef það verða eitt eða tvö lítil óhöpp við notkun nýrra efna, vegna mannlegra mistaka eins og er í tísku að segja, þá getur það orðið dauðadómur yfir nýjum lagnaefnum, nýjum lausnum.
Um tvær leiðir að velja í framtíðinni
Lagnir eru og verða nauðsynlegar í öll hús, við þurfum hitalögn, neysluvatnslögn heita og kalda og frárennslislögn, þetta eru fjögur aðskilin kerfi. Mannskepnan heldur að hún sé svo fjári klár en ætli hún eigi ekki nokkuð langt í land að ná hinum hæsta höfuðsmið sem tókst í árdaga sköpunar að hanna eitt kerfi í manninn, blóðrásina, sem er öll þessi fjögur kerfi í sömu pípulögn. En aftur að einfaldari tækni og reynum að svara spurningunni; hvaða lagnaleiðir og hvaða lagnir eigum við að velja í húsið? Lagnaleiðirnar geta verið tvær; í fyrsta lagi huldar lagnir inni í veggjum og einangrun, í öðru lagi sýnilegar lagnir sem alltaf verða aðgengilegar. Hvaða lagnakerfi koma þá til greina?
Í sýnilegum lögnum er um ýmislegt að velja, það eru til lagnakerfi úr grönnum þunnveggja stálrörum með þrykktum tengjum eða skrúfaðar lagnir með þéttihringjum, það eru til lagnakerfi úr plasti ásamt öllum tengimöguleikum, bæði tengi úr plasti þar sem allt er soðið saman eða tengi úr málmi fyrir þau. Í huldum lögnum kemur aðeins eitt til greina, hið svokallaða rör-í-rör kerfi sem hefur verið allmikið í umræðunni að undanförnu og þar erum við komin að kjarna málsins, ræðum svolítið nánar um rör-í-rör kerfið, gerum utanáliggjandi lagnakerfum skil síðar.
Ofsagt og vansagt
Rör-í-rör kerfið byggir á því að plastlagnir eru dregnar inn í aðrar plastlagnir á sama hátt og rafþræðir inn í rafmagnsrör, um hvorutveggja má skipta síðar ef þörf krefur.
En þá kemur stóra spurningin; fá neytendur, kaupendur, húsbyggjendur réttar upplýsingar um verð og gæði?
Ef við skoðum það fyrrnefnda þá er það staðreynd að menn fá ekki alltaf réttar upplýsingar. Það er ekki óeðlilegt að sá sem á að borga að lokum fari þá einu leið sem hann sér til að gera sér grein fyrir kostnaði og spyrji: „Er þetta nýja rör-í-rör kerfi ódýrara eða dýrara en hið hefðbundna, snittuð, skrúfuð rör sett inn í veggi? Í flestum tilfellum fær spyrjandinn það svar að rör-í-rör kerfið sé umtalsvert og jafnvel mikið dýrara en hið hefðbundna.
Er það rétt?
Í fyrsta lagi mætti benda á að vissulega mætti það vera nokkru dýrara, hver og einn getur gengið að því vísu að hann sé að spara í framtíðinni. En það er nokkuð sem menn gefa lítið fyrir í núinu þegar verið er að byggja og fjársjóðirnir ekki of dygrir, þau rök duga því skammt.
En að rör-í-rör kerfið sé dýrara er einfaldlega rangt en hvers vegna fullyrða svo margir að svo sé þrátt fyrir allt?
Skýringin er einföld, forsendurnar eru ekki réttar. Einhverjir tóku upp á því að fullyrða að ef lagt væri rör-í-rör kerfi þyrfti búnað sem ekki þyrfti við hefðbundið kerfi. Þessi búnaður er millihitari, öðru nafni varmaskiptir, sem síðan hefur í för með sér kostnað við dælu og tvöföldan stjórnbúnað. Og hvers vegna telja menn að það sé nauðsynlegt að nota þennan búnað frekar fyrir rör-í-rör kerfi en hefðbundin kerfi? Svarið er yfirleitt að það sé vegna þess að rörin séu úr plasti. Þvílík rök, þau eru álíka gáfuleg og að segja að maður í Flóanum þurfi alltaf að ganga í stígvélum vegna þess að hann er svo nálægt sjávarmáli þegar maður í Hreppunum geti gengið á strigaskóm.
Það vill svo vel til að pexrörin, sem við notum í rör-í-rör kerfin, eru þrautreynd hérlendis við íslenskar aðstæður. Pexrörin sem notuð eru í hitakerfin þola 8,5 bör eða tvöfaldan vinnuþrýsting og pexrörin sem notuð eru fyrir neysluvatnslagnir 12,5 bör eða þrefaldan þann þrýsting sem er á þeim kerfum. Þegar þar við bætist að það er hægt að vitna í allt að aldarfjórðungsreynslu þessara röra hérlendis, þarf varla frekari vitnanna við, við þurfum ekki þennan aukabúnað vegna þess að við erum að leggja úr plaströrum og þarmeð eru rör-í- rör kerfin alls ekki dýrari kostur og auðvitað mikið ódýrari þegar litið er til framtíðar.
En hvernig fá þá svona ýmsar fullyrðingar vængi? Einfaldlega þannig að einhver tæknimaðurinn eða verslunarmaðurinn byrjar að fullyrða þetta og þá apa allir hinir eftir. Við erum svo mikið svoleiðis, eða hvað?