Gagnagrunnur vatnsúðakerfa – Má birta þannig lista?
Mars 2011
Fyrirspurn
Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins
Persónuvernd vísar til tölvubréfs þíns, dags. 18. mars 2011, en þar segir m.a.:
„Í þeim húsum þar sem vatnsúðakerfi eru, er skylt að hafa gildan samning við viðurkenndan þjónustuaðila um reglubundið eftirlit með kerfinu. Og ber slökkviliðstjóri ábyrgð á að framfylgja þeim lögum.
Til þess að hafa eftirlit með hvort það séu gildir samningar og reglubundnu eftirliti sé sinnt rekum við hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins bs. aðgangsstýrðan vef fyrir viðurkennda þjónustuaðila vatnsúðakerfa á höfuðborgarsvæðinu.
Á vefnum skrá þeir þau vatnsúðakerfi sem þeir þjónusta ásamt því að fylla reglulega út rafræn skoðunarblöð.
Nú hefur komið í ljós að fjöldi vatnsúða kerfa eru án samninga og af þeirri ástæðu á að fara í átak vegna þess. Átakið byrjar á því að slökkviliðsstjóri sendir bréf á alla eigendur fasteigna sem eru með vatnsúðakerfi en ekki gildandi samning. En í framhaldi af því langar okkur að birta lista á vefnum (einungis viðurkenndir þjónustuaðilar hafa aðgang.) fyrir þjónustuaðilana þar sem þeir geta séð þær fasteignir sem ekki eru með samning. Spurningin er því, má yfirhöfuð birta þannig lista? Ef það má birta svona lista hve nákvæmur má hann vera? þ.a.e. má einungis sýna heimilisfang fasteignarinnar eða má sýnia heimilisfang og nöfn eigenda og jafnvel heimilisfang þeirra? Í langflestum tilfellum eru eigendu fyrittæki en eitthvað erum að einstaklingar séu eigendur.
Skýring: Viðurkenndur þjónustuaðili er einstaklingur sem hefur hlotið viðurkenningu frá Mannvirkjastofnun (áður Brunamálastofnun).“
Svar Persónuverndar
Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr.
Persónuvernd hefur það hlutverk að framfylgja lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þau gilda um upplýsingar um einstaklinga, sbr. skilgreiningu 1. tölul. 2. gr. laganna á persónuupplýsingum. Alla jafna gilda þau ekki um lögaðila, sbr. þó 2. mgr. 45. gr. laganna, sem ekki verður séð að eigi við í því tilviki sem hér um ræðir. Til þess ber hins vegar að líta að í ákveðnum tilvikum geta upplýsingar um lögaðila verið það nátengdar tilteknum einstaklingi að á það getur reynt hvort þær skuli teljast persónuupplýsingar, t.d. þegar um ræðir lítið fyrirtæki og upplýsingar um það eru því nátengdar eigandanum (sbr. álit nr. 4/2007 um hugtakið persónuupplýsingar frá vinnuhópi forstjóra persónuverndarstofnana samkvæmt 29. gr. persónuverndartilskipunarinnar nr. 95/46/EB).
Að því marki sem um er að ræða vinnslu persónuupplýsinga um einstaklinga er tekið fram að hún verður að samrýmast einhverju af skilyrðum 8. gr. laga nr. 77/2000 svo hún sé heimil. Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. er vinnsla persónuupplýsinga heimil sé hún nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila. Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 92/2008 um brunavarnir kemur fram að eldvarnaeftirlit sveitarfélaga sé sú starfsemi slökkviliðs sem hafi eftirlit með því að framfylgt sé ákvæðum laga og reglna um brunavarnir. Þá segir í d-lið sömu greinar að hlutverk eldvarnaeftirlits sveitarfélaga sé m.a. að hafa eftirlit með því að eigendur og forráðamenn atvinnuhúsnæðis sinni skyldum sínum um brunavarnir samkvæmt lögum og reglugerðum í samræmi við leiðbeiningar sem Brunamálastofnun gefur út.
Í kafla 2.1. reglugerðar nr. 200/1994 um eigið eftirlit eigenda og forráðamanna með brunavörnum í atvinnuhúsnæði segir að eigandi atvinnuhúsnæðis sé ábyrgur fyrir því að það fullnægi kröfum um brunavarnir sem fram eru settar í lögum og reglugerðum um byggingar- og brunamál. Enn fremur segir að forráðamanni atvinnuhúsnæðis sé skylt að sjá til þess að það fullnægi kröfum um brunavarnir fyrir þá starfsemi sem í húsnæðinu fer fram á hverjum tíma. Þá kemur fram í kafla 10.4 í leiðbeiningum Brunamálastofnunar um eigið eftirlit eigenda og forráðamanna með brunavörnum í atvinnuhúsnæði, sem birtar eru sem viðauki við reglugerð nr. 200/1994, að eigandi, eða forráðamaður sé það á hans vegum, skuli sjá til þess að stöðugt sé fylgst með virkni sérhæfðs búnaðar og kerfa, s.s. brunaviðvörunarkerfa og vatnsúðakerfa. Hann skuli einnig sjá til þess að viðurkenndur þjónustuaðili annist reglubundið eftirlit, viðhald og viðgerðir á slíkum búnaði og kerfum.
Af framangreindu má ráða að miðlun lista til þjónustuaðila yfir þá sem ekki eru með gildandi samning við viðurkenndan þjónustuaðila, geti samrýmst 3. tölul. 1. mgr. 8. gr., ef hún er Slökkviliðinu nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem á því hvílir.
Í 2 . mgr. 28. gr. laga nr. 77/2000 er ákvæði um notkun persónuupplýsinga í þágu markaðssetningarstarfsemi. Þar segir að ábyrgðaraðilar sem starfa í beinni markaðssókn og þeir sem nota skrá með nöfnum, heimilisföngum, netföngum, símanúmerum og þess háttar eða miðla þeim til þriðja aðila í tengslum við slíka starfsemi skuli, áður en slík skrá er notuð í slíkum tilgangi, bera hana saman við skrá Þjóðskrár Íslands til að koma í veg fyrir að markpóstur verði sendur eða hringt verði til einstaklinga sem hafa andmælt slíku. Persónuvernd getur heimilað undanþágu frá þessari skyldu í sérstökum tilvikum.
Þrátt fyrir hlutverk slökkviliðsins verður ekki framhjá því litið að eðli notkunarinnar, þ.e. að láta umræddum söluaðilum listann í té, felur í sér að henni verði jafnað við notkun í þágu markaðssetningarstarfsemi og sé því Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins nauðsynlegt að bera listann saman við skrá Þjóðskrár, sbr. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 77/2000.