Alcan, Alcoa – Rio Tinto, BHP Billiton

Grein/Linkur: Billjón tonn hjá Billiton?

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Billjón tonn hjá Billiton?

Nú stefnir í að álverið í Straumsvík skipti enn einu sinni um eiganda. Þ.e. að ofurfyrirtækið BHP Billiton eignist Rio Tinto – og þar með Straumsvíkurverið. Ásamt dálitlu fleiru, sem er í hinu geggjaða eignasafni Rauðármanna.

straumsvik_2

straumsvik

Í þá góðu gömlu daga var eitt álver á Íslandi. Álverið! Sem byrjað var að reisa draumaárið 1966 – fæðingarár þess sem hér párar. Ekki skrítið þó ég sé alltaf soldið skotinn í áli. Verið var staðsett í Straumsvík og í eigu svissneska fyrirtækisins og „auðhringsins“ Alusuisse. Um leið rættust loks gamlir orkudraumar Einars Benediktssonar, með stofnun Landsvirkjunar og virkjun Þjórsár (Búrfellsvirkjun).

Hér heima var álverið rekið undir fyrirtækjanafninu Íslenska álfélagið.  Upphaflega álverið í Straumsvík þætti ekki merkilegt í dag. Fyrsti áfanginn mun hafa verið skitin 30 þúsund tonn eða svo. Og framleiðslugetan rúmlega helmingi meiri eftir annan áfanga. Á árunum 1980-1997 var framleiðslugetan um 100 þúsund tonn. Sem kunnugt er getur álverið nú framleitt um 185 þúsund tonn árlega.

Eftir nokkrar breytingar á eignarhaldi komst Alusuisse í eigu kanadíska álfyrirtækisins Alcan árið 2000. Saga Alcan er löng og merkileg. Auk þess að reka álver stundar Alcan báxítvinnslu víða um heim.

Rio_Tinto_Alcan

Rio_Tinto_Alcan

Seint á síðasta ári (2007) var Alcan keypt af risafyrirtækinu Rio Tinto Group. Fyir litla 38 milljarða USD, sem mörgum þótti all hressilegt. Alcoa vildi reyndar líka eignast Alcan, en bauð „einungis“ 28 milljarða dollara. Því fór svo að til varð Rio Tinto Alcan, sem er álarmur þessa námu- og iðnaðarrisa. Annars hefði kannski orðið til Alcoalcan.

Spurning hvort Rio Tinto hafi hugsanlega greitt full mikið fyrir bitann? Svona í upphafi niðursveiflu, sem gæti dregið úr eftirspurn eftir málmum. Og sé hugsanlega að lenda í fjárhagskröggum vegna kaupanna?

Rio Tinto Alcan er með aðalstöðvar sínar í Montreal í Kanada og er eitt af þremur stærstu álfyrirtækjum í heimi. Hin tvö eru auðvitað annars vegar Íslandsvinirnir í Alcoa og hins vegar ljúflingarnir hjá rússneska kvikyndinu Rusal. Rusal er rússneski risinn, sem hann Chelsea-Abramovich átti m.a. þátt í að stofna. Í rússnesku einkavinavæðingunni á síðasta áratug liðinnar aldar. Fjárans klúður að íslenska ríkið skyldi hvorki eiga Straumsvíkurverið né Norðurál í Hvalfirði. Hefði geta orðið skemmtileg einkavæðing! Ekki annað hægt en að sleika út um við tilhugsunina.

alcoa_logoJá – Rio Tinto og Alcoa kepptust um Alcan. Og Alcoa tapaði þeim bardaga. En það skemmtilegasta er auðvitað það að eitt sinn í árdaga voru Alcan og Alcoa eitt og sama fyrirtækið. Þannig að Straumsvík og Reyðarál eru í reynd fjarskyldir ættingjar. Þó svo þau séu væntanlega svarnir óvinir í dag.

Þessi tvö af þremur stærstu álfyrirtækjum heimsins eru sem sagt bæði afsprengi sama snillingsins. Sá er bandaríski uppfinningamaðurinn og frumkvöðullinn Charles Martin Hall. Hall (1863-1914) var einn af tveimur mönnum, sem á nánast sama tíma fundu upp samskonar aðferð til að vinna ál úr málmblöndu (súráli) með hjálp rafmagns. Hinn var Frakkinn Paul Héroult (1863-1914).

Charles Martin Hall

Charles Martin Hall

Þessir tveir snillingar fæddust sama ár – og létust líka sama ár. Svolitið dularfullt og kannski hugmynd að Arnaldur Indriðason noti það í næsta þrillerinn sinn. Álvinnsluaðferðin er kennd við þá báða; Hall-Héroult aðferðin. Uppfinning þeirra er enn sá grunnur sem notaður er við álframleiðslu í dag. Myndin hér til hliðar er af Hall, sem er sagður hafa verið kominn á kaf í efnafræðitilraunir strax á barnsaldri.

Hall stofnaði Pittsburgh Reduction Company og hóf fyrirtækið álframleiðslu árið 1888. Viðskiptafélagi Hall var framsýnn, bandarískur bissnessmaður. Sá hét Alfred Hunt (1855-1899) og hefði líklega orðið einn að helstu iðnjöfrum heimsins ef hann hefði ekki látist langt um aldur fram.

Fyrirtæki þeirra félaganna byggði nokkrar álverksmiðjur í Pennsylvaníu og víðar. Og skömmu eftir aldamótin var nafninu breytt í Aluminum Corporation of America – og síðar stytt sem Alcoa.

Alcan_AlcoaEitt af dótturfyrirtækjum Alcoa nefndist Alcan. Það má rekja til þess að Alcoa stofnaði Aluminum Company of Canada. Sbr. hlutabréfið hér til hliðar. Alcan var sem sagt Kanada-armur Alcoa.

Allan fyrri hluta 20. aldar hafði Alcoa 100% markaðshlutdeild á bandaríska álmarkaðnum. Sem leiddi til einhvers frægasta samkeppnismáls þar í landi. Álmarkaðurinn óx hratt og að því kom að bandarískum stjórnvöldum ofbauð einokunarstaða Alcoa. Skömmu fyrir upphaf heimsstyrjaldarinnar síðari var fyrirtækið kært fyrir ólögmæta einokun. Dómsmálið tók mörg ár og var afar umdeilt. Margir töldu Alcoa fórnarlamb eigin velgengni – fyrirtækið gæti ekki að því gert að ekkert annað álfyrirtæki gæti keppt við þá tæknilega séð. Þetta minnir kannski svolítið á stöðu Microsoft í dag.

Réttarhöldin urðu bæði löng og ströng. Stóðu yfir í meira en hálfan áratug og lengi vel leit út fyrir sigur Alcoa. En lokaorðið hafði dómari að nafni Learned Hand (mætti etv. útleggjast sem Lærða Hönd!). Þetta er einhver þekktasti og jafnframt umdeildasti dómurinn í bandarísku samkeppnismáli.

learned_hand

learned_hand

Málið kom til kasta Learned Hand eftir að flestir dómarar í Hæstarétti Bandaríkjanna höfðu lýst sig vanhæfa. Hand byggði niðurstöðu sína á því að hann taldi Alcoa hafa beitt sér í því skyni að koma í veg fyrir mögulega framtíðarsamkeppni. Margir hafa gagnrýnt niðurstöðuna. Það er staðreynd að ný álfyrirtæki voru að koma fram á sjónarsviðið og ekki varð séð að Alcoa hefði aðhafst neitt gegn þeim. Nýju álverin voru reyndar einkavædd álver, sem stjórnvöld höfðu byggt í stríðinu, og Alcoa fékk ekki að kaupa þrátt fyrir að tæknin kæmi frá þeim.

Kannski stóð mat Hand's á veikum grunni. Orkubloggið ætlar ekki að kveða upp úr með það. En hann Learned Hand þykir engu að síður einn merkasti dómari sem Bandaríkin hafa átt. Þó svo aldrei yrði hann hæstaréttardómari. Í kjölfar dómsins varð Alcan sjálfstætt fyrirtæki árið 1950 og ekki lengur í eigu Alcoa. Tækniframfarir á 6. áratugnum urðu svo til þess að ný álfyrirtæki náðu að vaxa og skapa nýja samkeppni i áliðnaðinum.

Enn sem fyrr eru Alcoa og Alcan meðal stærstu álrisanna. Reyndar mátti litlu muna, að árið 2007 væri saga Alcoa og Alcan komin í hring. Þá gerði Alcoa tilraun til að eignast Alcan á ný og ætlaði sér þannig að koma á fót stærsta álfyrirtæki í heimi.  En Rio Tinto hafði betur, eins og lýst var hér að ofan. Og eignaðist Alcan – og álverið í Straumsvík. Skemmtilegt.

Marius_Kloppers

Marius_Kloppers

Og þá er komið að ofurrisanum; BHP Billiton. Nú vill BHP Billiton eignast Rio Tinto. Með húð og hári. Og þar með Alcan. Og Straumsvík. Þetta yrði reyndar gert með hlutabréfaskiptum.

BHP Billiton er einfaldlega eitthvert stærsta námafyrirtæki í heimi. Þar ræður ríkjum ljúflingurinn Marius Kloppers, sem var skipaður forstjóri fyrirtækisins á síðasta ári, aðeins 44 ára. Gaman að segja frá því að áður var Kloppers í vinnu hjá Suður-Afríska fyrirtækinu Sasol. Sem Orkubloggið hefur áður sagt frá og er eitt af þeim fyrirtækjum, sem eru að skoða nýja möguleika í eldsneytisframleiðslu.

Enn er ekki útséð um það hvort BHP Billiton eignist Rio Tinto Group. Stjórn Rio Tinto hefur staðið gegn sameiningunni, en engu að síður hafa samkeppnisyfirvöld í Ástralíu og Evrópusambandinu skoðað málið. Menn hafa ekki síst áhyggjur af því að sameining þessara tveggja námurisa gefi þeim samkeppnishamlandi aðstöðu í járngrýtisiðnaðinum.

BHP Billiton logoÍ dag eru þrjú fyrirtæki lang stærst í þeim bransa. Og eru samtals með um 70-75% markaðshlutdeild. Þetta eru BHP Billiton með 15%, Rio Tinto með 25% og brasilíska námatröllið Vale do Rio Doce með 30-35% (glöggir lesendur Orkubloggsins kannast við þetta brasilíska kompaní, frá eldri færslu).

Horngrýtis járngrýtið. Vandamál samkeppnisyfirvalda er að ákveða hvort það sé betra eða verra fyrir samkeppnina að einn eða tveir járnrisar berjist við snaróða Brasilíumennina. Sem sagt; tveir stórir eða þrír stórir – hvort er betra?

Reyndar er verið að hvísla að manni núna, að á morgun verði bara tveir bankar á Íslandi. Skyldi Samkeppnisstofnun vera með á næturfundum í Ráðherrabústaðnum? Á meðan við bíðum eftir fréttum þaðan, bíða stálframleiðendur um allan heim skjálfandi á beinunum eftir því hvort samkeppni járnframleiðenda eigi enn eftir að minnka. Það er svo sannarlega vandlifað víðar en á Klakanum góða nú um stundir.

Fleira áhugavert: