Varnamáttur sprinklerkerfa – Nægilega nýtt?

Heimild:

.

September 2003

Smella á mynd til að stækka

Á miðju liðnu sumri gerðist það í bæ einum í Svíþjóð að eldur varð laus í stofnun sem hýsti ósakhæfa brotamenn, það var reyndar einn af vistmönnunum sem kveikti eldinn um miðja nótt.

Að sjálfsögðu var vakt á þessari stofnun sem brást við á stundinni, kallaði til slökkvilið og hófst handa af eigin rammleik við að ráða niðurlögum eldsins.

Eldurinn var slökktur á eins stuttum tíma og mögulegt var, en þrátt fyrir það kostaði hann tvo vistmenn lífið og þrír fengu alvarlega reykeitrun.

Þessi atburður hefur orðið talsvert umtalaður þó oft hafi þar í landi orðið hrikalegri slys í eldsvoðum og kostað fleiri lífið.

Það sem bent hefur verið á í ræðu og riti er sérstaða sem slík stofnun hefur. Þeir sem þar dvelja eru læstir inni, öryggisgler í gluggum og járngrindur fyrir þeim, svo þeir eru algjörlega upp á náð og miskunn annarra komnir.

Margir hafa bent á að sprinkler-kerfi hefðu getað komið í veg fyrir þau slys og dauðsföll sem þarna urðu.

En í stofnuninni var ekkert sprinkler-kerfi. Hvað er sprinkler-kerfi? Ekki nema von að spurt sé, það er ekki hægt að ætlast til að allir séu þar innvígðir.

Vatnsúðakerfi

Þeir sem harðastir eru í að íslenska öll heiti nefna þessi kerfi vatnsúðakerfi.

Þau eru net röra sem hengd eru neðan í loft og á þessum rörum eru munnstykki, sem eru þeirrar náttúru að þola ekki eld eða hita nema að vissu marki. Ef þau mörk eru yfirstigin opnast munnstykkið og út spýtist fínn vatnsúði, kjörinn til að kæfa eld.

En orðið sprinkler er orðið alþjóðlegt og hefur unnið sér þegnrétt í íslensku máli fyrir löngu svo við leyfum okkur að nota það.

Umræðan ytra snýst um það hvort það ætti ekki að vera skylda að setja upp slíkt kerfi, eldvarnarkerfi, í vistarverur þar sem mannverur eru innilæstar og komast hvergi ef eldur verður laus, mannverur sem eru svo illa á vegi staddar að verða sjálfar valdar að þeim bruna sem verður þeim að fjörtjóni.

En það eru fleiri sem eiga litla möguleika til að forða sér þó ekki séu þeir inni læstir, þeir geta verið í öðrum fjötrum, fatlaðir, lamaðir eða óhæfir til hreyfings vegna ellihrumleika.

Hvernig standa málin hérlendis? Spyr sá sem ekki veit, en víst hafa verið sett upp mörg sprinkler-kerfi hérlendis til varnar skaða og skemmda af eldi.

En það er staðreynd að hérlendis, og það er ekkert einsdæmi svo er víða um lönd, að sprinkler-kerfi hafa aðallega verið sett upp til að verjast efnahagslegum skaða, þó vissulega geti slíkt kerfi bjargað mönnum og málleysingjum.

Algengasta notkun sprinkler-kerfa hérlendis er í yfirbyggðum bílastæðum og bílahúsum.

Víða eru bílastæði í kjöllurum stórhýsa og auðvitað getur mönnum verið hætt af eldur kemur upp þar sem er fjöldi bíla, með fulla bensíntanka, olíur og annan eldsmat í sér.

En hvernig eru brunavarnir hérlendis í elliheimilum, fangelsum, skólum, verksmiðjum og á fjölmennum vinnustöðum? Efalaust hafa ýmsir sýnt fyrirhyggju, en það væri víst saga til næsta bæjar ef einhvers staðar hefðu fundist peningar til að koma upp sprinkler-kerfum í spítölum og elliheimilum, þó þar séu einmitt þeir sem eiga í hvað mestum erfiðleikum með að forða sér í eldsvoða.

Í sumum atvinnugreinum virðast menn vera algjörlega sofandi fyrir því sem heitir brunavarnir, eða hefur ekkert fiskvinnsluhús brunnið í ár? Sé svo er það stórfrétt og rétt að krossa fingur og vona það besta þann tíma sem eftir lifir af þessu ári

Fleira áhugavert: