Framræst svæði – Losa um 75% gróðurhúsalofttegunda

Heimild:  ruv

 

Mýrarnar eru öndunarfæri landsins

Desember 2015

myrar a

Smella á mynd til að heyra viðtal við Hlyn Óskarsson á morgunvaktinni

Áætlað hefur verið að framræst svæði losi um 75% gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Ljóst er að ná mætti með skjótvirkum hætti stórum hluta markmiðsins um 40 prósenta samdrátt í losun með endurheimt gróðurhúsalofttegunds. Auðlind, Minningarsjóður Guðmundar Páls Ólafssonar, hefur það að meginmarkmiði og þegar náð verulegum árangri.

Sjóðurinn leitar nú eftir stuðningi til að endurheimta votlendi sem framræst hefur verið. Hlynur Óskarsson, vistfræðingur, ræddi endurheimt votlendis á Morgunvaktinni á Rás 1.

Endurheimt votlendis er viðurkennd mótvægisaðgerð og áhrifarík, en þá verður auðvitað að vega á móti alla nýja framræslu og rask á votlendi. Oft hefur verið vitnað til greinarinnar sem Halldór Laxness ritaði og birti í Morgunblaðinu á gamlársdag 1970, „Hernaðurinn gegn landinu“. Þar andmælir skáldið þeirri tálsýn að Ísland sé óspillt land. Halldór segir þvert á móti að Ísland hafi á liðnum öldum verið gerspillt af mannavöldum á sama tíma og Evrópa hafi verið ræktuð upp. Hann ræðir um framræslu mýranna og segir:

„Á síðustu áratugum hafa menn verið verðlaunaðir af hinu opinbera fyrir að ræsa fram mýrar, lífseigustu gróðursvæði landsins, undir yfirskini túnræktar. Seigar rætur mýragróðursins halda gljúpum jarðveginum saman og vatnið nærir fjölda lífrænna efna í þessum jarðvegi og elur smádýralíf sem að sínu leyti dregur til sín fugla. Mýrarnar eru stundum kallaðar öndunarfæri landsins. Þúsundir hektara af mýrum standa nú með opnum skurðum sem ristir hafa verið í þeim tilgángi að draga úr landinu alt vatn; síðan ekki söguna meir: eftilvill var aldrei meiníngin í alvöru að gera úr þessu tún. Fer ekki að verða mál til að verðlauna menn fyrir að moka ofaní þetta aftur? Þegar mýrar eru ræstar fram til að gera úr þeim vallendi er verið að herja á hið viðkvæma jurta- og dýraríki landsins. Skilja menn ekki að holt og melar og aðrar eyðimerkur á Íslandi urðu til við það að vallendið blés upp? Það hefði verið nær, að minstakosti á síðustu áratugum að hvetja bændur til að gera tún úr holtum og melum: þar er það vallendi sem rányrkjan hefur snúið í eyðimörk; friða síðan mýrarnar með löggjöf“. (Halldór Laxness, Morgunblaðið, 31.12.1970)

Hlynur Óskarsson, vistfræðingur og deildarforseti umhverfisdeildar Landbúnaðarháskóla Íslands, segir framsýni Nóbelskáldsins ótrúlega og erfitt að átta sig á því hvernig hann fékk svo góða yfirsýn. „Hernaðurinn gegn landinu“ sé mögnuð grein, sígild, sem fyrir löngu hafi sannað gildi sitt. „Við þekkjum bara landið svona rist en hann sá þetta gerast, þegar mestur gangur var í framræslunni. Þá sér hann að það er verið að rista upp fallega mýrarflóa sem hann hefur þekkt. Flóar með tjörnum geta verið mjög falleg vistkerfi“.

Hlynur minnir á að framræsla votlendis sé alls ekki bundin við Ísland, heldur hafi þetta verið gert víða. Menn hafi litið á mýrarnar sem einskisnýtt land og skurðgröftinn sem lið í landbótum. Bændur hafi verið gagnrýndir fyrir að beita á örfoka land og þá gripið til þess ráðs að ræsa fram land og stækka úthagann. Og efnahagslegur hvati var mikill þar sem greitt var fyrir hvern metra af gröfnum skurði. Ekki þýði að horfa til þessara aðgerða með gleraugum nútímans. Þetta séu staðreyndir sem við þurfum að vinna úr núna.

Endurheimta þurfi votlendi til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en misjafnt sé hversu mikið gagn endurheimt einstakra svæða geri. Það þurfi að rannsaka betur. Hlynur segir fullt af svæðum víða um land sem hægt væri að hefja endurheimt mýrlendis, byrja ætti ofarlega í vatnakerfinu og fikra sig niður á við – ekki síst í eyðibyggðum víða. Kosturinn við þessa aðferð, umfram margar aðrar, sé að hún skili hratt árangri. Þá felur endurheimt votlendis í sér að jafnara flæði verður í ám, bætir söfnun, varðveislu og flutning næringaefna – og veðurfar.

Hann segir að nú þegar sé komin góð reynsla af endurheimt votlendis víða. Búið sé að endurheimta flestar gerðir: flæðiengi, mýrar, tjanrir og vötn, m.a.s. allt að 50 hektara vatn á Snæfellsnesi. „Þetta er alveg hægt. Búið er að sýna fram á það. Og þetta skilar góðum árangri. Kerfin virðast fúnkera vel. Og það er nokkuð langt síðan fyrstu bændurnir fóru að prófa sig áfram með þetta, t.d. í Mývatnssveit og Reykhólasveit,“ segir Hlynur Óskarsson. Hann segir augljóst að með endurheimt votlendis megi draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Annars staðar sé framræst land í notkun en hér séu stór svæði ónýtt þar sem má endurheimta votlendi, án þess að skerða möguleika til matvælaframleiðslu.

Stefn er að því að halda í dag, 1.desember, styrktarfund Auðlindar – minningarsjóðs Guðmundar Páls Ólafssonar, í sal Þjóðminjasafnsins. Auðlind er náttúruverndarsjóður sem hefur endurheimt votlendis að megin viðfangsefni. Á dagskrá er ávarp Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands. Sigurkarl Stefánsson ætlar að fjalla um árangur af endurheimtu votlendi, Hlynur Óskarsson flytur hugleiðingar um votlendi og Andri Snær Magnason, rithöfundur, tekur til máls.

 

 

Fleira áhugavert: