Risa kolanámur Borneó – Orkugjafi Kínverja..
Febrúar 2013
Námur Nataníels konungs
Fimmtudaginn 21. febrúar 2013, dregur væntanlega verulega til tíðinda hjá Bumi. Þetta gæti orðið stór dagur fyrir auðkýfinginn unga; Nathaniel Rothschild. En þetta gæti líka orðið dagur vonbrigða fyrir piltinn.
Í dag ætlar Orkubloggið að beina athyglinni að þessu dramatíska máli. Sem teygir anga sína alla leið frá kauphöllinni í London og inn í þétta frumskógana á Borneó í Indónesíu. Allt snýst þetta um yfirráðin yfir risastórum kolanámum, sem eru hluti af orkugjöfunum er knýja kínverska efnahagslífið.
Safnað í baukinn hjá Vallar
Árið 2010 var mikið stuð á Nat Rothschild. Vogunarsjóðurinn hans, Attara Capital, var að skila geysilegum hagnaði og hinn ungi Rothschild (f.1971) sá fram á það að auður hans var ekki lengur mældur í fáeinum hundruðum milljóna dollara heldur námu eignir hans orðið hátt í tveimur milljörðum USD.
Þetta góða gengi hjá Rothschild hafði bersýnilega hvetjandi áhrif á piltinn, sem þeyttist á einkaþotunni sinni um heiminn í leit að nýjum og spennandi viðskiptatækifærum. Snemma ársins (2010) réðst hann í stóra fjárfestingu í álrisanum Rusal. Skömmu síðar keypti Rothschild glás af skuldabréfum útgefnum af hrávörumeistaranum Glencore – og tryggði sér þar með þátttökurétt í fyrirhuguðu hlutabréfaútboði þessa stærsta hrávörufyrirtækis heimsins. Fyrir vikið var hann orðinn eitt helsta fréttaefni viðskiptafjölmiðla heimsins, enda ekki aðeins ungur og ríkur heldur jafnan með gullfallega leikkonu eða aðra fegurðardís upp á arminn.
Fjölmiðlar héldu ekki vatni yfir snilldinni hjá Nat Rothschild. Og tóku að útnefna hann bæði ríkasta, nútímalegasta og snjallasta Rothschild'inn. En Nat Rothschild var bara rétt að byrja. Þrátt fyrir ýmsa óvissu á heimsmörkuðunum var hann bersýnilega orðinn sannfærður um að hrávörugeirinnværi mál málanna. Og nú skyldi veðjað stórt!
Það var á miðju árinu 2010 að Rothschild skellti sér í einn eitt viðskiptaævintýrið og stofnaði fjárfestingafyrirtækið Vallar. Hann gaf fjárfestum kost á að kaupa sig þar inn á genginu 10 og skráði félagið á hlutabréfamarkað í London. Það eina sem var ákveðið um starfsemi Vallar var að fyrirtækið skyldi, undir stjórn Rothschild's, finna áhugaverð og vanmetin námu- eða málmafyrirtæki einhversstaðar úti í heimi og eignast þar dágóðan hlut.
Þannig yrði skapaður nýr námurisi. Og fyrirtækið skyldi verða eitt af þeim stærstu í bresku kauphöllinni. Stefnan var sett á að Vallar yrði brátt komið alla leið í úrvalsvísitöluna FTSE 100 eða það sem oftast er kallað „fútsí“.
Metnaðurinn var sem sagt mikill. Og þetta var eitt allra stærsta hlutafjárútboðið í London árið 2010. Skemmst er að segja frá því að útboðið tókst mjög vel. Alls seldust hlutabréf fyrir um 700 milljónir sterlingspunda, sem þýddi að í sjóðum Vallar var nú um milljarður USD. Og það vel að merkja hjá fyrirtæki með engin viðskipti, heldur einungis þá viðskiptahugmynd að fjárfesta einhvers staðar í námu- eða hrávörugeiranum.
Þessar viðtökur voru talsvert umfram væntingarnar hjá Rothschild og félögum hans, sem höfðu ráðgert að ná inn mesta lagi um 600 milljónum punda. Sjálfur lagði Rothschild verulega fjármuni í Vallar og er nú sagður eiga þar 12-14% hlut. Megnið af fjárfestingunni kom þó frá öðrum sem vildu með á vagninn.
Þarna sýndu fjárfestarnir Nathaniel Rothschild mikið traust. Þeir litu sjálfsagt til þess að strákurinn hefur einhver öflugustu og bestu samböndin sem hægt er að hugsa sér – bæði í bankaheiminum og í námu- og hrávörugeiranum. Margir virtust trúaðir á að brátt yrði Nat Rothschild jafn áhrifa- og valdamikill í þessum iðnaði eins og vinir hans Oleg Deripaska hjá Rusal og Ivan Glasenberg hjá Glencore International. Nat Rothschild var einfaldlega að verða heitasta nafnið í City.
Vallar kaupir Borneó
Nú biðu menn spenntir eftir því hvernig fjármagninu í sjóðum Vallar yrði ráðstafað. Markmiðið hjá Nat Rothschild var að Vallar skyldi fjárfesta í málma- eða námuiðnaðinum fyrir fjárhæð sem næmi á á bilinu 2-7 milljörðum USD. Auk eigin fjár Vallar myndi fyrirtækið fjármagna þetta með lánum frá nokkrum helstu bönkum heimsins.
Sjálfur sagði Rothschild að það væri alveg sérstaklega áhugavert ef unnt yrði að finna góð tækifæri í virðiskeðju stáliðnaðarins. Þetta gat t.d. þýtt að hann væri að horfa til einhvers eða einhverra járnnámufyrirtækja. Og/eða að Rothschild væri að hugsa til orkunnar sem knýr stærstan hluta stáliðnaðarins, þ.e. að hann hygðist kaupa eitthvert af stóru kolavinnslufyrirtækjunum.
Og það leið ekki á löngu þar til pilturinn lét verkin tala. Innan sex mánaða hafði Vallar tilkynnt um kaup á stórum hlut í tveimur af stærstu kolanámufyrirtækjunum austur í Indónesíu.
Það var síðla árs 2010 að Vallar tilkynnti um kaup sín á rúmlega fjórðungshlut í fyrirtækinu Bumi Resources annars vegar og rúmlega 3/4 í Berau Coal hins vegar. Bæði þessi fyrirtæki eru indónesísk og eru með afar umfangsmikla kolavinnslu. Þar er Bumi Resources sýnu stærra, en þetta er stærsta kolavinnslufyrirtækið á Indónesíu. Og þá er ekki verið að tala um neitt smáræði, því Indónesía er eitt af sex stærstu kolaframleiðsluríkjum heimsins. Berau Coal er einnig stórt og mun vera fimmti stærsti kolaframleiðandinn a Indónesíu.Eins og áður sagði þá er Indónesía einn af stærstu kolaframleiðendum heimsins. Það segir líka talsvert um mikilvægi indónesísku kolanna, að Indónesía er annað af tveimur stærsta kolaútflutningsríkjum veraldar (hitt er Ástralía en þessu tvö lönd hafa skipst þarna á forystunni síðustu árin). Indónesía er því bersýnilega afar þýðingarmikið í að knýja kolaorkuver heimsins og þá einkum og sér í lagi kolaverin í Kína. Og þar með kínverska stáliðnaðinn og kínverska efnahagslífið allt.
Stærstu kolanámur Bumi Resources og Berau Coal eru á hinni fjalllendu, skógivöxnu og gríðarstóru eyju Borneó. Nánar tiltekið á þeim hluta Borneó sem tilheyrir Indónesíu og kallast Kalimantan. Og það er ekki nóg með að þessi tvö kolavinnslufyrirtæki hafi undanfarin ár verið gríðarstórir kolaframleiðendur og útflytjendur. Því undir þéttu laufþykkni frumskóganna á Borneó, sem er talinn vera elsti frumskógur jarðarinnar, er enn að finna mikil og ósnert kolafjöll. Sem bara bíða eftir því að vera skóflað upp og mokað um borð í lestarvagnana sem flytja kolin beinustu leið niðar að sjó, þar sem skipin sigla í stríðum straumi með kolafarmana frá Borneó til Kína.
Vallar var sem sagt talið eiga góða möguleika á að auka framleiðslu Bumi Resources og Berau Coal verulega og það að stuttum tíma. Enda er mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og þess háttar vesen lítt að flækjast fyrir framkvæmdasömum mönnum þarna austur á Borneó. A.m.k. ekki ef menn eru með réttu samböndin.
Viðskipti upp á 3 milljarða USD
Það mun hafa verið nokkuð alræmdur bankamaður hjá JP Morgan, Ian Hannam að nafni, sem benti Rothschild á þetta tækifæri í Indonesíu. Hannam hafði vitneskju um að stærstu eigendur þessara tveggja fyrirtækja (Bumi Resources og Berau Coal) ættu í nokkru basli vegna mikilla skulda og gætu haft áhuga á að fá þarna inn nýjan öflugan hluthafa.
Að vísu hafa Indónesar verið nokkuð tortryggnir gagnvart erlendum fjárfestum. Og þá kannski sérstaklega verið á varðbergi gagnvart peningamönnum frá Evrópu, enda var landið á sínum tíma mergsogið af hollensku nýlenduherrunum. En nú kom í ljós að Indónesarnir sem áttu megnið af hlutabréfunum í Bumi Resources og Berau Coal voru barrrrasta mjög spenntir fyrir aðkomu Rothschilds og félaga hans í Vallar.
Vitað var að bæði fyrirtækin voru afar skuldsett og að miklu leyti fjármögnuð með dýrum lánum frá bönkum í SA-Asíu. Hugsanlega hafa stærstu eigendur fyrirtækjanna séð góð tækifæri felast í því að færa eignahaldið yfir í fyrirtæki, sem skráð er í kauphöllinni í London. Þar með kynnu að bjóðast fjölbreyttari fjármögnunarmöguleikar fyrir fyrirtækin.
Og kaupin gengu hratt fyrir sig. Einungis um mánuði eftir að Rothschild fékk ábendingu um þessi indónesísku kolavinnufyrirtæki var búið að undirrita samningana. Hraðinn virðist reyndar hafa verið með nokkrum ólíkindum. Því sagt er að Rothschild hafi aðeins átt tvö fundi með helstu eigendum Bumi Resources og í Berau Coal – annan í Los Angeles og hinn í Songapore – áður en skrifað var undir þennan margmilljarða dollara díl.
Að auki fór Nat Rothschild einn laufléttan flugtúr á einkaþotunni sinni til Borneó að kíkja á stærstu kolanámuna; hina viðfrægu risanámu Kaltim-Prima á austurhluta Borneo. Þeirri ferð mun Rothschild hafa svo lokið með notalegri afslöppun í lúxusvillu aðaleiganda Berau Coal á draumaeyjunni Balí.
Fyrir herlegheitin greiddi Vallar samtals um 3 milljarða USD. Í kaupin fóru svo til allir þeir peningar sem Vallar hafði aflað í hlutafjárútboðinu í London fyrr á árinu. Stærstur hluti fjármögnunar kom þó sem lánsfé, þ.e. sala á skuldabréfum útgefnum af Vallar. Um leið og samningar um söluna voru í höfn, með hinum hefðbundna skemmtilega fyrirvara um fjármögnun, skaust Rothschild til Peking til að útvega aur. Þar brást kínverski risafjárfestingasjóðurinn CIC eða China Investment Corporation strax vel við. Lán Kínverjanna til Vallar vegna kaupanna í Bumi Resources og Berau Coal er sagt hafa numið 1,9 milljörðum USD.
Bumi: Draumur um hrávörurisa
Með þessum viðskiptum varð Vallar í einni svipan risastórt eignarhaldsfélag í tveimur afar stórum kolavinnslufyrirtækjum, sem bæði eru skráð í kauphöllinni í Jakarta á Indónesíu. Þar með mátti í reynd segja að Vallar væri orðið eitt af mikilvægustu kolafyrirtækjum heimsins.
Þessum kaupum Vallar var af sumum lýst sem einstöku tækifæri, enda hefðu indónesísku fyrirtækin undir yfirstjórn Vallar alla burði til að tvöfalda kolaframleiðslu sína í Indónesíu. Þetta gæfi Vallar tækifæri á að verða einn af allra mikilvægasta kolavinnsluframleiðendum heimsins og stærsti kolabirgir Kína. Í þessu sambandi er vert að minna enn og aftur á að ásamt Ástralíu er Indónesía annar af tveimur stærstu kolaútflytjendum heimsins.
Á þeim tíma sem kaupin áttu sér stað, þarna síðla árs 2010, var samanlögð ársframleiðsla fyrirtækjanna tveggja, Bumi Resources og Berau Coal, rétt tæplega 80 milljónir tonna af kolum. Þetta er ekkert mjög langt frá því sem gerist hjá námurisunum Anglo American og BHP Billiton. Nat Rothschild gat því með góðri samvisku sagst hafa skapað eitt stærsta kolavinnslufyrirtæki heimsins. Nú var bara eftir að græða á sköpuninni.
Fyrst var þó nafni Vallar breytt og var fyrirtækið nefnt Bumi. Sem merkir jörð á máli Indónesa. Í einni svipan varð Vallar – sem nú hafði verið umskýrt Bumi – einungis hársbreidd frá því að vera í hópi tíu stærstu kolaframleiðslufyrirtækja heimsins.
Samanlagt verðmæti Bumi Resources og Berau Coal í kauphöllinni í Jakarta haustið 2010 jafngilti um 8 milljörðum USD. Rothschild og félagar voru sannfærðir um að stutt yrði í enn frekari kaup sín í námuiðnaðinum. Og að brátt yrði Bumi einn helsti námururisi heimsins og yrði nefnt í sömu andrá eins og hrávörurisarnir Glencoreog Xstrata.
Auðlindirnar á eyju órangútanna
Á þessum tímamótum í nóvember 2010 sagðist Rothschild vera sannfærður um að með því að innleiða vestræna stjórnarhætti hjá þessum indónesísku fyrirtækjum (Bumi Resources og Berau Coal) mætti á skömmum tíma margfalda hagnað þeirra. Og þar með fá alla fjárfestana í Vallar til að brosa út að eyrum. Það stóð sem sagt til að hlutabréfagengið 10, sem var boðið í hlutafjárútboði Vallar í kauphöllinni í London sumarið 2010, myndi brátt æða af stað upp á við.
Eins og fyrr sagði er þarna fyrst og fremst um að ræða kolanámur á eyjunni Borneó. Indónesíski hluti Borneó hefur á skömmum tíma orðið afar mikilvægt námuvinnslusvæði. Sú þróun hefur átt verulegan þátt í því að á einungis aldarfjórðungi hefur þriðjungi alls skóglendis á þessari gríðarstóru og þéttgrónu eyju verið rutt burtu. Þar hefur skógarhögg fyrir timburiðnað haft mest að segja. En síðustu árin hefur kolaiðnaðurinn verið stórtækur í eyðingu skógannaá Borneó.
Það eru þessi frumskógasvæði sem nú eru orðin eitthvert heitasta umræðuefnið í… ekki í Jakarta eða öðrum fjáramálamiðstöðvum SA-Asíu… heldur í fjármálahverfinu í London. Svona teygir elsti frumskógur jarðarinnar nú kræklóttar greinar sínar alla leið inn í hið virðulega City í miðborg Lundúna. Og þar eru menn að hugsa um allt aðra hluti en að hafa en áhyggjur af eyðingu skóga eða búsvæða hins sérkennilega mannapa; órangútans. Framtíð Borneo er kolavinnsla!
Stærsta náman í eignasafni Vallar er svonefnd Kaltim Prima kolanáman, sem venjulega er nefnd KPC (skammstöfun fyrir Kaltim Prima Coal). Kolavinnslan þarna í Kaltim Prima kolanámunni í frumskóginum á Borneó hefur búið til hvorki meira né minna en einhverja allra stærstu holu í heiminum. Náman er talin hafa að geyma nokkra milljarða tonna af vinnanlegum kolum, sem þakka má samþjöppun og rotnun gífurlegs magns af skóglendi sem rekja má tuttugu milljónir ára aftur í tímann.
Á undanförnum árum hafa heilu fjöllin þarna inni í frumskóginum verið skafin burt og stórir dalir verið grafnir inn í hæðirnar. Og enn er af nógu að taka. Þegar Nat Rothschild flaug yfir námuna á árinu 2010 hefur hann vafalítið séð raðir risastórra trukka líkt og iðjusama maura flytja fullfermi sitt af kolum frá námunni og í skip. Hver trukkur tekur um 330 tonn af kolum í hverri ferð! Niður við sjó liggur hafnargarðurinn um 2 km útí sjó þar sem allt að sex flutningaskip geta lagst að í einu og fyllt sig. Áður en siglt er af stað til baka með fullfermi af kolum til Kína eða Suður-Kóreu.
Þegar kaupin voru gerð var þess vænst jafnvel yrði unnt að tvöfalda framleiðslu KPC fyrir árslok 2014. Sem hefði þýtt að heildarframleiðsla Bumi á ársgrundvelli færi úr tæplega 80 milljónum tonna og í um 140 milljón tonn af kolum. En þegar fór að líða á árið 2011 fóru að renna tvær grímur á Rothschild og félaga. Eitthvað virtist rotið í ríki Bumi Resources. Höfðu þeir keypt köttinn í sekknum?
Efasemdir vakna
Á fyrri hluta ársins 2011 virtist felst benda til þess að ættarveldi Rothschild'anna væri ekki lengur bara bankar og fjármálalíf, heldur væri fjölskyldan nú einnig orðin mikilvægur þátttakandi í hrávöru- og orkugeira heimsins. Og að það væri hinum unga og framsýna Nathaniel Rothschild að þakka.
Almennt virtist fjármálaheimurinn taka þessum kaupum Vallar (Bumi) á indónesísku kolaframleiðundunum fagnandi. Þannig lýsti t.a.m. breska fjármálafyrirtækið Liberum Capital þessu sem einstöku tækifæri sem ætti eftir að skapa mikla eftirspurn meðal fjárfesta til að kaupa hlutabréf í Bumi. Í þessu sambandi benti Liberum á að verðið sem Vallar greiddi fyrir herlegheitin jafngilti að hlutfallið EV/EBITDA væri innan við 5!
En það var nú reyndar samt svo að nánustu aðstandendur Nat's Rothschild höfðu strax frá upphafi talsverðar efasemdir um þetta námuævintýri hjá drengnum. Í aðdragandanum að stofnun Vallar á fyrrihluta ársins 2010 hafði Nat reynt að fá föður sinn til að leggja fé í púkkið. En hinn þaulreyndi banka-, fjármálamaður og barón Nathaniel Charles Jacob Rothschild (f.1936) var ekki á þeim buxunum að taka þátt í þessum óáþreifanlegu fjárfestingaáformum sonarins. Karlinn, sem er stjórnarformaður hjá hinum risastóra og árangursríka fjárfestingasjóði RIT Capital Partners, sagði einfaldlega nei takk sonur sæll.
Þarna virðist innsæið ekki hafa brugðist þeim gamla, því fjárfesting Vallar í indónesíska kolaiðnaðinum hefur engan veginn farið á þann veg sem lagt var upp með. Það fór nefnilega svo að í stað þess að þarna yrði til laglegur straumlínulagaður námurisi var útkoman eitraður kokkteill indónesísku yfirstéttarinnar og evrópska fjármálaaðalsins. Og sá kokkteill gæti kostað Rothschild og félaga geysilega fjármuni.
Í sæng með svikahröppum?
Viðskiptunum sem umbreyttu Vallar í Bumi var formlega lokið í apríl 2011. Með tilheyrandi fögnuði og glasaglamri. En skjótt skipast veður í lofti. Varla hafði blekið þornað á pappírunum þegar Rothschild og félagar hans í Vallar áttuðu sig á því að þarna hefðu þeir kannski hlaupið örlítið á sig.
Til að koma dílnum í gegn þurftu Rothschild og félagar að semja við menn sem um áratugaskeið hafa verið með puttana út um allt í indónesísku viðskiptalífi. Þar er annars vegar um að ræða milljarðamæring að nafni Rosan Roeslani (sem var aðaleigandi Berau Coal í gegnum fyrirtæki sitt Recapital Advisors) og hins vegar ein þekktasta og áhrifamesta fjölskyldan í indónesísku viðskiptalífi, sem eru Bakrie-bræðurnir(aðaleigendur Bumi Resources í gegnum fjölskyldufyrirtækið Bakrie & Brothers).
Í Bakrie & Brothers ráða öllu bræðurnir og auðkýfingarnir Aburizal, Nirwan Dermawan og Indra Bakrie. Þar má segja að Aburizal Bakrie (f.1946) sé í fararbroddi. Hann tók nýverið við formennskunni í stjórnmálaflokki hins alræmda og gjörspillta einræðisherra Suharto og verður frambjóðandi flokksins í forsetakosningunum sem fram fara í Indónesíu árið 2014. Með viðskiptunum við Vallar urðu Bakrie & Brothers stærsti hluthafinn í hinu nýja Bumi með 43% hlut. En til að takmarka áhrif þeirra á Bumi var samið um að atkvæðamagn Bakrie í stjórninni skyldi vera 29,9%. Á móti fékk Bakrie réttinn til að útnefna þrjá mikilvægustu stjórnendur fyrirtækisins; nefnilega stjórnarformanninn, forstjórann og fjármálastjórann.
Bakrie & Brothers eru að auki í nánu viðskiptasambandi við landa sinn Roeslani, sem ræður yfir 13% hut í Bumi. Þetta viðskiptasamband er svo náið að fjármálaeftirlitið í Bretlandi hefur bannað að Roeslani hafi atkvæðisrétt um málefni Bumi (vegna kaupsamningsákvæða um að atkvæðisréttur Bakrie-bræðranna takmarkist við 29,9%). Það breytti því þó ekki að það var frá upphafi augljóst að Bakrie-bræðurnir myndu nánast ráða öllu því sem þeir vildu um stefnu og rekstur Bumi.
Það eru sem sagt engir smákóngar sem Nat Rothschild lagði traust sitt á með viðskiptunum sem gerðu Vallar að Bumi. Þarna er, sem fyrr segir, um að ræða einhverja áhrifamestu fjölskylduna í þessu gríðarlega fjölmenna ríki. En það var líka alkunnugt að þó svo Bakrie-bræðurnir séu afar umsvifamiklir í indónesísku atvinnu- og stjórnmálalífi, þá stendur fjármálaveldi vart á mjög traustum grunni. Eftir Asíukreppuna í lok 20. aldar og fjármálakreppuna sem skall á heiminum árið 2008 er viðskiptaveldið kennt við Bakrie nefnilega þjakað af óheyrilegum skuldum. Segja má að Bakrie-bræðurnir hafi náð að halda sér á floti með fáheyrðum lántökum og þá einkum og sér í lagi frá kínverskum bönkum sem hafa lánað þeim óspart en á himinháum vöxtum.
Það er reyndar athyglisvert að þegar nánar er að gáð virðast viðskiptaumhverfið á Indónesíu (a.m.k. það sem tengist Bakrie-bræðrunum) minna um margt á það sem gerðist hér á Íslandi fyrir hrun. Viðskiptaveldi bræðranna og viðskiptafélaga þeirra einkennist af flóknu kerfi krosseignatengsla og miklum fjölda eignarhaldsfélaga og í viðskiptum bræðranna hafa skuldsettar yfirtökur verið áberandi. Munurinn er bara sá að Indónesía er jafnan flokkuð sem afar spillt viðskiptaumhverfi, en Ísland þótti til fyrirmyndar.
Af einhverjum furðulegum ástæðum sáu Rothschild og félagar hans litla eða jafnvel enga hættu felast í geysilegri skuldsetningu Bumi Resources og flestum ef ekki öllum öðrum fyrirtækjum sem tengjast fjármálaveldi Bakrie-bræðranna. Sama má segja um fyrirtæki Roeslani's. Það er a.m.k. augljóst að Rothschild horfðist ekki í augu við þessa áhættu fyrr en um seinan. Og það þrátt fyrir að spillingin í indónesísku viðskiptalífi sé alræmd og landið fái jafnan hroðalega einkunn í öllum skýrslum og samanburðarkönnunum á spillingu landa.
Draumurinn breyttist í martröð
Hugsunin með kaupum Vallar á kolanámunum í Indónesíu var ætíð sú að bæta stjórnunarhætti og innleiða meiri skilvirkni í rekstri fyrirtækjanna. En þegar á reyndi var alls ekki auðsótt mál að ná fram breytingum. Æðstu stjórnendur fyrirtækisins, sem sátu í skjóli Bakrie-bræðranna, reyndust langt í frá viljugir til að hlusta eða taka mark á Rothschild.
Það var reyndar svo að jafnvel áður en Vallar varð til hafði lengi verið uppi sterkur orðrómur um að þar sem Bakrie-bræðurnir færu um væri víða pottur brotinn. Enda komu brátt upp vísbendingar um að sitthvað í bókhaldi Bumi Resources þyldi illa dagsljósið. Eftir því sem Rothschild skoðaði málið betur jukust grunsemdir hans um að misfarið hafi verið með hundruð milljóna ef ekki heilan milljarða dollara úr sjóðum Bumi Resources.
Þegar Nat Rothschild varð var við að eitthvað undarlegt væri sennilega á seyði fór hann auðvitað að verða nokkuð órólegur. Það var jú hann sem hafði stofnað Vallar og verið lykilaðilinn í að fjárfesta í indónesísku fyrirtækjunum. Hann átti frá upphafi sæti í stjórn Bumi, enda stofnandi fyrirtækisins og einn af stærstu hluthöfum þess. En þegar Rothschild byrjaði að spyrja krefjandi spurninga í stjórn Bumi komst hann ekkert áleiðis.
Indónesinn Samin Tan, sem er stjórnarformaður Bumi og er útnefndur af Bakrie-bræðrunum, stóð sem veggur gegn athugasemdum og tillögum Rothschild. Og meirihluti stjórnarinnar studdi Tan. Bæði Tan og Bakrie-bræðurnir eiga vel að merkja ættir að rekja til ráðandi stétta á eyjunni Súmötru og eru tengdir nánum böndum.
Fljótlega eftir að kaupin voru um garð gengin fór að bera á miklum afskriftum hjá Bumi Resources. Fréttir þar um og orðrómur um mikil átök í stjórn Bumi leiddu brátt til þess að hlutabréfaverð í fyrirtækinu tók að lækka hratt. Í desember sem leið (2012) hafði hlutabréfaverið fyrirtækisins fallið um meira en 80%! Þ.e. frá skráningunni sumarið 2010. Draumur Rothschild's um nýjan námurisa var að breytast í martröð.
Til að bæta gráu ofan á svart sögðu nú Bakrie-bræðurnir að aðkoma Vallar hefði engu skilað nema vandræðum og lögðu fram þá tillögu að þeir myndu kaupa til baka úr Bumi aeign félagsins í Bumi Resources. Eðlilega nýttu þeir sér verðmiðann sem hlutabréfaverðið á Bumi gaf tilefni til. Tilboðið þýddi að Bumi myndi selja þeim kolanámurnar (þ.á.m. risanámuna KTC) á verði sem samsvarar því að hluthafar Bumi fái rétt u.þ.b. helming af upphaflegri fjárfestingu sinni. Nema Bakrie-bræðurnir sem myndu koma út úr viðskiptunum nálægt því á sléttu!
Í þokkabót gagnrýndi Samin Tan það harðlega að Rothschild hafði krafið Bumi um greiðslu á reikningum vegna einkaþotunnar sinnar, sem hljóðuðu alls upp á um 5 milljónir USD. Þessi kostnaður vegna einkaþotunnar var að sögn Rothschild til kominn vegna kaupanna á indónesísku fyrirtækjunum, enda hafði Rothschild þeyst víðsvegar um heiminn til að koma dílnum á og fjármagna kaupin. Og þetta væri kostnaður sem Bumi ætti að endurgreiða honum.
Tan benti á að nær væri að Rothschild skilaði 10 milljóna USD þóknuninni sem hann fékk fyrir að koma viðskiptunum á milli Vallar og Bakrie-bræðranna. Tan sagði Rothschild hafa valdið öllum hluthöfum Bumi miklum vonbrigðum og ef hann ætlaði sér að fara í misskilið stríð við stjórnendur Bumi myndi það einungis auka tjónið enn frekar.
Þar að auki sagði Tan að ekki hægt að kenna stjórnendum Bumi um þá óvæntu lækkun sem orðið hafði á kolaverði. Sú verðlækkun hefði komið flestum í opna skjöldu og væri meginástæðan fyrir erfiðleikum hjá Bumi Resources og þar með hjá Bumi. Úr því sem komið væri, væri eina vitið að vinda ofan af viðskiptunum og taka tilboði Bakrie-bræðranna.
Mesta kaldhæðnin er þó kannski sú að helsti ráðgjafi Tan og Bakrie-bræðranna í þessum deilum er einn af bönkum Rothschild-fjölskyldunnar! Þar er á ferðinni franskur banki sem kallast NM Rothschild og er undir stjórn fjarskylds frænda Nat Rothschild; David de Rothschild, sem er franskur barón (f.1942).
Báðir eru þeir frændurnir að sjálfsögðu afkomendur fjölskyldufóðursins og upphafsmanns fjármálveldis ættarannir, en sá var þýski gyðingurinn Mayer Amschel Rothschild (1744-1812). Og gaman að bæta því við að umræddur David de Rothschild á einnig sæti í stjórn demantarisans De Beers, sem Orkubloggið hefur sagt nokkuð ítarlega frá. En fjármunirnir sem lögðu grunnin að De Beerskomu einmitt að miklu leyti frá Rothschild-fjölskyldunni. Skemmtilegt.
Stríðsástand milli Rothschild og Bakrie & Tan
Nú var Nat Rothschild nóg boðið, enda hann og aðrir stofnendur Vallar búnir að tapa um 800 milljónum USD af því fjármagni sem þeir settu í fyrirtækið. Nú skyldi látið sverfa til stáls.
Hann sagði sig úr stjórn Bumi, skrifaði harðort bréf til stjórnarformannsins þar sem hann fordæmdi stjórnarhætti fyrirtækisins og krafðist aðalfundar. Þar skyldu hluthafar eiga kost á að kjósa um tillögu hans um þess efnis að víkja 12 af 14 stjórnendum fyrirtækisins og hefja formlega rannsókn á viðskiptaháttum innan Bumi Resources.
Hugsunin þarna virðist í reynd vera sú að koma upphaflegum áætlunum í framkvæmd. Þ.e. að innleiða vestræna og vonandi skilvirkari stjórnarhætti innan fyrirtækjanna. En jafnvel þó svo Rothschild myndi ná þessu fram er ekki víst að björninn væri unnin. Nái hann að reka Tan og félaga hans burt frá Bumi sjá hluthafar fyrirtækisins fram á að upp muni rísa áratugalangt tímabil málaferla milli Bumi og Bakrie-bræðranna. Og þá er ekkert sérlega skemmtilegt að hugsa til þess að brátt kunni einn bræðranna að vera orðinn forseti þessa risastóra ríkis (Indónesar er alls um 240 milljónir og þar með fjórða fjölmennasta ríki heimsins).
Það er sem sagt svo að jafnvel menn úr hópi hluthafa Bumi sem telja að málstaður Rothschild sé góður álíta ekki endilega að besta leiðin sé að láta hart mæta hörðu. Tjónið sé orðið – og skynsamlegast sé að kyngja því áður en það verði ennþá meira og verra. Þar að auki eru margir málsmetandi menn í bresku fjármálalífi sem álíta að Bumi sé greinilega fyrirtæki sem ekki eigi heima í kauphöllinni í London. Það muni sverta og jafnvel stórskaða ásýnd kauphallarinnar og best sé að losna sem fyrst við allt þetta rugl úr hinu virðulega City.
Eftir að vandræðin og átökin hjá Bumi urðu lýðnum ljós hafa sífellt fleiri komið fram og sagt að Nat Rothschild hafi farið of hratt í kaupin á indónesísku fyrirtækjunum. En það er auðvelt að vera vitur eftir á. Kannski hefði Vallar átt að sýna meiri varfærni og óneitanlega virðist það sem kallast due diligence eða áreiðanleikakönnun hafa verið í skötulíki. En hafa ber í huga að Nat Rotchschild gat ómögulega séð fyrir þann nokkuð óvænta hægari vöxt sem varð í kínversku efnahagslífi á árunum 2011-12.
Sá slaki olli því að kolaverð lækkaði umtalsvert og það var afleitt fyrir hin skuldsettu fyrirtæki Bakrie-bræðranna. Röð veðkalla skall á bræðrunum og það þoldu þeir litlu betur en þegar íslenskir bankar hættu að fá áskrift að lánum erlendis frá. Afleiðingin var ólga á verðbréfamarkaðnum í Jakarta og fyrirtæki eins og Bumi Resources vou skyndilega í verulegum vandræðum.
Rothschild situr undir harðri gagnrýni
Auk þess að hafna öllum beiðnum Rothschild's um innri rannsókn og nánari upplýsingar um fjármuni fyrirtækisins stráði stjórnarformaður Bumi salti í sárið með því að minna á að Rothschild hafi fengið milljónir dollara í bónus fyrir það eitt að koma kaupunum á. Nú þegar hlutabréfaverðið í Bumi hafi fallið stórlega ætti Nathaniel Rothschild að líta í eigin barm og viðurkenna að hann hafi lofað meðfjárfestum sínum alltof miklu.
Jamm – það vantar ekki ásakanirnar á báða bóga í Bumi. Bretarnir úr Eton og félagar þeirra hafa með skelfingu þurft að horfa upp á peningana sína sem fóru í Vallar fuðra upp á hlutabréfamarkaðnum í London. Dollaramilljarðurinn sem upphaflegu fjárfestarnir lögðu í Vallar er skroppinn saman í skitnar 200 milljónir dollara eða þar um bil; hlutabréfin hafa sem sagt fallið um u.þ.b. 80% og hreint ekki góðar horfur á að úr rætist að neinu marki.
Það er svo sannarlega ekki tekið út með sældinni að vera vellauðugur breskur aðalsmaður með stóra drauma. Eftir því sem óveðursskýin hafa hrannast upp yfir Bumi hefur sífellt meiri gagnrýni komið fram á Nat Rothschild. Sumir segja hann hafa sýnt svívirðilegt dómgreindaleysi, meðan aðrir eru hógværari og lýsa ákvörðuninni um að kaupa hlut í indónesísku fyrirtækjunum sem einfeldningslegri (naive).
Nat Rothschild hefur þó enn neitað að gefast upp. Það er kannski til marks um hversu miklu þetta skiptir Rothschild, að nýverið mætti hann í sitt fyrsta viðtal hjá einum af stóru viðskiptafréttamiðlunum! Og hann er íðilfagur breski yfirstéttarhreimurinn. Rothschild segir að það væri fáheyrt að stjórn Bumi og hluthafar félagsins myndu samþykkja tilboð Bakrie-bræðranna án þess að fyrst fari fram rannsókn á viðskiptaháttum Bumi Resources síðustu árin. Þar að auki sé svívirðilegt af stjórnaformanni Bumi að vilja samþykkja tilboð sem feli það í sér að einn hluthafi, þ.e. Bakrie & Brothers, komi nánast á sléttu út úr viðskiptunum með Bumi Resources. Meðan aðrir hluthafar Bumi muni tapa næstum 60% af upphaflegri fjárfestingu sinni.
Nat Rothschild er ekki tilbúinn til að kyngja þessu. Hann álítur að hluthafar Bumi geti náð mun meiru af fjárfestingu sinni til baka með því að hreinsa til í fyrirtækjunum tveimur. Þar sé lykilatriðið að miklar breytingar verði gerðar á stjórn og stjórnendateymi Bumi. Rothschild vill skipta um 12 af 14 stjórnendum fyrirtækisins og þar á meðal Samin Tan. Í framhaldinu verði m.a. ráðist í ítarlega rannsókn á Bumi Resources og reynt að endurheimta fjármuni sem Rothschild álítur að þar hafi verið misfarið með.
Aðalfundurinn 21. febrúar
Þarna berast nú á banaspjótum annars vegar ein auðugasta og valdamesta fjölskyldan á Indónesíu og hins vegar nokkrir evrópskir fjárfestar undir forystu hins unga bankamanns Nataniel's Rothschild. Rothschild hefur undanfarna tvo mánuði undirbúið sig af kappi fyrir hluthafafundinn hjá Bumi, sem fram á að fara á morgun (21, febrúar). Í stað hinna óhæfu stjórnenda (að hans mati) hefur hann komið saman öflugu teymi sem hann vill að taki við að stýra Bumi.
Þar á meðal er Brock Gill; bráðungur Kanadamaður sem Rothschild vill að taki við sem forstjóri Bumi. Gill er einungis 32já ára, en hefur engu að síður mikla reynslu af því að stýra stórum námuverkefnum á erfiðum svæðum í A-Asíu.
Þar er helst að nefna farsæla uppbyggingu hans á stórri gull- og koparnámu í Góbí-eyðimörkinni í Mongólíu. Náman sú kallast Oyu Tolgoi og þar hefur undanfarin ár verið fjárfest fyrir nokkra milljarða dollara til að koma vinnslunni gang. Og flestum ber saman um að þar hafi tekist afar vel til undir stjórn Brock Gill.
Gill er að vísu svo ungur að hann er lítt þekkt nafn í námuheiminum. En kannski hefur Nat Rothschild þarna náð að finna rétta manninn til að koma Bumi upp úr svartholinu. Það ætti að ráðast á hluthafafundi Bumi núna á morgun hvernig fer með tillögu Nat Rothschild um að skipta um stjórnendateymi í fyrirtækinu.
Flækjustigið er skelfilega hátt
En jafnvel þó svo Rothschild næði að hreinsa til í stjórn Bumi og skipta um helstu stjórnendurna, þá er nær útilokað að átta sig á því hvað gerist í framhaldinu. Ef Rothschild vinnur kjörið virðist að vísu ljóst að þá verður unnt að ganga í það að grafast fyrir um hver sé raunveruleg staða indónesísku fyrirtækjanna. En bent hefur verið á að slíkar aðgerðir muni einungis leiða til langvarandi málaferla, sem muni taka fjöldamörg ár. Og að það muni bara tefja enn meira fyrir því að Bumi verði betur rekið fyrirtæki og henti þess vegna alls ekki hagsmunum hluthafanna.
Aðrir benda á að eina vitræna leiðin út úr vandanum, ef Rothschild nær sínu fram, sé að Bumi kaupi Bakrie-bræðurna út. Það myndi kalla á all svakalega fjármögnunarþörf; hugsanlega nálægt 4 milljörðum USD. Það er fremur vafasamt að Rothschild og félagar hans gætu fjármagnað slík kaup nú um stundir.
Grípa Kínverjarnir tækifærið?
Kannski er líklegasta niðurstaðan allt önnur en þeir möguleikar sem hér hafa verið raktir. Nefnilega sú að lánadrottnar Bakrie-bræðranna klippi á þennan að því er virðist óleysanlega hnút. Þ.e. að þer leysi einfaldlega til sín eignarhlut Bakrie-bræðranna í Bumi upp í þær gríðarlegu skuldir sem hvíla á fyrirtækjum bræðranna.
Það myndi sennilega þýða að stærsti hluthafinn í Bumi yrði hinn risastóri kínverski fjárfestingasjóður CIC eða China Investment Corporation. Sjóðurinn sá, sem er í eigu kínverska ríkisins, á milljarða dollara útistandandi hjá fyrirtækjum Bakrie-bræðranna. Og sennilega hentar það kínverskum stjórnvöldum ekkert mjög illa að eignast stóran hlut í helstu kolanámunum í Indónesíu.
Það hefur reyndar furðulítið verið minnst á þessi miklu tengsl CIC og Bakrie-bræðranna í fjölmiðlaskrifunum um átökin um Bumi. En í huga Orkubloggarans virðist alls ekki útilokað að niðurstaðan verði á þessum nótum. Stóra spurningin yrði þá auðvitað sú hvernig Kínverjum og breskum aðalsmönnum tækist í sameiningu að stjórna kolavinnslufyrirtækjum á Borneó? Og það mögulega eftir hörð átök við mann, sem brátt kann að taka við forsetaembættinu á Indónesíu! Það yrði varla vinsamlegasta viðskiptaumhverfi í heimi.
Einhver sem vill kaupa í Bumi?
Já – þetta er æsispennandi. Og ef einhverjir lesendur Orkubloggsins eiga fáein sterlingspund og vilja geta kallað Nat Rothschild viðskiptafélaga sinn, þá er ennþá tækifæri til að nálgast hlutabréf í Bumi í kauphöllinni í Lundúnum. Hvort slík fjárfesting yrði arðsöm er aftur á móti ómögulegt að fullyrða nokkuð um.
Orkubloggarinn biður svo sannarlega spenntur eftir morgundeginum. Ekki síður spennandi er hvort einhver lesandi Orkubloggsins hefur haft þolinmæði til að lesa alla leið hingað!
Þess má að lokum geta, að allra síðustu dagana hafa orðið ýmsar vendingar í hluthafahópi Bumi. Og flestar benda þær vendingar til þess að minni líkur en meiri séu á því að ljúflingurinn Nat Rothschild nái sigri í atkvæðagreiðslunni á morgun. Það væri auðvitað leitt fyrir piltinn. En spyrjum að leikslokum.