Rússnest gas – 25-30% af notkun Evrópubúa

Grein/Linkur:  Orkuskortur í Evrópu?

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Júní 2014

Orkuskortur í Evrópu?

EU-Russia-Gas-Dependency-1

EU-Russia-Gas-Dependency-1

Rússneski gasrisinn Gazprom hefur verið að hóta að skrúfa fyrir gasflæði til Úkraínu – nema gasið fáist staðgreitt. Ástæðan er sögð vera mikil vanskil Úkraínumanna á greiðslum fyrir rússneskt gas (vanskilin eru sögð nema jafnvirði hundruða milljarða ISK).

Úkraína fær samtals um 70% af því gasi sem notað er í landinu frá rússneskum gasleiðslum. Lokunaraðgerðir af þessu tagi myndu því valda Úkraínumönnum geysilegum vanda. Og slíkar aðgerðir gætu einnig haft mikil áhrif í Evrópu. Árlega fá þjóðir innan Evrópusambandsins (ESB) um fjórðung af allri raforku sinni frá gasorkuverum. Mikið af því gasi kemur frá Rússlandi í gegnum gasleiðslurnar sem liggja um Úkraínu.

Í Evrópu er gas ekki bara notað til raforkuframleiðslu. Það er einnig mikið notað beint, t.d. til eldunar og húshitunar. Jarðgas er því afar mikilvægur orkugjafi í Evrópu. Og mjög hátt hlutfall af öllu þessu gasi, sem Evrópa notar, er rússneskt gas frá Gazprom.

EU-Russia-Gas-Dependency-20

EU-Russia-Gas-Dependency-20

Hlutfall Gazprom í gasnotkun allra ríkjanna innan ESB er samtals um 25-30% af gasnotkun þeirra (þetta hlutfall er nokkuð breytilegt fra ári til árs). Hátt í helmingurinn af þessu rússneska gasi kemur til Evrópu um gasleiðslur sem liggja gegnum Úkraínu. Gasið sem þannig fer til Evrópu gegnum Úkraínu er allt að 15% af öllu því gasi sem Evrópa notar.

Ef þetta gas myndi hætta að berast yrði höggið sennilega mest fyrir lönd eins og Tékkland, Slóvakíu og Ungverjaland. Öll nota þessi ríki mikið af rússnesku gasi og fá geysihátt hlutfall þess um gasleiðslurnar sem liggja gegnum Úkraínu. Lokun á gasstreymið um Úkraínu myndi einnig hafa umtalsverð áhrif á fjölmennasta land Evrópu; Þýskaland. En Þýskaland hefur lengi verið stærsti kaupandinn að rússnesku gasi.

Um leið og skrúfað yrði fyrir gasflæðið um Úkraínu sjá margar Evrópuþjóðir sem sagt fram á verulegan vanda. Sá vandi skellur þó ekki á eins og hendi sé veifað, því víða innan Evrópu eru geymdar umtalsverðar birgðir af gasi. Þær birgðir myndu sennilega duga í nokkra mánuði og því er orkuskortur ekki alveg yfirvofandi.

EU-Russia-Gas-Dependency-3-NYT

EU-Russia-Gas-Dependency-3-NYT

Áhyggjurnar beinast því að því ef gasstreymið gegnum Úkraínu félli niður í lengri tíma. Það er þó afar ólíklegt að til þess komi. Þjóðirnar innan ESB eru lang mikilvægustu viðskiptavinir Gazprom. Bæði fyrirtækið og rússneska ríkið eru afar háð tekjunum sem gassalan til Evrópu skilar (rússneska ríkið færi nær samstundis í þrot ef ekki væri fyrir Evróputekjur Gazprom). Það væri því galið ef Gazprom lokaði á gasstreymið um gasleiðslurnar til Úkraínu og því varla mikil hætta á alvarlegum orkuskorti innan ESB.

Þetta ótrygga ástand er þó engan veginn viðunandi. Enda er það eitt af forgangsmálum bæði ESB og ríkisstjórna margra Evrópuríkja að efla aðgang sinn að orku og auka þannig orkuöryggi sitt. Ástandið gagnvart Gazprom er til þess fallið að ríkin innan ESB leggi ennþá meiri áherslu á að afla orku annars staðar frá og það jafnvel þó svo slík orka kunni að vera umtalsvert dýrari. Þessi stefna gæti nýst Íslandi vel, með útflutningi á raforku um sæstreng með mikilli arðsemi fyrir Íslendinga. Þannig kann framferði Gazprom að verða vatn á myllu Íslands.

Fleira áhugavert: