Frábært tækifæri Statkraft – sem framleiðir svo til alla raforkuna með vatnsaflsvirkjunum
Febrúr 2016
Norska Statkraft er stærsti raforkuframleiðandinn í Noregi. Og framleiðir svo til alla raforkuna með vatnsaflsvirkjunum.
Og nú stendur Statkraft frammi fyrir afar spennandi tækifæri. Mjög stór hluti af raforkusölu Statkraft í dag er bundinn langtímasamningum til stóriðju (m.a. til álvera). Alls nemur þessi orka um 40% afraforkuframleiðslu Statkraft með vatnsafli í Noregi og öðrum norrænum löndum (Statkraft er með töluverða starfsemi utan Noregs; einkum í Svíþjóð).
Eftir einungis fáein ár losna langtímasamningar hjá Statkraft sem nema um 15 TWst framleiðslu árlega. Og eftir 2021 losnar þarna ennþá meiri orka. Samtals eru þetta nálægt 18 TWst sem þarna losna á næstu átta árum eða svo. Það er ámóta raforkumagn eins og öll sú raforka sem nú er framleidd á Íslandi!
Þessir samningar hafa hentað Statkraft prýðilega, þ.e. tryggt fyrirtækinu góðar stöðugar tekjur. En á móti kemur að þessir stóriðjusamningar halda aftur af arðsemi Statkraft. Mögulega verður endursamið um eitthvað af þessari orku við stóriðju – á hærra verði en verið hefur. En svo er líka mögulegt að talsvert af þessari orku verði fremur seld á almenna raforkumarkaðnum. Þar sem verðið er almennt töluvert hærra en stóriðjan greiðir.
Í tilviki Noregs er almenni raforkumarkaðurinn Nord Pool Spot. Sem m.a. nær einnig yfir Finnland, Svíþjóð og Danmörku. Að auki geta Norðmenn selt verulegt magn af raforku til meginlands Evrópu, sbr. Norned-sæstrengurinn milli Noregs og Hollands. Og keypt þaðan raforku þegar þeim hentar.
Statkraft er vel að merkja í eigu norska ríkisins og er því e.k. systurfyrirtæki Landsvirkjunar. Og í því sambandi er áhugavert að hjá Landsvirkjun eru einnig stórir orkusamningar við stóriðju senn að renna út. Því árið 2019 renna út samningar Landsvirkjunar við Norðurál (Century Aluminum) og við Elkem (China Bluestar). Þeir samningar nema alls um 2,5 TWst eða rúmlega það.
Norðmenn eru með margar raforkutengingar við nágrannalöndin, eins og lesendur Orkubloggsins vita mætavel. Og eru sífellt að auka þessar tengingar. Þannig er nú verið að vinna að lagningu raforkustrengs milli Noregs og Bretlands og einnig milli Noregs og Þýskalands.
Þessi verkefni hafa fyrst og fremst þann tilgang að búa til meiri verðmæti úr norska vatnsaflinu, þ.e. að auka arðsemi þess. Sem er mjög til hagsbóta fyrir norsku þjóðina – einkum og sér í lagi vegna þess að Statkraft og flest orkufyrirtæki í Noregi eru í eigu ríkisins, sveitarfélaga og fylkja. Þannig leita Norðmenn sífellt leiða til að núverandi nýting þeirra á vatnsaflsauðlindinni sé nýtt með það að markmiði að skapa þjóðinni meiri verðmæti. Og eins og áður sagði, eru nú þarna mjög áhugaverð tækifæri.
Heimild: Orkubloggið