Mannlegt þvag og saur – Kröftugasti áburðurinn?

Heimild:  

 

Mars 2004

Fyrir miðja síðustu öld að loknum hildarleikum mikla, seinni heimsstyrjöldinni, töldu menn að upp væru runnir þeir tímar þar sem maðurinn að lokum væri orðinn ótvíræður herra heimsins með allri þeirri tækni sem þá var þekkt. Hungrinu í heiminum skyldi útrýmt á mettíma, landbúnaður mundi blómstra, framleiðsla hverskyns jarðargróða margfölduð. Þar átti að skipta sköpum uppgötvanir og þróun alls kyns eiturefna, sem verða mundi banabiti allra þeirra skriðkvikinda sem leyfðu sér að éta kál og kartöflur og annað grænmeti eins og þau ættu uppskeruna jafnt og maðurinn. Fremst í flokki þessara kraftaverkaefna var hvítt duft sem kallað var DDT upp á amerísku, en þau voru mun fleiri hjálparefnin sem ræktunarmenn á þessum árum áttu kost á. Íslenskir ræktendur grænmetis tóku þessu fagnaði. Menn gengu um kálakrana með trektarfötur og helltu þessu dýrlega eitri umhverfis hverja plöntu hvort sem það var hvítkál, grænkál, blómkál eða hvað ætijurt sem var.

En svo sló í bakseglin.

Hinir sjálfumglöðu eftirstríðsmenn með Hirosima og Nagasaki á herðum og samvisku ofmátu mátt sinn eins og þeir gera enn þann dag í dag. Þeir drápu ekki aðeins kálorma og aðra óværu heldur öll skordýr í moldinni, einnig þau sem nauðsynleg voru vexti og viðgangi plöntunar sem átti að vernda. Þetta varð dýr lexía og þá eins og oft áður var farið öfganna á milli, það er mannsins saga.

Lífræn ræktun, hvað er það?

Fyrsta boðorð hennar er að nota engin eiturefni við ræktun, engan hernað gegn lífríkinu. Nú skyldi rækta eftir fornum aðferðum, aka „skarni á hóla“ eins og Njáll forðum. Kúamykja, hrossatað, hænsnaskítur og svína, jafnvel lambaspörð voru boðin velkomin til að auka velgengni ræktunar. En það var ekki aðeins eitrinu sem var sagt stríð á hendur. Tibúinn, verksmiðjuframleiddur áburður, var einnig bannfærður. Aldrei hefur komið fram nein viðhlítandi skýring á því banni. Í svokölluðum tilbúnum áburði eru einungis efni og næring sem jarðargróður þarf á að halda, tilbúinn áburður er ekkert eitur. Auðvitað er hann skaðvaldur berist hann út í tæra bergvatnsá, ekki nokkur vafi. En gildir ekki það sama um kúamykju, hver drekkur úr þeirri bergvatnsá sem fjóshaugurinn hefur runnið út í?

Mannlegi lífræni áburðurinn er kröftugastur

Hann var ómissandi í sveitum áður fyrr. Honum var safnað saman í þrær sem nefndust því kröftuga nafni hlandforir. Upp úr þeim var dælt á vorin, ekið um og dreift á túnin. Þar spratt alltaf best og þar varð taðan best. Kýrnar, sem hana hámuðu í sig, mjólkuðu best. En nú er þetta tabú, mannlegu þvagi og saur er dælt lengst út í hafsauga og kemur jarðargróða aldrei að gagni. En ýsugengdin eykst í takt við mannfjölgun. Svíar eru skrýtin þjóð, það finnst mörgum íslenskum uppum sem menntaðir eru í engilsaxneskum heimi. En þessi skrýtna þjóð hefur nú séð gróðurmáttinn í hinum mannlega lífræna áburði. Þeir aðskilja strax saur og þvag þegar það kemur úr búknum og sérdeilis eru þeir natnir við að meðhöndla þvagið. Þeir eyða úr því öllum vökva, en er þá nokkuð eftir? Já, þá eru eftir öll hin dýrmætu efni sem eru þessi kröftugi áburður fyrir hverskonar ræktun. Þá er þetta fasta efni formað í litla kubba sem menn veigra sér ekki við að fara höndum um. En auðvitað eru Svíar þjóð sem þekkir sín takmörk, slíkur áburður er ekki ennþá notaður við matjurtaræktun, tún og skógar fá að njóta.

Fleira áhugavert: