Ofmetin sparnaður í útblæstri?
September 2017
Ef þungaiðnaður á Íslandi væri knúinn áfram með kolabrennslu, þá þyrfti landið að kaupa viðlíka magn af kolum og Kólumbía gerir og kostnaðurinn við slíkt myndi nema um 500 milljón dollurum á ári.
Þetta segir doktor Reynir Smári Atlason, lektor við Háskólann í Suður Danmörku (SDU). Hann hefur í félagi við Rúnar Unnþórsson, prófessor við verkfræðideild Háskóla Íslands, vakið athygli á því í fagtímaritinu Geothermics að Orkustofnun ofmeti sparnað Íslendinga af útblæstri gróðurhúsalofttegunda þar sem við notumst við endurnýjanlegar auðlindir en ekki olíu og kol líkt og fjöldi annarra þjóða.
„Það er alveg ljóst að við myndum aldrei kaupa kol í þessu magni,“ segir Reynir Smári. „Orkustofnun gerir í sínum útreikningum ráð fyrir því að notkunin væri sú sama ef rafmagnið væri einungis framleitt með jarðefnaeldsneyti.“
Sparnaðurinn ofáætlaður um 40%
Neyslumynstur þjóðarinnar endurspeglar hins vegar að hans mati aðgengi þjóðarinnar af ódýrri orku. Íslendingar noti meiri orku en margar aðrar þjóðir, af því að þeir hafa aðgang að ódýrari orku. Samkvæmt útreikningum þeirra Rúnars þá ofáætlar Orkustofnun sparnaðinn á koltvísíringsígildum vegna notkun landsmanna af umhverfisvænni orku um ein 40%.
„Ég er umhverfis- og auðlindafræðingur og sá þessar tölur frá Orkustofnun af einskærri forvitni. Mér fannst eiginlega of gott til að vera satt hjá þeim hversu rosalega mikill sparnaðurinn var. Þannig að ég hringdi í Orkustofnun og spurði þá út í aðferðafræðina sem þeir nota til að reikna þetta út og þá kom í ljós að þeir gera ekki ráð fyrir öðrum neysluvenjum Íslendinga.“
Notaði landinn hins vegar kol, olíu, gas eða aðra sambærilega orkugjafa sem eru dýrari jarðvarma- og vatnsorkunni, þá væru þeir hins vegar líklega ekki notaðir í sama magni.
Raunhæft að notkunin væri svipuð og í Bretlandi og Tékklandi
Reynir Smári segist því hafa sett upp nokkrar sviðsmyndir af því hver staðan væri ef Íslendingar hefðu ekki vatns- og jarðhitaorku. Hann segist telja þá raunhæfustu vera þá sviðsmynd þar sem gert er ráð fyrir að Íslendingar hefðu ekki aðgang að jarðvarma, en gætu enn notað vatnsafnlið.
„Við bárum okkur saman við tölur frá Bretlandi og Tékklandi, því að hitastig þar er svipað og hér á landi og því getum við ímyndað okkur að orkunotkun við kyndingu og kælingu yrði svipuð. Þetta gefur til kynna að Orkustofnun ofáætli sparnaðinn gríðarlega. Með þessum útreikningi er sparnaðurinn yfir árabilið 1969-2014 á bilinu 204-277 milljón tonn af CO2 ígildum í stað 342 milljón tonnanna sem Orkustofnun gerir ráð fyrir,“ útskýrir Reynir Smári.
„Samkvæmt þessu ofáætla þeir sparnaðinn því um allt að 100 milljón tonn yfir þetta tímabil, með þvi að gera ráð fyrir að hér væri þungaiðnaður, 120 sundlaugar og svo fram eftir götunum jafnvel þó að þetta væri allt knúið áfram með kolum, sem er svolítið einföld nálgun.“
Hann bætir við að 204-277 milljón tonn sé engu að síður gríðarlega mikill sparnaður.
Aðrir vitna í tölurnar
Hann hefur látið Orkustofnun vita af birtingu greinarinnar. „Ég sendi þeim hana daginn áður en hún var birt og þeir svöruðu og þökkuðu fyrir,“ segir Reynir Smári. Útreikningunum á vef Orkustofnunnar hefur þó ekki verið breytt í kjölfarið.
„Þetta er kannski ekki þeirra styrkur, þeir hafa bara leikið sér með þessar tölur og sett á netið. Síðan er hins vegar verið að vitna í þessar tölur á ýmsum stöðum og þannig er þetta farið að vinda aðeins upp á sig, jafnvel þó að tölurnar séu fjarri lagi.
Ég man t.d. eftir að hafa heyrt vitnað í þær á jarðvarmaráðstefnu sem var haldin hér í hitteðfyrra og þá var viðtal við forstjóra Landsvirkjunar sem var að vísa í þessar tölur.“