Efast um ágæti galv. stálpípna..

Heimild: 

 

Desember 1997

Hvað segja þeir í Danmörku? 

Það er víðar en á Íslandi, sem menn eru farnir að efast um ágæti galvaniseraðra stálpípa í neysluvatnskerfi.

FÉLAG pípulagningameistara samþykkti róttæka tillögu á fundi nýlega um notkun á galvaniseruðum stálpípum í neysluvatnskerfi. Þá var skorað á byggingayfirvöld á höfuðborgarsvæðinu að stöðva sem fyrst notkun á galvaniseruðum stálpípum, vegna þeirra miklu galla sem komið hafa í ljós á síðustu árum á fyrrnefndum pípum.

Þessir gallar eru tæring að inn anverðu, einkum í kalda vatnsleiðslum. Þessari samþykkt pípulagningameistara hefur verið tekið misvel, ýmsir fullyrða að vandinn sé ekki svo mikill sem kemur fram í þessari ákveðnu tillögu og áskorun, hér sé verið að mála skrattann á vegginn.

En pípulagningameistarar ætla að fylgja þessu eftir með því að safna sýnum úr eldri leiðslum í flestum hverfum höfuðborgarsvæðisins og sýna leikum sem lærðum í byrjun næsta árs.

Ætlunin er ekki að sanna eitt né neitt, heldur að sýna hvernig ástandið er.

Þá verða allir betur í stakk búnir til að taka afstöðu til hvort þeir vilja nota áfram galvaniseraðar stálpípur í neysluvatnslagnir. En það er víðar en á Íslandi sem menn eru farnir að efast um ágæti þessa lagnaefnis.

Raforku- hita- og vatnsveitur landsins eiga sér samtök sem nefnast Samorka og gefa þau út hið ágætasta fréttabréf.

Í fréttabréfi nr. 17 er fróðleg endursögn á grein eftir danskan sérfræðing, Finn Yding, sem hann birti í í fréttabréfi danska veitusambandsins og er þá best að gefa þeim danska orðið og er hér á eftir fjallað um ástandið í Danmörku, orðrétt úr fréttabréfi Samorku.

Galvaniseruð stálrör

Fyrir ekki svo mörgum árum voru galvaniseruð stálrör allsráðandi í neysluvatnslögnum. Þau eru nú á leið út. Þessi rör hafa alltaf valdið tæringarvandamálum og svo snemma sem 1944 var sett á fót nefnd, „Rörtæringanefndin“, til að skoða þetta vandamál. Oftast tærast samsetningar en einnig í beinum rörum. Þrátt fyrir rannsóknir til margra ára hefur ekki fundist nein lausn.

Koparrör koma til sögunnar

Í kringum 1960 var byrjað að nota eirrör og næstu árin voru þau mikið notuð fyrir smærri stærðir. Eirrörin voru til að byrja með talin ryðfrí en svo reyndist ekki vera. Þau hafa í gegnum árin valdið töluverðum vandamálum. Árið 1960 sögðu hönnunarreglur í Danmörku að galvaniseruð rör skyldu vera frí og aðgengileg. Þetta þýddi að það voru aðeins koparrör sem máttu vera falin. Þau voru lögð alveg ókrítiskt, t.d. steypt niður í baðherbergisgólf sem hafði það í för með sér að þegar rörin gáfu sig kostaði það mikið umstang og mikið fé að gera við. Menn hafa nú lært að nota koparrör rétt og ef farið er eftir VA viðurkenndum leiðbeiningum um lagningu þeirra eru þau án vandræða einungis er óleyst það vandamál, að það hefur ekki verið leyst að vatn tekur í sig kopar úr rörunum. Skv. reglum má kopar mælast mest 3 mg í hverjum lítra vatns. Það hefur sýnt sig að vera erfitt að halda þessi mörk og því er notkun koparröra minnkandi, sérstaklega í stærri rörastærðum. Þau henta þó ágætlega í mörgum tilfellum.

Ryðfrí stálrör

Ryðfrítt stál er efni sem töluvert er notað í neysluvatnslagnir í dag. Tilraunir sem áður hafa verið gerðar með þetta efni strönduðu á of erfiðri og dýrri samsetningartækni. Árið 1986 fékkst VA viðurkenning á ryðfríum stálrörum með pressufittings, sem þá höfðu verið í notkun í Þýskalandi í nokkur ár. Í fyrstu voru þessi rör aðeins til í minni stærðum en í dag fást þau að stærð 104 mm. Með pressufittings eru O hringir, sem með prófunum hafa sýnt endingartíma upp í minnst 50 ár. Það hefur sýnt sig að ef vatnið inniheldur mikinn klór þá er hætta á tæringu í samsetningum. Klórinnihaldið má ekki fara yfir 150 mg/l.

Plaströr á leið fram

PEX-rör með samsetningarfittings hafa verið VA viðurkennd á markaðnum síðan 1973 og þau hafa reynst vel. Þau eru laus við hefðbundin tæringarvandamál, líftími áætlast 50 ár við notkunartíma upp á 90 gr C.

Þau skulu leggjast aðgengileg. Hægt er að leggja þau í stokka, t.d. undir gólf. Ef þau bila er hægt að draga þau úr úr stokknum og setja ný í staðinn. Það hefur þó sýnt sig að þau verða stökk með tímanum og þá verður erfitt eða e.t.v. ómögulegt að draga þau úr ef á þeim eru beygjur og með litlum beygjuradíus.“

Nokkur lokaorð

Þá er lokið beinni tilvitnun í Fréttabréf Samorku og litlu við að bæta og þó.

VA viðurkenning, sem nefnd er nokkrum sinnum í greininni, er samnorræn viðurkenning á lagnaefni í neysluvatns- og frárennslislagnir og af því að ýmist er talað um kopar og eir þá er rétt að taka fram að það er sami málmurinn.

Eitt verður þó að leiðrétta hjá þeim danska, ryðfrí stálrör þola engan veginn svo hátt hlutfall af klór sem 150 mg á lítra, hámarkið er 0,05 mg á lítra, það munar um minna.

Þá er athyglisvert að sjá að Pex- rör hafa verið viðurkennd í Danmörku frá 1973. Nær aldarfjórðungi síðar eru íslenskir embættismenn enn að þvælast fyrir, gegn því að þetta ágæta lagnaefni fáist viðurkennt hérlendis, íslenskum húsbyggjendum og neytendum til stórtjóns.

Sumir fæðast of snemma, verða á undan sinni samtíð. Aðrir fæðast of seint, hefðu betur verið embættismenn í kanselíinu í Kaupmannahöfn við fótskör kóngsins fyrir einni eða tveimur öldum. ÞAÐ ER dapurlegt og óskynsamlegt að standa gegn þróun í lagnamálum sem öðru.

Fleira áhugavert: