Afríka, Ísland – Álbestu svæði veraldar?

Heimild:   Orkubloggið

.

    

Mars 2010

Álsamkeppnin við Afríku

Ketill Sigurjónsson

Ál er mikill snilldarinnar málmur og til margra hluta nytsamlegur. Og álfyrirtækin á Íslandi eru dugleg að minna á það hvernig þau skapa verðmæti úr hinum endurnýjanlegu íslensku orkugjöfum. Rétt eins og sjá má á myndinni hér til hliðar, sem er af vef Alcoa a Íslandi.

Þegar skoðað er hver rekstrarútgjöldin eru hjá álverum heimsins þessa dagana, er auðvelt að átta sig á því af hverju Ísland er svona eftirsótt þessa dagana fyrir álbræðslur. Þá skiljum við strax af hverju  Norðurál er byrjað að byggja nýtt álver við Helguvík. Og af hverju Rio Tinto Alcan hefur áhuga á að stækka álverið í Straumsvík. Og af hverju Alcoa hefur áhuga á að byggja stórt álver við Húsavík. Það er nefnilega svo að rekstrarkostnaður álvera er nánast hvergi í heiminum jafn lágur eins og hjá álverunum á Íslandi.

aluminum-utflutnngsverdmaeti.jpg

aluminum-utflutnngsverdmaeti – Smella á myndir til að stækka

Það er auðvitað hið besta má ef álverin á Íslandi eru vel rekin. En því miður er lágan rekstrarkostnað álvera á Íslandi fyrst og fremst að rekja til þess að hér hafa álver fengið raforkuna á hreinum spottprís. Sú ályktun liggur í augum uppi þegar litið er til þess sem segir í skýrslu Hatch um Norðurál,  Og í annarri skýrslu sem Orkubloggarinn hefur undir höndum – nýlegri skýrslu sem byggir á upplýsingum frá CRU Group  – kemur fram að aðeins á einu svæði í veröldinni sé rekstrarkostnaður álvera umtalsvert minni en á Íslandi. Og það er í Afríku.

aluminum_smelters_oc_cru_2008.jpg

aluminum_smelters_oc_cru_2008

Ástæður þess að Afríka er ódýrasti kosturinn fyrir álbræðslur, eru ekki síst hagstæðir raforkusamningar og hræódýrt vinnuafl. Þetta tryggir Álfunni Svörtu þann virðulega sess að vera álbesta svæði veraldar.

Reyndar er það svo, að mjög lágt verð á raforku til álvera á Íslandi fer langt með að koma okkur í flokk Afríkuríkjanna. Þó svo raforkuverðið til álvera í Afríku sé að meðaltali lægra en á Íslandi, þá er mismunurinn á rekstrarkostnaði álvera í Afríku og á Íslandi ekki meiri en svo, að í reynd er Ísland sennilega mun álitlegri kostur fyrir nýtt álver. Þegar litið er til pólitísks stöðugleika og öryggis í raforkuframboði, þá hlýtur Ísland í reynd að skora mun hærra en Afríka hjá álfyrirtækjum, sem leita að bestu staðsetningunni fyrir nýtt álver. Þó svo raforkuverðið hér sé nokkru hærra.

Það almagnaðasta er þó kannski sú staðreynd, að þegar litið er til nýlegra raforkusamninga við álver í Afríku virðist sem algengt verð þar sé í kringum 30 mills/kWh. Það er talsvert hærra raforkuverð en nefnt hefur verið sem verð til álveranna á Íslandi. Það er m.ö.o. mögulegt að álverin á Íslandi séu að fá rafmagnið ennþá ódýrara en sambærileg álver í Afríku!

Við höfum bersýnilega verið á fullu að keppa um álverin við þróunarríkin í Afríku. A.m.k. ef marka má CRU, sem þykir einhver fínasti pappírinn í ráðgjöf um álbransann. Það verður spennandi þegar Landsvirkjun gefur upp raforkuverðið til stóriðjunnar, á næsta aðalfundi fyrirtækisins um miðjan apríl, að sjá hvort þær tölur rýma vel við boðskapinn frá CRU. Varla ástæða til að ætla annað en að góð fylgni verði þar á milli, enda þykja ljúflingarnir hjá CRU traustsins verðir og ráðgjöf þeirra verðlögð í takti við það. Kemur í ljós.

dubai_aluminum_capacity_198-2009.gif

dubai_aluminum_capacity_198-2009

Nánast alls staðar í heiminum (utan Afríku) er dýrara að reka álver en á Íslandi. Samkvæmt CRU eru það einungis Mið-Austurlönd sem geta boðið álverum jafn góða rekstrarafkomu eins og Ísland og Afríka. Í reynd á þessi tilvísun til Mið-Austurlanda fyrst og fremst við um Persaflóann. Enda spretta álverin þar nú upp eins og gorkúlur. T.d. í Dubai, sbr. stöplarnir hér til hliðar.

Risaálver Dubai Aluminum er búið að stækka mikið síðustu árin og er nú komið í 980 þúsund tonn! Og þessa dagana er einmitt verið að byggja risastór álver í bæði Katar og Abu Dhabi. Þessi mikla uppbygging álvera við Persaflóann kemur ekki síst til af því, að álbræðslurnar þarna við Flóann fá raforkuna frá gasorkuverum, sem geta boðið mjög góð kjör vegna gríðarlegs framboðs af ódýru gasi á þessum miklu gasvinnslusvæðum. Gaslindirnar utan við strönd Katar eru t.a.m. einhverjar þær stærstu í heiminum. Og þó svo t.d. Japanir séu vitlausir í að fá þaðan gas í fljótandi formi (LNG), þá er nóg eftir til að framleiða ódýrt rafmagn. Handa risastóriðju.

qatalum_qatar-aluminum-plant.jpg

qatalum_qatar-aluminum-plant

Þarna við Flóann rís nú einmitt enn eitt álverið; 585 þúsund tonna Qatalum-verið í Katar, sem knúið verður af 1.350 MW gasorkuveri. Og s.l. haust (2009) fór í gang nýtt álver  Emirates Almuminum (EMAL) í Abu Dhabi, þar sem framleiðsla fyrsta áfangans verður um 750 þúsund tonn. Þessi glænýja álbræðsla fær raforkuna frá 2.000 MW gasorkuveri – og stefnt er að stækkun álversins í 1,5 milljón tonn!

Jafnvel þó svo gasorkuverin losi mikið koldíoxíð þykir þessi tegund af raforkuframleiðslu þokkalega semi-græn. Sökum þess að kolaorkuver losa helmingi meira kolefni. Það er ekkert flóknara. Og í heimi sem á nóg af gasi, er augljóst að gas verður einhver allra mikilvægasti orkugjafi mannkyns alla þessa öld. Og kannski lengur.

Vegna hins lága raforkuverðs sem álfyrirtækin njóta hér á Íslandi, er þar með upptalið hverjir veita Íslandi alvöru samkeppni í að bjóða álbransanum vildarkjör. Það eru Afríka og Persaflóaríkin. Hvorki Brasilíumenn með sitt ofboðslega vatnsafl né orkugnótt Rússland bjóða álverum jafn gott rekstrarumhverfi né jafn góða afkomu eins og Ísland. Og hafa þessi tvö fyrstnefndu ríki þó löngum þótt bjóða álbræðslum hagstæð kjör.

Afríka er ennþá almennt ódýrari en Ísland, en ýmsir þættir valda því að menn vilja oft fara annað með álverin sín. Í íslenska álbransanum erum við því í reynd fyrst og fremst að „keppa“ við mestu gasorkulindir heimsins í Arabaríkjunum við Persaflóann. Einungis álfyrirtæki sem eru tilbúin í ennþá meiri áhættu, líta við því að byggja nýtt álver í Afríku. Og það er einmitt þessi áhætta sem skiptir verulegu máli þegar stórfyrirtæki ákveða hvar þau vilja setja milljarðs-dollara-álverið sitt niður. Þegar haft er í huga að raforkuverð á Íslandi til álvera er með því allægsta í heiminum, virðist hreinlega sem íslensku orkufyrirtækin og íslensk stjórnvöld hafi ekki áttað sig á því að það er fleira en orkuverðið eitt sem skiptir máli. M.ö.o. þá álítur Orkubloggarinn sterkar vísbendingar komnar fram um að hér hafi menn hreinlega samið af sér um orkuverðið i álveranna.

rta_aluminum-boc_-presentation_2008.jpg

rta_aluminum-boc_-presentation_2008

Þó svo Ísland, Persaflóaríkin og Afríka séu almennt hagkvæmustu staðirnir fyrir álver, sitja þessi svæði heimsins auðvitað ekki ein að hinum ljúfa álbræðslubransa. Nálægð við stóran markað gerir Kína t.d. áhugavert í augum álfyrirtækjanna, þegar þau íhuga stað undir nýtt álver.

En vandamál Kína er að þar treysta menn sér ekki til að bjóða álbræðslum nándar nærri jafn lágt raforkuverð eins og gerist á Íslandi eða Mið-Austurlöndum. Að meðaltali er raforkuverðið í Kína t.a.m. um helmingi hærra en álverum hefur boðist hér á Íslandi og sömuleiðis miklu hærra en við Persaflóann. Þar af leiðandi er Kína ekki alveg sá segull fyrir ný álver sem ella mætti kannski búast við.

Annað land sem hefur að mörgu leyti verið aðlaðandi síðustu áratugina fyrir álbræðslur er Rússland. Þar hefur raforkuverðið verið tiltölulega lágt. En sem kunnugt er, þá er ekki alveg á vísan að róa með pólitíkusana í Moskvu eða úti héruðunum og því talverð aukaáhætta sem því fylgir að setja svo stóra fjárfestingu þar niður.

australia_boyne-island-smelter.jpg

australia_boyne-island-smelte

Eflaust klórar einhver lesandi Orkubloggsins sér í höfðinu yfir því af hverju Orkubloggarinn virðist horfa framhjá því hagstæða álversumhverfi, sem finna má í Kanada og Ástralíu. Málið er bara að lágur meðal-rekstrarkostnaður álvera í Kanada er einfaldlega til kominn vegna þess að þar eru álverin mörg hver með mjög hagstæða gamla raforkusamninga. Eru í reynd að fá raforkuna langt undir því sem eðlilegt getur talist miðað við framleiðslukostnað á rafmagni í dag. Enda er lítill ágreiningur um það að raforka til álvera í Kanada sé í reynd niðurgreidd og þetta er farið að valda talsvert mikilli ólgu í stjórnmálunum þar vestra. Nýtt álver í Kanada þarf aftur á móti að greiða ansið hátt raforkuverð og nánast öruggt að rekstrarhagkvæmni nýrra álvera er talsvert meiri og betri á Íslandi en í Kanada, þrátt fyrir að raforkuverðið til álveranna sé að meðaltali mun lægra í Kanada.

Og þó svo áliðnaðurinn í Ástralíu hafi líka löngum verið þar á sannkölluðum heimavelli, þá hefur raforkuverð í Ástralíu hækkað gríðarlega síðustu árin. Þess vegna er sá tími sennilega liðinn – a.m.k. í bili – að Suðurálfan geti boðið nýjum álverum raforkuverð í líkingu við það sem nú gerist við Persaflóann eða á Klakanum góða.

rta_cameroon_alumcan-smelter.jpg

rta_cameroon_alumcan-smelter

Ísland er sem sagt fyrst og fremst að „keppa“ um hylli álfyrirtæka við einungis tvö heimssvæði: Annars vegar við Afríku og hins vegar við Persaflóann. Stóra spurningin er hvort við viljum halda áfram að keppa við þessi svæði – eða hvort við viljum reyna að finna bæði arðsamari og skynsamari leiðir við nýtingu á íslenskri orku?

Í síðustu færslu Orkubloggsins kom fram að raforkuverð til álvera á Íslandi sé langt undir meðalverði og með því lægsta í heiminum. Það virðist líka nokkuð ljóst að einungis Afríka býður álverum umtalsvert lægri rekstrarkostnað en Ísland – og að afkoma álvera við Persaflóann er svipuð eins og á Íslandi. Hvergi annars staðar í heiminum bjóðast nýjum álverum jafn góð kjör. Engu að síður spretta nú upp álver víða um heiminn. Sem sýnir okkur að álfyrirtækin treysta sér bersýnlega til þess að láta eitthvað af álverunum sínum njóta mun minni hagnaðar en gerist í Afríku, á Íslandi eða við Persaflóann.

Við getum vissulega haldið áfram að virkja hérna útum allar trissur og selt raforkuna til bæði núverandi og nýrra álvera – og þar með tekið þátt í því að keppa við nánast botnlausar gaslindirnar Persaflóans. Við getum jafnvel boðið álverunum eitthvað hærra raforkuverð en gerist í Katar og annars staðar við Persaflóann. Vegna þess að við erum öruggari staður… „til að vera á“.

aluminum_dubai.jpg

aluminum_duba

En er þetta það sem við viljum? Viljum við halda áfram á þeirri braut að bjóða álbræðslum raforkuna okkar á lægra verði en flestir aðrir? Og láta orkufyrirtækin okkar áfram bera óhefta áhættu af því þegar álverð tekur dýfur? Eða viljum við rífa okkur upp úr gamla rassfarinu og horfa til framtíðar; nýta þá möguleika sem blasa við til að stórauka arðsemina af raforkuframleiðslunni? Væri ráð að hugleiða þann möguleika að gjörbreyta um orkustefnu? Láta gildandi raforkusamninga við stóriðjuna renna út og finna leiðir til að margfalda arðsemina af raforkuframleiðslunni? Þetta er vel raunhæfur möguleiki og gæti meira að segja gerst án þess að byggja eina einustu nýja virkjun.

Núverandi samningar við álfyrirtækin um raforkuviðskipti gilda líklega flestir til ca. 2020-2025 (lauflétt ágiskun hjá Orkubloggaranum). Við höfum sem sagt hugsanlega ca. 15 ár til að finna nýjan kaupanda að raforkunni frá Kárahnjúkum, Þjórsá, Nesjavöllum og fleiri kunnuglegum virkjunum – kaupanda sem með glöðu geði vill borga alvöru verð fyrir orkuna.

Miðað við þróunina í bæði endurnýjanlegri orku og nettækninni, er líklegt að á næstu áratugum muni t.d. rísa mikill fjöldi nýrra gagnavera og margar nýjar sólarkísilverksmiðjur, sem eru vön/vanar því að greiða meira en helmingi hærra raforkuverð en álverin hér gera. Að vísu hefur gengið fremur hægt að laða slíka starfsemi til Íslands, enn sem komið er. En það er nú bara svo að hlutirnir taka tíma og það er engin ástæða til að ætla annað en að smám saman muni áhugi meðalstórra iðnfyrirtækja á Íslandi aukast – ef markvissara kynningarstarf verður tekið upp. Auk hærra raforkuverðs myndi þetta skapa meiri fjölbreytni í íslensku atvinnulífi, sem hlýtur að vera kostur. Þetta þarf að skoða gaumgæfilega, áður en ráðist er í frekari virkjanaframkvæmdir fyrir áliðnað.

Kannski væri þó nærtækast að byrja á því að koma umtalsverðum hluta orkunnar, sem nú þegar er búið að virkja, yfir á hinn risastóra raforkumarkað Evrópu. Sem bæði hungrar í öruggt raforkuframboð og vill líka miklu meira af þeirri tegund af raforkuframleiðslu sem losar lítið kolefni. Þetta myndi gerast með laufléttum háspennustreng (HVDC-kapli) milli Íslands og Evrópu. Þá myndi arðsemi Landsvirkjunar a.m.k. tvöfaldast í einni svipan. Og slíkt verkefni gæti einmitt tekið um áratug, með tilheyrandi  rannsóknum, umhverfismati og framkvæmd. Orðið tilbúið á sama tíma og hinir arfaslöppu raforkusamningar við álverin hér renna út.

orkuverd_utsala_973626.jpg

orkuverd_utsala

Reyndar myndi pólitísk ávörðun um að fara þessa leið mögulega strax verða til þess, að álverin hér myndu sjá sitt óvænna og bjóðast til að greiða helmingi hærra verð fyrir raforkuna en þau gera í dag. Stjórnvöld þurfa að íhuga vandlega nýja strategíu, til að rífa Ísland upp úr þeim forarpytti sem núverandi orkusamningar við álverin eru. Eftir hverju er iðnaðarráðherra að bíða? Einungis því að eftirlaunapakkinn verði orðinn þægilegur – eða vill ráðherrann koma einhverju góðu til leiðar fyrir íslensku þjóðina?

Fleira áhugavert: