Hvernig eru gæði neysluvatns mæld?

Heimild:  vatnid

 

gaedi-vatnsFjórir vísar á heilnæmi

Til að meta ástand vatnsins og hvort það er drykkjarhæft eða hafi neikvæð áhrif á lífríki eru mældir ýmsir þættir. Alls eru það um 50 þættir sem eru mældir samkvæmt kröfum í neysluvatnsreglugerð. Hvort vatnið er drykkjarhæft á bæði við um hvort það er hættulegt heilsu manna og að bragðgæði séu í lagi. Sum efni spilla mjög bragðgæðum og útliti án þess að vera hættuleg heilsu okkar. Við viljum t.d. ekki að vatnið sé mjög salt eða hafi sterkt málmbragð eða sé brúnleitt. Ýmsir þættir sem eru mældir reglulega hjá vatnsveitum eru vísar á mengun án þess að staðfesta endanlega að um sé að ræða mengun eða sjúkdómsvaldandi bakteríur í vatninu. Þetta á við t.d. um gerlamælingar, hitastig og grugg. Mældir eru gerlar sem lífa í jarðvegi eða í þörmum manna og dýra sem eru þá notaðir sem vísar á að sjúkdómsvaldandi bakteríur geti verið til staðar. Ef að þessir vísar eru yfir mörkum er farið í umfangsmeiri mælingar til að finna út hvort um mengun sé að ræða. Svo eru aðrir þættir mældir sem segja beint til um að efnin séu yfir mörkum s.s. eins og þungmálmar og áburðarefni.

Eftirfarandi eru fjórir þættir sem segja til um ástand vatnsins og gæði fyrir lífríkið og sem drykkjarvatn. Það eru hitastig, uppleyst súrefni, grugg og sýrustig.

 

Hitastig (temperature) :

Kalt vatn er bragðbetra og meira svalandi en volgt. Íslenskt neysluvatn frá vatnsveitum er yfirleitt á bilinu 3-6°C. Kjörhitastig lífvera er mismunandi og lífríki vatnsins er viðkvæmt fyrir breytingum á hitastigi og flestar þrífast aðeins á ákveðnu hitabili. Hitastig hefur áhrif á ljóstillífun og volgt vatn veldur auknum bakteríuvexti. Kalt vatn getur innihaldið meira uppleyst súrefni en volgt. Sem dæmi þá getur vatn sem hefur hitastigið 4°C innihaldið 44% meira af súrefni en 20°C heitt vatn. Tæring á rörum eykst með hækkandi hitastigi. Úrgangur úr iðnaði, frárennsli frá hitakerfum og frá byggð getur hækkað hitastig á vatninu sem getur ógnað lífríki í ám og vötnum.

 

Uppleyst súrefni (DO dissolved oxygen):

Uppleyst súrefni er mælt sem mettunar­hlutfall og segir til um magn súrefnis í vatninu. Uppleyst súrefni er mikilvægt fyrir vöxt og viðgang vistkerfis í vatninu. Súrefni er mikilvægt fyrir allt líf. Loftið sem við öndum að okkur inniheldur 20% súrefni. Lífverur í vatni þurfa líka súrefni þó að það sé mikið minna magn en í andrúmsloftinu. Súrefni gefur vatninu frísklegt bragð. Ef það er vond lykt af vatninu getur það verið merki um að það sé skortur á súrefni. Súrefni kemur í vatnið með rigningu, vindum, öldum og straumum og vatn sem er á mikill hreyfingu hefur meira súrefni en vatn sem er lygnt. Gróður og þörungar leggja einnig til súrefni með ljóstillífun. Veður, hitastig og selta hefur áhrif á súrefnismagn. Kalt vatn inniheldur meira súrefni en heitt. Og súrefnismagn breytist með árstíðum og sólahring með breytilegu hitastigi og ljósmagni. Ef meira er notað af súrefni en tekið er upp úr umhverfinu verður súrefnis­skortur. Ein helsta vísbending um ofauðgun og mengun vatna er skortur á súrefni.

 

Grugg (turbidity):

Gruggtala gefur hlutfallslegan tærleika á vatni. Há gruggtala er vísbending um að vatnið sé ekki hreint. Grugg í vatni orsakast af uppleystum efnum og litlum ögnum í vatninu. Þær þurfa ekki að vera sýnilegar með berum augum en valda því samt að vatnið er ekki tært. Þær geta verið leir eða leðja úr botninum, svif og þörungar eða úrgangur frá iðnaði. Há gruggtala í drykkjarvatni getur bent til uppleystra efni sem koma úr lindinni eða úr rörum. Gruggugt vatn missir eiginleika til að halda uppi líffræðilegri fjölbreytni. Vatnið hitnar frekar og þá minnkar súrefni. Ljóstillífun minnkar þar sem minna af ljósi kemst niður í vatnið og það veldur aftur minnkandi súrefni. Og sú samsetning heitara vatn, minna ljós og súrefni gerir útaf við sumar vatnalífverur og hefur margvísleg slæm áhrif á lífríkið.

 

Sýrustig pH (acidity):

Sýrustig pH vatnsins segir til um hversu súrt eða basískt vatnið er. Við pH=7 er vatnið “hlutlaust” þá er jafnmikið af vetnisjónum H+ og hýdroxíðjónum OH- í vatninu. Vatnið er súrara við meira magn af vetnisjónum. Ef það er lægra en 7 þá er það súrt og ef hærra er það basískt. Mælikvarðinn er frá 0 sem er mjög súrt og til 14 sem er mjög basískt. Kjör sýrustig vatnadýra er á bilinu 6,5 til 8.0. Sýrustig er mjög háð jarð­fræðilegum aðstæðum og því hvort vatnið er grunnvatn eða yfirborðsvatn. Sýrustig er ekki talið hafa nein bein heilsufarsleg áhrif á menn en er þó einn mikilvægasti eftirlitsþáttur með gæðum vatnsins. Breyting á sýrustigi gefur til kynna að efnasamsetning sé að breytast og það getur bent til mengunar. Súrt vatn eykur líkur á tæringu í rörum. Hátt pH gildi er einkennandi fyrir íslenskt grunnvatn og ástæðan er m.a. hinn basíski bergrunnur. Sýrustig á íslensku vatni frá vatnsveitum er oftast á bilinu 7-9 og fer það eftir jarðfræði svæðisins og hvort vatnið er tekið djúpt í jarðlögum eða er yfirborðsvatn. Yfirborðsvatn hefur yfirleitt lægra pH gildi en grunnvatn.

Fleira áhugavert: