Orkumál, sagan – Orkubloggarinn hrakinn úr landi?
.
Hér má heyra viðtal við Ketill Sigurjónsson í kastljósi RÚV
.
Mars 2016
Ketill Sigurjónsson, sem um árabil hélt úti bloggi um orkumál, ætlar að draga sig í hlé. Hann segist ekki hafa afl til að takast á við Norðurál og önnur stóriðjufyrirtæki sem hann segir beita stórfelldum blekkingum í áróðursstríði um auðlindir landsins.
Þetta kemur fram í síðustu færslu Ketilsá Orkublogginu sem hann hefur haldið úti um átta ára skeið.
Í færslunni rekur hann starfsaðferðir Norðuráls og samskipti hans við fyrirtækið í ítarlegu máli. Hann segir forsvarsmenn ítrekað fara rangt með staðreyndir og nota rangar upplýsingar til að slá ryki í augu almennings. Þessi áróður eigi sér aðeins eitt meginmarkmið, að sporna gegn því að stóriðjufyrirtækin, einkum Norðurál, fái samkeppni um orkuna.
Ketill segir að merkilegar breytingar að eiga sér stað á alþjóðavettvangi sem geti haft jákvæð áhrif fyrir þjóð sem ræður yfir mikilli endurnýjanlegri orku. Ísland standi frammi fyrir óvenjulegum tækifærum því á þessu ári mun ráðast hvort og á haða kjörum það verður endursamið af hálfu Landsvirkjunar við Elkem og Norðurál. Þá gæti einnig skýrst hvort sæstrengur til Bretlands sé ábatasöm framkvæmd.
Það er kannski eðlilegt að erlenda stóriðjan á Íslandi sé ekki ánægð með þá þróun að unnt verði að fá hátt verð fyrir íslenska raforku. Því það myndi þýða að töluvert aukin samkeppni hafi myndast um raforkuna sem hér er framleidd. Sem gæfi Íslendingum tækifæri á því að fá meira af auðlindaarðinum sem raforkuvinnslan skapar i sinn hlut – í stað þess að hann renni áfram að mestu leyti til stóriðjunnar.
Ketill upplýsir að í kjölfar skrifa hans um möguleika vegna sæstrengs hafi framkvæmdastjóri Norðuráls haft samband við hann til að vinna fyrir sig verkefni sem fólst í að útvega fyrirtækinu upplýsingar.
Lesendur geta sjálfir velt fyrir sér hvað þar lá að baki. Þau kaup voru reyndar ekki í boði af minni hálfu. Og það næsta sem heyrðist á opinberum vettvangi frá umræddum framkvæmdastjóra hjá Norðuráli, var að ekkert væri að marka skrif mín því þau væru bara bull. Þannig eru vinnubrögð Norðuráls; ef ekki er unnt að kaupa sérfræðinginn (til starfa) þá má reyna að útmála hann sem bullukoll. En það var auðvitað framkvæmdastjóri Norðuráls sem þarna var hinn raunverulegi bullukolur.
Segir Ketill að þótt þetta kunni að virðast sakleysislegt sé þarna á ferðinni „massífur áróður stórfyrirtækja“ með tugmilljarða veltu.
Fyrir einstakling verður það óhjákvæmilega afar ójafn leikur. Og þetta snýst vel að merkja um afar mikilvægt grundvallaratriði; hver á að njóta arðsins af íslensku orkuauðlindunum; stóriðjan eða þjóðin? Þetta skiptir gífurlegu máli.
Ketill upplýsir jafnframt að um mitt ár 2014 hafi þaulreyndur framkvæmdastjóri hjá einu af stærstu íslensku fjármálafyrirtækjunum haft samband við hann og tjáð honum að „forstjóri Norðuráls væri að hringja í stjórnendur fyrirtækisins og kvarta yfir samstarfi þeirra við mig“.
Það var svo í júní á liðnu ári, 2015, að einn af bankastjórunum í íslenska bankakerfinu hafði samband við mig. Og varaði mig við því að Norðurál væri að undirbúa herferð gegn mínum málflutningi. Og væri að reyna að ráða almannatengla til verksins. Og viðkomandi bætti við þessum skemmtilegu orðum: „Þeir ætla sér að eyðileggja þig“.
Segir Ketill að þarna hafi hann fengið staðfest að hann væri að birta upplýsingar sem stóriðjan vill ekki að almenningur viti af.
En nú var sem sagt orðið augljóst að ég var orðinn upplýsingabrunnur sem stóriðjan vildi kæfa.
Ketill segir að undanfarin hafi sprottið fram „ruglukollar“ sem fara fram með áróðursskrif fyrir stóriðjun og gegn sæstreng. Miðað við þau skrif virðist sem Norðuráli hafi gengið illa að fá fagfólk til þess verks þar sem þau séu „svo yfirfull af röngum upplýsingum og sleikjuskap við Norðurál og önnur álfyrirtæki, að það er stundum vandséð hvort þau eigi að flokka sem hlægilega vitleysu eða áróður“.
Það er engu að síður svo að ég hef orðið sífellt meira var við það að bæði í orkugeiranum hér, fjármálageiranum og víðar þrífst víða mikil undirgefni gagnvart Norðuráli og öðrum stóriðjufyrirtækjum sem hér starfa. Enda eru þessi útlendu stóriðjufyrirtæki með mikla veltu og kaupa hér margvíslega þjónustu. Og það eitt og sér skapar þeim völd. Hvað viðvíkur mér, þá er þarna um að ræða þvílíka yfirburðarstöðu að einstaklingur getur ekki til lengdar verið í því hlutverki að upplýsa um hið sanna um viðskiptaumhverfi og starfsaðferðir þessara fyrirtækja.
Segist Ketill þess vegna ætla að draga sig í hlé frá slíkri umfjöllun og verður Orkubloggið „lagt til hvílu“. Hyggst hann nú alfarið einbeita sér að alþjóðlegri ráðgjöf á sviði orkumála í löndunum umhverfis okkur.
Að lokum segir Ketill:
Ég vil þakka lesendum Orkubloggsins samfylgdina (s.l. átta ár!). Og minni landsmenn á að orkuauðlindir Íslands eru fyrst og fremst auðlindir þjóðarinnar en ekki stóriðjunnar. Vonandi bera stjórnmálamenn og orkufyrirtækin hér gæfu til að tryggja það, að arðurinn af auðlindanýtingunni renni í auknum mæli til eiganda auðlindarinnar, þ.e. þjóðarinnar. Fremur en að hann renni að mestu til erlendu stóriðjunnar, líkt og verið hefur undanfarna áratugi.
.
Hér má lesa fræðandi greinar Orkugloggsins úr gangagrunni/sögusafni vatnsiðnaðar ..smella hlekk