Tæring ofnum – Yfirþrýstingur vatnsveitu
Apríl 1991
YFIRÞRÝSTINGUR á kalda vatninu í Seljahverfi í Breiðholti varð til þess að menga heita vatnið súrefni og tæra ofna í húsum, sem eru í 80 metra hæð eða hærra í hverfinu, segir í skýrslu sem unnin var fyrir Hitaveitu Reykjavíkur. Könnun á ástandi ofna við fimm götur leiddi í ljós að 45 ofnar höfðu tærst sundur í 18 húsum, en enginn í 32 húsum. Að sögn Gunnars Kristinssonar hitaveitustjóra, er þetta í fyrsta sinn sem vart verður tæringar með þessum hætti og hefur verið ákveðið að kanna ástand ofna í Seláshverfi og í húsum efst í Kópavogi.
Rúmt ár er síðan kvartanir bárust frá eigendum nokkurra húsa í Seljahverfi um að þeir hefðu orðið varir við tæringu í nær nýjum ofnum í húsunum. Var í fyrstu talið að ástæðan væri sú að heitt vatn úr borholum Hitaveitunnar í Elliðaárdal væri mengað köldu vatni en súrefnið í kalda vatninu veldur tæringu í ofnum. Þegar farið var að kanna málið kom í ljós að ofnarnir voru í húsum sem standa fjæst og efst í hverfinu en engra tæringa hafði orðið vart í húsum er stóðu nær dælistöð hitaveitunnar í hverfinu.
„Það þarf að ganga þannig frá málum að þrýstingur heitavatnsins í Seljahverfi verði ævinlega hærri en kalda vatnsins og þar er við að eiga stýritæki í dælistöð hverfisins,“ sagði Gunnar. „Þá er af gefnu tilefni talin ástæða til að kanna þrýsting í Seláshverfi og einnig í byggðum efst í Kópavogi þó svo að við höfum ekki orðið varir við neitt þar en þar er sama kerfi og í Seljahverfi. Ef ástandið þar reynist vera eins og í Breiðholti þá þarf að gera þar viðunandi ráðstafanir. Þetta er alveg nýtt fyrir okkur því þrýstingur á heitavatninu er yfirleitt mun hærri en á því kalda en þarna er sérstakt kerfi fyrir hæstu hæðirnar hjá vatnsveitunni.“
Gunnar sagði, að þar sem um galla væri að ræða í sjálfum húskerfunum, væri Hitaveitan ekki skaðabótarskyld. Á kerfinu ættu að vera einstreymislokar bæði á heitu og köldu vatni og er í undirbúningi að koma á eftirliti með innflutningi á þeim til að tryggja gæðin.