Eldvarnarskóhorn – Forvörn eld-, slysavarna
Apríl 2018
Stjórn slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins samþykkti að ráðast í átakið á fundi sínum 21. mars. Það er að sænskri fyrirmynd. „Þetta er einfalt og skemmtilegt og gráupplagt að nýta reynslu Norðurlandaþjóðanna hérna heima,“ segir Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri.
Jón Viðar segir að sænskur slökkviliðsmaður hafi fundið skóhornið upp til að bregðast við því að eldri borgarar byggju sífellt lengur í eigin húsnæði og þyrftu að sinna húsverkum langt fram eftir aldri. Fólk hefði átt til að slasast við klifra upp á stól til að ýta á þartilgerðan hnapp sem segir til um hvort reykskynjarinn virkar eða ekki. Aðrir hafi ekki hætt sér upp á stólinn og því ekki kannað stöðuna á skynjaranum.
„Þetta er mjög einföld hönnun,“ segir Jón Viðar. „Þetta er langt skóhorn með hnúði undan þannig að þegar þú teygir þig upp þá nærðu að ýta á takkann á reykskynjaranum,“ segir hann.
Átakið hafi gefið góða raun ytra og slökkvilið, sveitarfélög og tryggingafélög verið ánægð með það. Hér á landi sé þetta kannski ekki orðið mikið vandamál. „En við höfum sé fleiri útköll vegna til dæmis eldamennsku, sem hefðu ekki farið eins langt ef reykskynjarar hefðu verið virkir,“ segir hann.
Fyrir liggi að þróunin hér á landi sé jafnan í takti við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum, þótt við séum stundum eilítið á eftir. „Við viljum ekki þurfa að upplifa þetta – við viljum vera á undan og nýta okkur þeirra reynslu,“ segir Jón Viðar Matthíasson. Gert er ráð fyrir að átakinu verði hleypt af stokkunum í næsta mánuði.
Skóhornið er framleitt af sænska fyrirtækinu Testhornet, sem slökkviliðsmaðurinn Anders Hansson starfrækir í hjáverkum. Á vef fyrirtækisins segir að Testhornet, eða Prufuhornið, sé vel hannað og langt skóhorn, ólíkt flestum öðrum skóhornum á markaðnum sem séu of stutt. Þá sé það dagleg áminning til fólks um að prófa reykskynjarann sinn reglulega.