Járnnáman við Maríufljót Baffinslandi

Heimild: 

 

Október 2014

Grænlenska risanáman í uppnámi

nuuk-winter-night.jpg

nuuk-winter-nigh   SMELLA Á MYNDIR TIL AÐ STÆKKA

Um árabil hefur staðið til að hefja framkvæmdir við gríðarstóra járnnámu á hálendinu við Isua langt ofan við Nuuk á Grænlandi. En hægari efnahagsvöxtur í Kína undanfarin misseri hefur leitt til lækkandi verðs á járngrýti og það hefur dregið úr áætlaðri arðsemi þessa risaverkefnis á Grænlandi. Nú síðast bárust svo fréttir af yfirvofandi gjaldþroti námufyrirtækisins sem ætlaði að ráðast í verkefnið; London Mining. Það virðast því vera minnkandi líkur á því að járnnáman upp við jökulinn við Isua verði að veruleika á næstu árum.

Þetta eru ekki góðar fréttir fyrir Grænlendinga – og allra síst fyrir þá sem hafa stefnt að sjálfstæði Grænlands. Grænlenski landssjóðurinn er mjög háður fjárframlögum frá Danmörku. Til að auka tekjur Grænlands hefur mest verið horft til járngrýtisins og mögulegrar olíuvinnslu á grænlenska landgrunninu. Án einhvers slíks tekjustofns er draumurinn um sjálfstætt Grænland óhjákvæmilega órafjarri.

Hagnaðarvon í heimskautajárngrýtinu

greenland-isua-iron-mine-map_1247949.png

greenland-isua-iron-mine-map

Á heimskautasvæðum Grænlands og Kanada er að finna nokkur ósnortin svæði þar sem talið er áhugavert að vinna járngrýti. Þar er hlutfall járns í berginu miklu hærra en gengur og gerist annars staðar í heiminum í dag og hækkandi verð á járngrýti hefur opnað möguleikann á að vinnsla á þessum svæðum yrði afar ábatasöm.

En það er dýrt að sækja járngrýtið a þessar afskekktu slóðir og koma því á markað.  Aðstæður allar eru mjög erfiðar, einkum vegna algers skorts á innviðum. Þarna eru engir vegir, engar járnbrautir, skortur á höfnum, ekkert rafmagn o.s.frv. Þarna þarf líka að flytja inn mestallt vinnuafl vegna námuvinnslunnar.

Þegar járngrýti hækkaði mikið í verði í tengslum við efnahagsuppganginn í Kína eftir aldamótin, jókst áhugi á að ráðast í að vinna heimskautajárngrýtið. Upp úr 2010 virtist sem tvær mjög stórar járnnámur myndu senn opnast sitt hvoru megin Baffinsflóans. Þar var annars vegar áðurnefnd náma við Isua á Grænlandi og hins vegar járnnáma sem kennd er við Maríufljót (Mary River) á Baffinslandi í Kanada.

baffinland-iron-ore-project-railway-map.jpg

baffinland-iron-ore-project-railway-map

Orkubloggið hefur áður fjallað umfyrirhugaða námu við Isua og þ.á m. kostnað og áætlaða framleiðslu. Framkvæmdin á Baffinslandi er um margt svipuð. Þar var ráðgert að ársframleiðslan yrði um 18 milljónir tonna af járngrýti (sambærileg tala vegna Isua er 15 milljónir tonna).

Ráðgert var að leggja járnbraut um kanadíska sífrerann til að flytja járngrýtið um 150 km leið frá Maríufljóti til sjávar og þar skyldi reisa höfn fyrir flutningaskipin (í Isua stóð aftur á móti til að flytja grófmalað járngrýtið um 100 km til skips um gríðarmikla vatnslögn). Í báðum tilvikum yrði öll uppbygging við námuvinnsluna afar kostnaðarsöm. Það á reyndar við um öll ný járnnámuverkefni hvarvetna í heiminum að þau kalla á risafjárfestingar. Þess vegna virtist sem bæði umrædd stórverkefni gætu hæglega orðið að veruleika, ef eftirspurn eftir járngrýti héldi áfram að vaxa. En í báðum tilvikum eru aðstæðurnar þó óvenju erfiðar.

Framkvæmdir upp á samtals 6,5 milljarða USD!

iron-ore-growth_1980-2012.gif

iron-ore-growth

Þrátt fyrir að framleiðsla kanadísku námunnar ætti að verða litlu meiri en þeirrar grænlensku var áætlaður kostnaður við námuna á Baffinslandi ansið miklu meiri en þeirrar við Isua. Framkvæmdakostnaður vegna grænlensku námunnar hefur verið áætlaður nálægt 2,5 milljörðum USD, en náman á Baffinslandi átti að kosta heila 4 milljarða USD! Munurinn felst einkum í miklum kostnaði á Baffinslandi við lagningu járnbrautar frá Maríufljóti og niður að sjó (járnbrautin þarna um sífrerann átti að kosta um 2 milljarða USD).

Eins og áður sagði, þá er kostnaður við að opna nýjar stórar járnnámur almennt gríðarlegur og dæmi um 10 milljarða dollara verkefni í Ástralíu. Það sem réttlætir það að ráðast í svo dýrar framkvæmdir er hátt verð á járngrýti. Verðið er margfalt það sem var áður en efnahagsuppgangurinn í Kína fór á fullt og hagnaðarvonin er geysileg. Jafnvel þó svo verðið á járngrýti hafi lækkað mikið undanfarið, frá því sem hæst var fyrir fáeinum árum, geta nýjar járnnámur borgað sig upp á örfáum árum. En eftirspurnin eftir járni er samt auðvitað ekki takmarkalaus og fyrirtækin sem ráðast í ný námuverkefni þurfa að vera geysilega sterk til að ráða við miklar verðsveiflur.

Framkvæmdaleyfi á Baffinslandi 2012 en hægagangur á Grænlandi

Sumarið 2012 virtist blasa við að brátt yrðu báðar umræddar járnnámur opnaðar sitt hvoru megin Baffinsflóans. Og að heimskautajárnið myndi þar með byrja að streyma á markaðinn innan örfárra ára.

baffinland-iron-ore-project-railway-explained.jpg

baffinland-iron-ore-project-railway-explained

Kanadísk stjórnvöld höfðu veitt námunni við Maríufljót framkvæmdaleyfi þá um vorið. Og hjá London Mining ríkti bjartsýni um að fá brátt framkvæmdaleyfi hjá grænlenskum stjórnvöldum vegna námunnar við Isua. Þegar Orkubloggarinn kom á skrifstofur London Mining á Grænlandi í sumarbyrjun 2012 virtist einungis mánaðarspursmál hvenær framkvæmdaleyfið vegna járnnámunnar við Isua yrði gefið út og framkvæmdir hæfust.

Sagt var að leyfið yrði líklega í höfn fyrir áramótin (2012/2013) og að framkvæmdir færu senn á fullt. Mati á umhverfisáhrifum var lokið og ráðgert var að sjálf vinnslan í námunni gæti byrjað árið 2015. Það átti að vísu ennþá alveg eftir að fjármagna þessa risaframkvæmd upp á um 2,5 milljarða USD! Menn voru samt bjartsýnir. Að sögn London Mining var búist við að brátt yrði kominn samningur við kínverska banka um fjármögnunina. Og að líklegast væri að járngrýtið frá Isua færi allt beinustu leið sjóðleiðina til Kína. Þetta gekk ekki eftir. Enda var verð á járngrýti byrjað að lækka og aukin óvissa um eftirspurnina frá Kína á komandi árum.

Náman á Baffinslandi er komin í gang en allt stopp við Isua

Meðan grænlensk stjórnvöld veltu ennþá vöngum sumarið 2012 um útgáfu framkvæmdaleyfis og undruðu sig á töfum London Mining við að tryggja fjármögnun verkefnisins, gengu hlutirnir mun hraðar þarna Kanadamegin flóans. Framkvæmdaleyfi vegna námunnar þar var gefið út í mars 2012.

iron-ore-price_2009-2014.jpg

iron-ore-price_2009

Þegar kom fram á árið 2013 hélt verð á járngrýti áfram að síga jafnt og þétt og það bitnaði eðlilega á arðsemisáætlunum nýrra járnnáma. Svo fór að verkefnið á Baffinslandi var endurmetið og ákveðið að skera það verulega niður. Í stað þess að ársframleiðslan yrði um 18 milljónir tonna var nú ráðgert að framleiða einungis um 3,5 milljónir tonna. Það magn yrði unnt að flytja til hafnar með stórum vörubílum og þar með var blásið af að leggja rándýra járnbrautina milli námunnar og sjávar.

Í stað áætlunar um framkvæmdir upp á 4 milljarða USD hljóðaði kostnaðaráætlun vegna þessarar nýju útfærslu Maríunámunnar upp á um 750 milljónir USD. Sú áætlun hefur gengið eftir og einmitt núna fyrir örfáum vikum (í september sem leið) skilaði fyrsta járngrýtið sér frá nýju námunni á Baffinslandi. Verkefnið við Isua á Grænlandi virðist aftur á móti komið í algert strand.

Verðlækkun á járngrýti er mikið högg fyrir litlu námufyrirtækin

Stærsti munurinn á þessum tveimur verkefnum, þ.e. á Baffinslandi og við Isua, liggur kannski í eigendum verkefnanna. London Mining er á alþjóðamælikvarða afar lítið námufyrirtæki og einungis með námurekstur í einu landi, þ.e. í Sierra Leone í V-Afríku. Verkefnið á Baffinslandi er aftur á móti með eitt allra stærsta fyrirtæki heims sem stóran hluthafa; nefnilega stálrisann ArcelorMittal.

Vegna verðlækkunarinnar sem orðið hefur á járngrýti undanfarin misseri og ár hafa arðsemisforsendur verkefnis London Mining gjörbreyst. Þarna er vel að merkja um að ræða fyrirtæki sem er einungis með eina járnnámu í rekstri, sem er náman í Sierra Leone. Minni tekjur þar, en væntingar voru um, hafa þrengt illilega að London Mining og er fyrirtækið nú sagt stefna beint í þrot.

iron-ore-producers-main-2013-2.jpg

iron-ore-producers-main

Meðan stóru námurisarnir, eins og BHP BillitonRio Tinto og Vale, hafa tækifæri til að skera niður kostnað í rekstri sínum víða um heim, þá er stakkur London Mining afar þröngt sniðinn. Vonlítið virðist að námunni í Sierra Leone verði bjargað nema fyrirtækið nái að selja hana til einhvers af stóru fyrirtækjunum. Og jafnvel þó svo það kunni að heppnast virðist ólíklegt að hreyfing komist á járnnámuverkefnið við Isua á Grænlandi í bráð – jafnvel þó svo verkefnið myndi skipta um eiganda.

Allar fyrirhugaðar stórframkvæmdir á Grænlandi í strand?

Auk þess sem járnnámuverkefnið við Isua er stopp eru önnur stór verkefni á Grænlandi sem fyrirhuguð voru meira eða minna komin í strand. Olíuleitin á Baffinsflóa hefur ekki skilað árangri og Cairn Energy gafst upp á leitinni haustið 2012. Þrátt fyrir að nýjum leitarleyfum hafi nýlega verið úthlutað út af strönd NA-Grænlands eru ekki horfur á að þar hefjist umfangsmiklar rannsóknir í bráð. Olíuverð er einfaldlega orðið of lágt til að unnt sé að réttlæta að miklir fjármunir séu lagðir í slíka leit. Það er því sennilega nokkuð langt í að vinnanleg olía finnist við Grænland.

Annað dæmi um afar óvíst grænlenskt stórverkefni er álverið sem Alcoa hefur sagst ætla að reisa á vesturströnd Grænlands. Þrátt fyrir ítrekuð vilyrði Alcoa bólar ennþá ekkert á því að fyrirtækið ráðist í þá framkvæmd. Þetta er óheppilegt fyrir Grænlendinga því Alcoa á frátekna nokkra bestu vatnsaflsvirkjunarkostina í landinu.

greenland_kvanefjeld_1247955.jpg

greenland_kvanefjeld

Enn eitt stórverkefnið á Grænlandi sem er í óvissu er fyrirhuguð vinnsla ástralsks fyrirtækis á snefilmálmum (rare earth metals) við Kvanefjeld á SV-Grænlandi. Það verkefni hefur ekki hlotið brautargengi grænlenskra stjórnvalda vegna ótta við úranmengun. Heimastjórnin sem tók við á Grænlandi fyrir rúmu ári síðan ætlaði sér reyndar að koma verkefninu á hreyfingu. Það hefur ekki gengið eftir, enda ýmsum spurningum ósvarað um vinnsluna og bakhjarla þessa nokkuð svo dularfulla ástralska félags; Greenland Minerals and Energy.

Og nú er stjórnin í Nuuk fallin og hætt við að nýja heimastjórnin þurfi að horfast í augu við þann veruleika að ekkert nýtt stórverkefni verði að veruleika á Grænlandi næstu árin. Það virðast því litlar líkur á að nýr mikilvægur tekjustofn myndist fyrir ríkissjóð Grænlands í bráð.

Erfiðleikar framundan en ástæða til bjartsýni til lengri tíma litið

Það mun engu að síður koma að því að umfangsmikil námuvinnsla hefjist á Grænlandi (og sennilega líka olíuvinnsla á grænlenska landgrunninu). Sú framtíðarsýn er a.m.k. sett fram í nýrri og nokkuð trúverðugri bandarískri skýrslu sem Orkubloggarinn fékk nýverið í hendur. Til að koma framkvæmdum í gang á Grænlandi þurfum við að bíða næstu hrávöruuppsveiflu. En fram að því kann að vera heill áratugur eða jafnvel ennþá lengra – og þangað til geta orðið nokkuð erfiðir tímar á Grænlandi.

Fleira áhugavert: