Ekki samþykkt – Vísa skal í vottun..

Heimild: 

 

September 2000

Aðilar sem tengjast byggingariðnaði og lagnamálum telja ekki að ákvörðun byggingafulltrúa Reykjavíkur muni skapa vandræðaástand í byggingariðnaði, en hann hefur sent lagnahönnuðum, pípulagningameisturum og lagnaefnasölum bréf, þar sem fram kemur að eftir 1. desember nk. verði ekki samþykktir uppdrættir af lagnakerfum nema á þeim sé vísað til vottaðrar vöru og að lagnakerfi muni ekki hljóta úttekt nema sannað sé að efni hafi hlotið vottun. Ljóst er að einungis örlítið brot af lagnaefnum hefur löggilta íslenska vottun og að engin íslensk framleiðsla lagnaefna hefur hlotið slíka vottun.

Gísli Gunnlaugsson

Gísli Gunnlaugsson, formaður Félags pípulagningameistara, segist ekki vilja líta svo á að vandræðaástand skapist eftir 1. desember, enda telur hann það óþarfa fjaðrafok að setja þessi mál í uppnám núna, á meðan umhverfisráðuneytið sé að vinna að nýrri reglugerð varðandi vottun lagnaefna.

Hann segir þó að lögum um vottun efna sé ekki fylgt eftir í dag, og að nú skelli holskefla af nýjum lagnaefnum yfir sem valdi byggingafulltrúum að sjálfsögðu vandræðum. Gísli bendir þó á að flest þessara efna séu vottuð erlendis frá, enda hafi Íslendingar sjálfir engar aðstæður til að útbúa vottanir fyrir slík efni.

„Auðvitað er það þannig, að menn eiga að nota vottuð efni, en það er spurning hvaða vottun er farið eftir og hvort við getum ekki notað vottuð efni sem koma frá Norðurlöndunum. Meira að segja eru þessar vottanir hérna heima þannig, að þetta eru vottanir utanfrá sem eru þýddar hér.“

Engin vottun á íslenskri framleiðslu

Grétar Leifsson

Grétar Leifsson, framkvæmdastjóri hjá Ísleifi Jónssyni, segir að ástandið sé þannig í dag, að örfá lagnaefni hafi vottun frá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, sem tók upp vottun á lagnaefnum fyrir nokkrum árum. En þá er einungis um að ræða vottun á innfluttum efnum, því íslenskir framleiðendur hafi ekki séð ástæðu til þess að fá vottun á neina af þeim lagnavörum sem framleiddar eru hérlendis.

„En almennt séð, ef við tökum sem dæmi okkar fyrirtæki, þá reynum við að hafa vörur á boðstólum sem eru markaðssettar með vottun á Evrópusambandssvæðinu, og fyrst og fremst frá Skandinavíu og Þýskalandi.“

Að sögn Grétars er almennur skilningur á því hérlendis, líkt og innan Norðurlandanna, að hafi efni fengið viðurkenningu frá einu landinu, sé jafnframt hægt að nota það í öðru landi. „Það er hin almenna regla og sá skilningur sem verið hefur lengi, að efni, sem t.d. er vottað í Danmörku, sé óhætt að nota hérlendis, eftir því sem vottunin greinir á um. Þannig höfum við skilið þetta í mörg ár. Ef sá skilningur væri ekki væri ástandið mun óljósara.“

Pétur Guðmundsson, framkvæmdastjóri byggingaverktakafyrirtækisins Eyktar hf., segir að ákvörðun byggingafulltrúa muni ekki valda fyrirtækinu vandkvæðum. Eykt hefur að mestu verið með undirverktaka í pípulögnum og þeir hafa nánast eingöngu notað vottuð efni. Í dag er einungis verið að ræða um vottun lagnaefna, en Pétur segir að menn þurfi jafnframt að undirbúa sig í byggingariðnaðinum varðandi vottun efna almennt, því kröfur um slíkt eigi eftir að verða háværari varðandi fleiri efni en lagnaefni.

Fleira áhugavert: