Garðabær – Vont vatn, gott vatn..

 

Janúar 2006

Vont vatn í góðum bæ

Auður Hallgrímsdóttir

Á TÍU árum hefur nítratmagn í neysluvatni Garðabæjar aukist um fimmtíu prósent. Það er forgagnsverkefni að huga að nýju vatnsbóli fyrir bæjarbúa svo koma megi í veg fyrir minnkandi rennsli í Vífilsstaðavatn og í Hraunholtslæk, en um fram allt bæta neysluvatn bæjarbúa.

Árið 1997 samþykkti umhverfisráðherra lög um vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu. Markmið laganna er að stuðla að hámarks hollustu neysluvatns.

Sama ár lýstu fulltrúar Garðabæjar því yfir með bréfi bæjarverkfræðings, að vatnsból okkar Garðbæinga í Dýjakrókum væri víkjandi vatnsból og að bæjaryfirvöld í Garðbæ byggðu áætlanir sínar á því.

Síðan eru liðin 8 ár og vatnsbólið í Dýjakrókum hefur ekki batnað og vatnsrennslið er ekki nóg til að þjóna öllum bænum. Hluti Ásahverfis fær vatn frá Vatnsveitu Hafnarfjarðar. Einnig hafa sérfræðingar bent á að aukin vatnstaka úr borholunni í Dýjakrókum þýði minnkandi rennsli til Vífilsstaðavatns og því minna rennsli í Hraunholtslæk.

Í reglulegum mælingum sem gerðar eru á vatnsbólum höfuðborgarsvæðisins er vatnsból Garðbæinga auðugast af nítrati, en nítrat er efni sem kemur úr húsdýraskít. Þar sem nítratið er enn ekki komið á hættustig er þó ekki talað um mengun í vatninu heldur auðgun í vatninu.

Hesthúsahverfin á Kjóavöllum og Heimsenda ásamt aukinni starfsemi og byggingu húsa í landi Kópavogs, sem er á aðrennslissvæði vatnsbólsins, setur hlutverk Dýjakróka sem vatnsból í uppnám. Styrkur nítrats í neysluvatni okkar Garðbæinga hefur aukist um 50% á aðeins tæpum áratug. Dýjakrókar eru því ekki framtíðarvatnsból fyrir Garðabæ.

Sérfræðingar telja að einhver auðugasta og best staðsetta vatnsæðin á vatnsverndarsvæðinu sé í Mygludölum. Mygludalir eru á milli Húsafells og Helgafells og teljast til upplands Garðabæjar. Þetta svæði er í dag frátekið sem framtíðarvatnsból en talið er að þar sé hægt að taka mikið vatn með litlum tilkostnaði. Þar sem Garðabær kemur til með að stækka mikið næstu fjögur árin tel ég eitt af forgangsverkefnum næsta kjörtímabils vera að huga að nýju vatnsbóli og leggja drög að góðu vatni í góðum bæ.

 

Janúar 2006

Gott vatn í Garðabæ

Gunnar Einarsson

Gunnar Einarsson svarar grein Auðar Hallgrímsdóttur um vatnsveitumál í Garðabæ:

„Á undanförnum áratugum hefur verið unnið að mikilli uppbyggingu og hagræðingu hjá Vatnsveitunni.“

Í MORGUNBLAÐINU birtist grein undir heitinu Vont vatn í góðum bæ. Þar sem bæði heiti greinarinnar og innihald hennar lýsa gæðum neysluvatns og starfsemi Vatnsveitu Garðabæjar á alrangan hátt, verður ekki undan því vikist að leiðrétta helstu rangfærslurnar.Vatnsveita Garðabæjar þjónar allri íbúðabyggð í Garðabæ auk Sveitarfélagsins Álftaness. Vatnsveitan framleiðir um 1.300.000 tonn af vatni árlega, en þar af eru seld um 200.000 tonn til Orkuveitu Reykjavíkur, sem nýlega keypti Vatnsveitu Álftaness. Vatnsveitan var með fyrstu vatnsveitum á landinu, sem komu á innra eftirliti og fékk staðfestingu Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis fyrir því. Er Vatnsveitan rekin undir eftirliti Heilbrigðiseftirlitsins eins og allar vatnsveittur, enda teljast þær vera matvælafyrirtæki.

Í ofangreindri grein er talað um vont vatn, sem virðist samkvæmt greininni byggjast á því, að í vatninu mælist nítrat.

Með hliðsjón af reglum Evrópusambandsins, sem einnig gilda hér á landi, er nítratmagn í neysluvatni í Garðabæ um 4% af leyfðu hámarksmagni. Það er því fjarri öllu lagi að tala um vont vatn eða mengun. Í öllu neysluvatni er að finna ýmiss konar efni, bæði skaðleg og óskaðleg. Aðalatriðið er auðvitað í hve miklu magni efnin eru. Sem dæmi má taka, að í neysluvatni mælast þungmálmar, sem í tilteknu magni eru skaðlegir. Magn þungmálma er í nokkrum tilvikum mun lægra hjá Vatnsveitu Garðabæjar en í neysluvatni frá Orkuveitu Reykjavíkur, en eigi að síður dettur engum manni í hug að fullyrða, að Orkuveitan selji vont vatn, því að magn þessara efna hjá báðum veitum er óralangt frá leyfilegum mörkum.

Á undanförnum áratugum hefur verið unnið að mikilli uppbyggingu og hagræðingu hjá Vatnsveitunni. Framleiðslukostnaður á vatni er um þriðjungur til fjórðungur af því, sem kosta myndi að kaupa vatn frá nágrannasveitarfélögunum.

Þrátt fyrir um 50% fjölgun íbúa á 20 árum hefur vatnstaka í vatnsbólunum stórminnkað.

Vatnsbólið í Dýjakrókum er því gullnáma og perla, sem leitast á við að varðveita eins lengi og unnt er.

Þar er framleitt hágæðavatn, sem flestar vatnsveitur í heiminum væru stoltar af.

Fleira áhugavert: