Jarðvarmi, hrávörur og önnur hitamál
Ísland hefur sérstöðu þegar horft er til endurnýjanlegrar orku og orkumála. Á meðan fjölmörg ríki eru að keppast við að bæta orkuöryggi sitt til lengri tíma er 85% af heildarorkunotkun á Íslandi frá innlendum grænum og endurnýjanlegum orkugjöfum í formi vatnsfalla og jarðvarma. Miðað við hina frægu höfðatölu er Ísland sannarlega stærsta land í heimi þegar kemur að raforkuframleiðslu. Að auki er Ísland með stærstu jarðvarma hitaveitu í Evrópu rekna af Orkuveitu Reykjavíkur.
Frá fátækt til lífsgæða
En þetta var ekki alltaf svona. Frá því að jarðvarminn var fyrst nýttur til húshitunar í Mosfellsbæ árið 1908, hefur Ísland farið úr því að vera eitt fátækasta land Evrópu, í að vera eitt þeirra landa sem njóta hvað mestra lífsgæða í heiminum, og er þetta að miklu leyti að þakka framsýni Íslendinga og nýtingu jarðvarmaauðlinda landsins. Síðustu misseri hafa Íslendingar í auknum mæli nýtt sér þá þekkingu sem hér hefur myndast samfara uppbyggingu jarðvarmageirans til að afla verkefna erlendis. Það hefur stutt við atvinnusköpun í kjölfar efnahags og gjaldeyrishrunsins 2008. Fjölmörg íslensk fyrirtæki eru að vinna að orkuverkefnum á erlendri grundu, á svæðum eins og Norður-Ameríku, Mið-Ameríku, Evrópu, Suðaustur-Asíu og Afríku. Í þessari viku er haldin alþjóðleg ráðstefna um jarðvarma í Hörpunni, Iceland Geothermal Conference. Þetta er í þriðja sinn sem þessi ráðstefna er haldin hér í Reykjavík. Gert er ráð fyrir yfir 600 þátttakendum frá 45 löndum. Yfirskrift ráðstefnunnar er „Kostir jarðvarmanýtingar“, enda eru þeir fjölmargir eins og við Íslendingar þekkjum. Fjölmargir innlendir og erlendir ræðumenn munu ræða þessa kosti ásamt þeim áskorunum og tækifærum sem þeim fylgja.
Oftar en ekki eru átakaumræður um virkjanakosti og rammaáætlun á Alþingi og í fjölmiðlum. Stundum gleymist í umræðunni mikilvægi „gullsins okkar“ eins og reynslumenn í þessum geira hafa nefnt jarðvarmann og heita vatnið. Í dag eru 90% allra bygginga í landinu okkar hituð með heitu vatni eða m.ö.o. jarðvarmanum. Þetta er einstakt á heimsvísu og mun ódýrara og umhverfisvænna en að nýta jarðefniseldsneyti til húshitunar eins og var gert á árum áður.
Áður en landsmenn gátu nýtt heita vatnið til húshitunar voru kol og svo síðar olía nýtt til húshitunar með tilheyrandi mengun og neikvæðum heilsuáhrifum á landsmenn. Notkun jarðhitans eykur til muna orkuöryggi og efnahagslegan stöðugleika þar sem hann dregur úr utanaðkomandi verðsveiflum vegna breytinga á gengi og verðum á alþjóðlegum eldsneytismörkuðum. Fjölnýting jarðvarmans er einstaklega áhugaverð, og er hún t.a.m. í formi húshitunar, raforkuframleiðslu, sundlauga, snjóbræðslu, fiskeldis, ylræktar o.fl. Þess vegna hefur verið einstaklega spennandi að fylgjast með framgangi Auðlindagarðsins á Reykjanesi, undir forystu Alberts Albertssonar hjá HS Orku, en garðurinn gengur út á fjölnýtingu auðlindastrauma frá jarðvarmaverum HS Orku.
Markmið garðsins er einmitt „Samfélag án sóunar“ , þar sem affall eins er hráefni annars. Þetta er frábært dæmi um kosti jarðvarmans í nútímasamfélagi. Þessu til viðbótar er landsmönnum tíðrætt um þá miklu velgengni sem íslensk knattspyrna hefur notið sl. misseri. Ljóst er að flestir landsmenn munu fylgjast grannt með gengi „strákanna okkar“ í Frakklandi í sumar á EM. Margir eru þeirrar skoðunar að þessi velgengni sé tengd uppbyggingu upphitaðra knattspyrnuhalla sl. ár. Margir eru einnig þeirrar skoðunar að án jarðvarmans væri rekstur slíkra mannvirkja illviðráðanlegur og því hæglega hægt að tengja þann uppgang og velgengni sem íslensk knattspyrna hefur notið sl. ár við jarðvarmaauðlindir landsins.
Önnur hlið á jákvæðum áhrifum jarðvarma er umhverfisleg. Samkvæmt Orkustofnun er talið að árlegur „sparnaður“ í losun koldíoxíðs (CO2) með nýtingu jarðvarmans í stað olíu (til húshitunar og rafmagnsframleiðslu til almennra nota) sé nálægt 7,5 milljónir tonna af koldíoxíð. En útblástur koldíoxíðs er talinn einn helsti valdur gróðurhúsaáhrifa. Þessi árlegi sparnaður er um það bil útblástur um 14 álvera sambærilegra í stærð og álver Alcoa í Reyðarfirði. Ljóst er að nýting jarðvarma hérlendis til almenningsnota hefur haft gríðarlega jákvæð heilsutengd áhrif fyrir almenning.
Undirstaða velmegunar
Í umræðunni um orkumál Íslands vill efnahagslegt mikilvægi jarðvarmans fyrir Ísland oft gleymast. Þrátt fyrir efnahagsáföll og óstöðugleika í efnahagsmálum í gegnum síðustu áratugi er óhætt að fullyrða að staða íslensks almennings og efnahagslífs væri mun veikari ef ekki nyti við þeirra gríðarlegu verðmæta sem jarðvarminn færir okkur á hverju ári. Það er því óhætt að segja að framsýni Íslendinga í jarðvarmamálum hafi spilað stórt hlutverk í að leggja grunninn að efnahaglegri velsæld Íslands.