Þvagskálar, pissuskálar – Án vatns

Grein/Linkur:  Þvagskál án vatns er það sem koma skal

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

pissuskal an vatns

.

Apríl 2008

Þvagskál án vatns er það sem koma skal

Það er munur að vera karlmaður og pissa standandi er gamalt karlagrobb sem oft hefur heyrst þegar karlkynið vill hreykja sér. Þó er líklega ekki meiri sóðaskapur að neinu á heimili en þegar karlar pissa standandi í klósett, líklega munu margar húsfreyjur og eiginkonur taka undir það. En áður hefur verið rekinn áróður fyrir því í þessum pistlum að karlmenn brjóti odd af oflæti sínu og setjist sem konur á klósettið þó þeir þurfi ekki að gera meira en að pissa. Það er nefnilega líffræðilega hollara fyrir karlana, að ekki sé minnst á þann kross sem af konunum er tekinn. Það er næsta víst að allt hreinlæti lendir á þeim, einstaka undantekningar geta verið til, einhvers staðar eru til karlar sem þrífa klósett og önnur hreinlætistæki en þeir eru líklega eins fáir og þær dýrategundir sem eru í mestri útrýmingarhættu.

En vilji menn endilega standa á tveimur jafnfljótum við þessa sjálfsögðu og nauðsynlega athöfn ætti að vera til þvagskál á baðinu, því ekki? Þvagskál er í rauninni eins nauðsynleg og klósett, bað og handlaug, því það er næsta víst að það mun ekki takast að ala upp karlkynið á einum mannsaldri ef það verður þá nokkurn tíma hægt.

Á öllum opinberum stöðum eru þvagskálar á karlaklósettum. Reyndar er það ekkert leyndarmál að þvagskálar eru víða að verða algeng tæki á kvennaklósettum einnig og einhvertíma hefur verið sagt frá því á þessum vettvangi, kannski meira um það seinna

En einn hefur verið fylgifiskur þvagskála og það er miður þægileg lykt. Gegn þessu er unnið með ýmiss konar meðulum og ekki er ólíklegt að karlar sjái einhverjar kúlur liggja í þvagskálinni, þær eiga að slá á lyktina Að sjálfsögðu telja flestir að þessi lykt stafi af því sem frá körlunum kemur en það er að hluta misskilningur. Lyktin verður ekki til fyrr en þvag blandast vatni, þá fyrst byrjar ballið.

Hvað er þá til ráða?

Það eru engin takmörk fyrir því hvað mönnum á þróunardeildum framleiðenda dettur í hug. Vissulega þótti mönnum það með ólíkindum í fyrstu þegar einhver, sem enginn veit hver er, kom með þá hugmynd að láta vatn aldrei renna í þvagskál, það væri algjör óþarfi. Og nú er svo komið að vatnslausar þvagskálar eru framleiddar í stórum stíl og þykja kostagripir, aldrei nein ólykt. Það var einnig annað sem ýtti á eftir þessari þróun, nokkuð sem er okkur Íslendingum framandi.

Að spara kalt vatn

Víða um lönd eiga samfélög í erfiðleikum með að sjá íbúunum fyrir fersku vatni. Það hefur jafnvel verið gripið til þess ráðs að leggja þrefalt neysluvatnskerfi í hús, eitt fyrir heitt vatn, annað fyrir ferskvatn og það þriðja fyrir skolunarvatn, vatn sem er óhæft til drykkjar eða matargerðar en hæft til að skola niður úr klósetti, skola af bílnum og vökva blettinn.

En víðast er enn sama vatnið notað til matargerðar og skola niður úr klósettinu. Þá er ekki lítils virði að fara sparlega með dropann og það getur meira að segja munað einhverju að þurfa ekki lengur að skola niður úr þvagskálum. Víðast um lönd geta menn ekki látið kalda vatnið renna að vild, kalda vatnið er keypt samkvæmt mæli eins og heita vatnið hérlendis.

Það kann að vera stutt í það að vatnslausar þvagskálar verði komnar í notkun hérlendis ef þær eru þá ekki þegar búnar að gera hér strandhögg. Þær eru að ryðja sér til rúms í nágrannalöndum í opinberum byggingum.

Mættu gjarnan verða sjálfsagðar á hverju heimili.

Fleira áhugavert: