Ógn vatnsbóla – Ólía í grunnvatnið
Janúar 2018
Reykvíkingar og nærsveitamenn, og allir sem fara um þetta svæði, ættu alltaf að hafa í huga að Heiðmörkin og nærliggjandi svæði njóta sérstakrar verndar vegna vatnstökunnar.
„Það er ekki sama hvernig við hegðum okkur,“
sagði Hólmfríður Sigurðardóttir. „Suðurlandsvegur er ógn. Hann liggur um vatnsverndarsvæðið. „Það er ljóst að efla þarf mótvægisaðgerðir við Suðurlandsveg. Það væri t.d. hægt að útbúa olíugildrur meðfram veginum. Helsta ógnin við vatnsbólin er að það verði umferðarslys og olía fari í grunnvatnið.“ Vegakerfið í Heiðmörk er enn nær vatnsbólum Reykvíkinga og þar gæti skapast stórhætta ef bíll fer út af og olía lekur niður í jarðveginn.
„Ég myndi vilja loka vegunum um Heiðmörk fyrir vélknúinni umferð.“
Það verður ekki gert með einu pennastriki, segir Hólmfríður Sigurðardóttir, en Veitur ræða þessa stöðu við hagsmunaaðila á svæðinu, hvort hægt sé að stýra umferð meira ef hætta skapast, t.d. vegna hálku og erfiðrar færðar. Vegirnir um Heiðmörk hafa raunar verið lokaðir frá því um miðjan desember.
Vatnsverndarsvæðið ofan Reykjavíkur er um 250 ferkílómetrar að flatarmáli, nær frá Norðlingaholti og upp í Bláfjöll. Vatnsból höfuðborgarsvæðisins skila um 70% landsmanna neysluvatni alla daga ársins. Vatni er ekki dælt úr holum við Gvendarbrunna á vetrum vegna hættu sem stafar af yfirborðsvatni. Gerlamengunin á dögunum var frá holum við Myllulæk og Jaðar – og kom þessi mengun starfsmönnum Veitna á óvart. Holum var lokað og það stendur tæpt að anna allri vatnsþörf á höfuðborgarsvæðinu. Nú er í undirbúningi að virkja þrjár nýjar holur í Vatnsendakrika, þar sem fyrir eru tvær djúpar holur. Þetta svæði stendur hærra í Heiðmörk og minni hætta stafar af yfirborðsvatni.+