Orkuskipti fiskimjölsverksmiðja

Heimild:  

 

Þorsteinn Þorsteinsson

Verð á raforku til fiskimjölsverksmiðja hefur hækkað frá því að flestar þeirra voru rafvæddar. Lágt olíuverð á undanförnum misserum hefur svo valdið því að ódýrara hefur reynst að knýja verksmiðjurnar með svartolíu. Skipt var um orkugjafa í mörgum fiskimjölsverksmiðjum á sínum tíma með það fyrir augum að hætta að nota olíu. Ástæðan var sú að á þeim tíma var olían dýrari en raforkan, en jafnframt var ótvíræður ávinningur af því að draga úr losun gróðurhúsalofftegunda.

Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra, sagði í nýlegu viðtali að endurupptaka olíunnar væri slæm þróun. „Og þetta auðvitað getur ekki gengið. Við verðum að finna út úr því hvernig við getum aðstoðað fiskimjölsverksmiðjurnar til þess að nýta frekar rafmagn en olíu.“ Jafnframt tók hún fram að stjórnvöld myndu hækka skatta á notkun mengandi orkugjafa eins og olíu.
Ráðherrann benti reyndar einnig á að lækka þurfi raforkuverð en tengdi þá lækkun við endurbætur sem þyrfti að gera á flutningskerfi raforku. Getur það verið rétt orsakasamhengi? Torséð er að tenging sé þarna á milli. Aðalatriðið hlýtur að vera að heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað um helming á síðustu misserum á meðan raforkuverð á íslenska fákeppnismarkaðnum hefur hækkað. Þetta hefur svo þýtt að olían hefur orðið ofan á. Um leið og viðurkenna verður að erfitt er að keppa við mjög lágt olíuverð, hlýtur að mega ýta undir aukna samkeppni á íslenska raforkumarkaðnum.
Hátt verð á rafmagni til fiskimjölsverksmiðja hefur nefnilega lítið sem ekkert með raforkuflutning að gera lengur, þótt tímabundnar þrengingar kunni að vera á einstaka stöðum í flutningskerfinu. Viðamiklar breytingar á flutningskerfi eru auk þess mjög fjárfrekar og hverjir myndu borga fyrir þær á endanum? Jú, væntanlega fiskimjölsverksmiðjur og aðrir viðskiptavinir, þannig að slíkar framkvæmdir sem tengjast flutningskerfinu munu vart leiða til lækkaðs verðs.

Flestir eru sammála um að raforkulögin frá árinu 2003 hafi ekki skilað tilgangi sínum sem skyldi um að auka samkeppni á íslenska raforkumarkaðnum. Því þarf augljóslega annað og meira til. Eins og kunnnugt er, gerði hinn þekkti hagfræðingur Lars Christensen skort á samkeppni að sérstöku umræðuefni í skýrslu sinni um íslenska orkumarkaðinn (Our energy 2030) sem unnin var fyrir Samtök iðnaðarins á síðasta ári. Hann sagði m.a. að slík markaðsstaða byði hættunni heim, t.d. með of háu orkuverði, sem leiddi á endanum til svokallaðs velferðartaps fyrir samfélagið.

Samkvæmt niðurstöðum Lars myndi aukin samkeppni á orkumarkaðnum, sem tryggði sem lægst orkuverð, vera til hagsbóta fyrir almenning í landinu til lengri tíma litið. Lágt orkuverð styrkti samkeppnishæfni landsins og hefði þannig jákvæð áhrif á velferð þjóðarinnar í heild. Af þessum orðum hagfræðingsins má ráða að það sé þjóðhagslega hagkvæmara að eðlileg samkeppni ríki á raforkumarkaðnum en að til skattalegra inngripa yfirvalda komi.

Fleira áhugavert: