Þvagskattur er álagður..
Mars 2004
Þeir komu heim eitt kvöldið, hin vaska sveit karla heimilisins, faðirinn og synirnir fjórir á aldrinum frá fermingu til tvítugs. Sumir komu úr vinnu, aðrir úr skóla, einhverjir frá ærslum og leikjum. Allir hraustir til sálar og líkama, hamhleypur til vinnu þegar sá gállinn var á þeim, sumir námsmenn ágætir og í hópnum var einn afreksmaður í íþróttum.
Það var oft hávaði og fyrirferð á heimilinu, en allt í góðu að mestu. Um eitt sameinuðust þeir í ákafa og eftirvæntingu, enska boltann á laugardögum. Þá var kátt í koti með tilheyrandi öskrum, bölvi, formælingum og gleðistunum. Menn rétt gáfu sér tíma til að hlaupa á klóið, luku sér af í hasti og voru komnir til baka á mettíma. Af engu mátti missa.
En engum skal gleymt. Á heimilinu var reyndar ein kona, eiginkona húsbóndans og móðir slöttólfanna fjögurra. Auk starfa utan heimilis hafði hún talsverðan starfa innan veggja eins og húsmæður yfirleitt. Karlar heimilisins tóku vissulega til hendi innanhúss einnig, það gerðu þeir í skorpum. En auðvitað eru sum störf betur fallin fyrir konur eða konur betur fallin fyrir viss störf, þannig er það. Það eru gömul sannindi og ný að dómi karla.
Og enginn möglaði og enginn bjóst við að nokkuð óvænt mundi gerast.
En svo komu þeir heim hin vaska sveit karla og hver ósköpin höfðu gerst? Á heimilinu voru hvorki meira né minna en þrjú salerni, þar af voru tvö baðherbergi og eitt svokallað gestasalerni. Þangað stormuðu menn, fyrstur kemur, fyrstur fær. En nú gaf á að líta. Á hverja hurð þessara bráðnauðsynlegu salerna var kominn heljarmikill mekanismi sem læsti utanfrá, þetta var talsverður kassi með rauf eins og á sjálfsala á bílastæði.
Við eldhúsborðið sat húsmóðirin hnarreist. Á eldhúsborðinu var stórt skilti hvar á stóð: „Herrar mínir! Þvagskattur hefur verið álagður. Salernisferð kostar 500 kr. og greiðist í sjálfsala á hverri hurð. Skiptimynt hjá húsmóður.“ Það var dauðaþögn á heimilinu.
Að lokum rauf húsmóðirin þögnina og sagði: „Mín þolinmæði er þrotin. Mitt hlutverk er ekki að vera þvaghreinsari á þessu heimili, en fyrst þið teljið ykkur hafa leyfi til að spræna meira á gólfið en í skálina skuluð þið borga fyrir það, svo sannarlega.“
Reyfari eða ekki?
Hvar gerðist þessi reyfarakennda saga? Hún gæti gerst á hvaða heimili sem er þar sem karlmenn fyrirfinnast og hún er enn að gerast. Karlmenn eru sprænandi á gólfið, þetta er þeirra feimnismál sem þeir aldrei munu viðurkenna. Og það eru konurnar sem verða að þrífa upp eftir þá. Vill einhver mótmæla? En nú er kominn tími til að binda enda á þetta þvagbundna þrælahald, lausnin er fundin. Hér eftir ætti að vera sérstök þvagskál á hverju salerni fyrir karla og það eiga konur að sjá til að verði tekið með í reikninginn strax við hönnun hvers íbúðarhúss, ekki gera karlar það.
Er nokkuð á móti því að það sé þvagskál á hverju einasta salerni heimilisins? Er það nokkuð meiri goðgá en að hafa þar salernisskál eða handlaug eða baðker eða rassbað (bidet), sem var algengt áður fyrr? Svo vel vill til að þýska fyrirtækið MISSEL framleiðir aldeilis ágætar þvagskálar með loki, þvagskálar sem koma á grind eins og hin vinsælu upphengdu salerni, geta verið á sléttum vegg eða í horni þar sem þær taka lítið pláss.
Það voru einmitt þessar þvagskálar sem leystu vandann á heimilinu sem fyrr var sagt frá, sú saga gæti verið frá Hafnarfirði eða Hvammstanga, Þórshöfn eða Þorlákshöfn, sem sagt hvaðan sem er.
Slöttólfarnir fimm, faðirinn og synirnir fjórir, samþykktu að kosta uppsetningu á MISSEL þvagskálum gegn því að myntlæsingarnar yrðu fjarlægðar og þvagskatturinn afnuminn. En þó var björninn ekki unninn að fullu, enn áttu menn erfitt með hittnina í einstaka tilfellum.
Það var ekki fyrr en límd var mynd af flugu í botn hverrar þvagskálar, sem hittnin varð hundrað prósent eða næstum því.