Raforkuframleiðsla – Orkuskipti , 15-20 ár

Grein/Linkur: Ljóst að virkja þurfi meira

Höfundur: Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar

Heimild:

.

Urriðafossvirkjun

.

Febrúar 2021

Ljóst að virkja þurfi meira

Hörður Arnarson

Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarin ár um orkuskipti og loftslagsmál. Hörður Arnarson, sem er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, segir ljóst að ef íslenska þjóðin ætli sér að ná þeim metnaðarfullu markmiðum sem sett hafa verið í orkuskiptum, ásamt því að standa við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum, þurfi að auka framleiðslu á endurnýjanlegri orku hér á landi. Það verði ekki gert öðruvísi en með því að virkja meira.

„Það er mikilvægt að teknar verði ákvarðanir um þetta innan samfélagsins. En það er ljóst miðað við væntingar sem samfélagið hefur um orkuskipti að þá þarf að virkja meira til að geta staðið undir raforkuþörf framtíðarinnar. Svo sjáum við að fjölbreyttur grænn iðnaður hefur áhuga á að hefja starfsemi á Íslandi, samhliða þeim sem fyrir er, með tilheyrandi atvinnu- og nýsköpun fyrir samfélagið og má í því samhengi nefna matvælaiðnað, gagnaversiðnað og hugmyndir um rafeldsneytisframleiðslu. Eina leiðin til þess að þetta allt saman gangi upp er að hefja frekari orkuvinnslu.“

Hörður bendir þó á að það sé heljarinnar framkvæmd að reisa nýja virkjun og allt ferlið í kringum það geti tekið rúmlega áratug. Því þurfi að taka ákvarðanir um framtíðaráform í orkuvinnslu eins fljótt og auðið er. „Það þarf að varpa ljósi á hvað samfélagið hefur mikla orkuþörf til lengri tíma litið. Í fullum orkuskiptum, sem gerast á 15-20 árum, þá er mikilvægt að vera með virkjunarkosti á borðinu. Þá kosti sem eiga að koma til framkvæmdar eftir 15-20 ár þarf að byrja að skoða núna því tíminn sem það tekur að undirbúa virkjanir, fara í gegnum leyfisveitingaferlið og svo framkvæmdin sjálf, er mjög langur.“

Um sé að ræða vandasamt verk sem þarfnist mikils samráðs. „Það þarf að þekkja umhverfisáhrifin, vatnafarið, jarðveginn og jarðhitann, auk þess sem fara þarf í langt samráðsferli til þess að lágmarka umhverfisáhrif. Þá er mögulegt að kæra þessi mál á nokkrum stigum. Þess vegna þarf markvisst að vinna að því í dag sem á að virkja eftir 15-20 ár,“ segir Hörður.

Raforkuframleiðsla í heild sinni á Íslandi sé tæpar 20 teravattstundir á ári. Ef ráðast eigi í orkuskipti á landi, sjó og í innanlandsflugi sé ekki ólíklegt að það þurfi að auka ársframleiðslu raforku um a.m.k. helming. „Það er verið að vinna í grænbók í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu og eitt af meginhlutverkum þeirrar vinnu er að  ná utan um það hver orkuþörfin til framtíðar sé. Grænbókin á að vera tilbúin í næsta mánuði og verður fróðlegt að sjá sýn höfunda hennar á stöðu mála varðandi framboð og eftirspurn raforku.“

Fleira áhugavert: