Plaströrastríðið – Bann á plaströr

Grein/Linkur: Plaströrastríðið

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

Nóvember 2004

Plaströrastríðið

Stríðið um plaströrin hefur staðið í áratugi á Íslandi. Sterkir „páfar“ hafa í krafti þekkingar sinnar barist gegn því að plaströr væru leyfð til notkunar innanhúss og það voru einkum svonefnd pexrör sem urðu fyrir barðinu á mótstöðu hinna vísu.

Hins vegar höfum við notað plaströr til utanhússlagna í hálfa öld, eða allt frá því að framleiðsla slíkra röra hófst á Reykjalundi. Margar vatnsveitur, sem miðla köldu vatni, fóru fljótlega að nota polyeten-rörin svörtu frá Reykjalundi, svo víða hafa menn drukkið vatn sem leitt er gegnum þau í hálfa öld.

En nú hefur sá sigur unnist að plaströr hafa verið leyfð hérlendis til lagna innanhúss, bæði til notkunar í hitakerfi sem neysluvatnskerfi. Þar er aðallega um að ræða tvær tegundir, annars vegar pexrör, hins vegar álplaströr. En plaströr eru nú ekki einungis notuð til að leiða kalt vatn um allar holtagrundir eða í götur í þéttbýli, Orkuveita Reykjavíkur hefur brotið ísinn, ef svo má segja um lagnir fyrir heitt vatn, og notar nú plaströr í heimæðar fyrir heitt vatn og hefur lagt víðáttumikla hitaveitu í Grímsnesi úr pexplaströrum.

Baráttan um notkun plaströra hérlendis hefur verið háð af tæknimönnum og embættismönnum byggingareftirlits, þar hafa pólitíkusar hvergi komið nálægt sem betur fer.

En það er víðar en á Íslandi sem plaströr eiga undir högg að sækja og eru umdeild, svo er einnig í Danmörku.

Og þaðan berast furðuleg tíðindi.

Frá þjóðþingi Dana

Plaströr hafa verið leyfð hérlendis til lagna innanhúss, bæði til notkunar í hitakerfi sem neysluvatnskerfi.

Plaströr hafa verið leyfð hérlendis til lagna innanhúss, bæði til notkunar í hitakerfi sem neysluvatnskerfi

Hvarvetna er fylgst náið með hugsanlegum aukaefnum í matvælum og þar með talið drykkjarvatni, sem skaðleg geta talist, það gera Danir að sjálfsögðu.

Á Fjóni, einni af stærri eyjum Danaveldis, uppgötvaðist að efni sem fenól nefnist, og er í rauninni efnaflokkur, reyndist yfir löglegu hámarki í einni lítilli vatnsveitu. Það var Danski tækniháskólinn (DTU) sem fann þetta út og kunngjörði.

Hérlendis hefur Iðntæknistofnun kannað hvort plaströr skila þessum efnum í drykkjarvatn og gefið út um það skýrslu og nefnir efnin þar andoxunarefni, en þau eru sett í plaströrin til að verja þau fyrir eyðingarmætti andrúmslofts og sólar.

En nú gerðist nokkuð óvænt í Danaveldi. Pólitíkusar á landsvísu komust á snoðir um málið og það var tekið upp á þjóðþinginu. Það var stjórnarandstaðan sem tók það upp á þinginu en hana skipa fjórir flokkar, Danski þjóðarflokkurinn, Jafnaðarmenn, Róttæki flokkurinn og Sósíalíski þjóðarflokkurinn (Vinstri grænir?). Þeirra tillaga er að notkun plaströra í drykkjarvatnsleiðslur verði bönnuð með öllu í Danmörku í eitt ár meðan þessi „válegu“ tíðindi eru könnuð og rannsökuð til botns.

Ef stjórnarandstaðan hefði borið eitthvert plaströravandamál inn á Alþingi Íslendinga hefði það að öllum líkindum dagað uppi eða verið þagað í hel. Þannig fer það einnig oftast á Danska þjóðþinginu.

En nú urðu enn mikil tíðindi. Ríkisstjórnarflokkarnir, Íhaldsflokkurinn og Venstre (sem er hægri flokkur þrátt fyrir nafnið) eru samkvæmt frétt í Jyllands Posten búnir að kokgleypa tillögu stjórnarandstöðunnar svo ekki er við öðru að búast en að bannið verði sett.

Er vá fyrir dyrum?

En hver er ógnin, er hún raunveruleg? Fenól er efnaflokkur sem er víða til í náttúrunni og óhjákvæmilegt er að við fáum það með matnum og ekki nóg með það; fenól í hófi er talið til bóta og talið vörn gegn ýmsum sjúkdómum.

Meðal þeirra fæðutegunda sem eru rík af fenóli er grænmeti og ávextir, þó að það sé í mjög mismunandi magni eftir tegundum. Öll ber eru með fenóli svo við höfum fengið slatta af því í nýliðinni berjatíð, þó eigum við víst ekki kost á þeim berjum sem eru ríkust af fenóli en það eru trönuber.

Það verður að teljast til stórtíðinda ef Danska þjóðþingið setur á tímabundið bann við notkun plaströra til neysluvatnslagna af ekki meiri ástæðu en að fenól væri örlítið yfir leyfilegum mörkum.

Þetta er mikilvægt atriði; fenól er ekki eitthvert eitur sem alls ekki má vera í matvælum eða drykkjarvatni, aðeins ekki í of miklu magni.

Þessu má líkja við það að þó að vítamín séu nauðsynleg eru sum þeirra frekar en önnur óæskileg í miklu magni.

Vonandi verður þessi umfjöllun ekki til þess að pólitíkusar fái „blod på tanden“ og fari að skipta sér af notkun plaströra hérlendis, þar eru næglega margir nú þegar kallaðir.

Íslendingar skulu því drekka vatn, sem runnið hefur um plaströr, hér eftir sem hingað til. Þeir sem náð hafa efri árum hafa sumir hverjir gert það í fimmtíu ár og samt náð háum aldri.

Fleira áhugavert: