Ímynd um ósnortið hálendi þrátt fyrir stíflur, lón og háspennulínur
Ef þið haldið að hálendi Íslands sé ósnortið, þá ættuð þið að sjá þessa frétt. Þar eru nefnilega skráð um 250 hús, um 360 kílómetrar af hápennulínum, um fjögur þúsund kílómetrar af vegum, en einnig átta virkjanir, sautján virkjunarlón og 35 stíflur.
Stjórnvöld hafa þegar skilgreint hvað telst vera hálendi Íslands. Sú lína var dregin fyrir tæpum tuttugu árum, með gerð svæðisskipulags miðhálendis. Í grófum dráttum var miðað við mörk heimalanda og afrétta, og það er ekkert smáræði sem telst til miðhálendis, raunar um 40 prósent alls Íslands.
Sú mynd sem flestir hafa sennilega af hálendinu eru gróðurlitlar auðnir, jöklar, sandbreiður, – landslag sem stendur að mestu óraskað. En þegar betur er að gáð finnast þar sennilega fleiri mannvirki en margur hyggur, og ekki bara vegslóðar heldur uppbyggðir vegir, mörghundruð skálar, og svo flestar stórvirkjanir landsins, með tilheyrandi stíflum, skurðum, lónum og háspennulínum.
Stærstu mannvirkin að fermetratali eru þó stöðvarhús virkjana. Virkjanamannvirki, sem að hluta eða öllu leyti teljast vera á hálendinu, eru við Búrfell, Sultartanga, Búðarháls, Hrauneyjar, Sigöldu, Vatnsfell, Þórisvatn, Hágöngur og Kárahnjúka, sem og Kvíslaveita og Blönduvirkjun. Þetta eru átta virkjanir, stöðvarhús sumra teljast þó utan hálendis, en þeim fylgja 35 stíflur, allar á hálendinu, og sautján miðlunarlón. Þau eru: Bjarnalón, Blöndulón, Dratthalavatn, Eyvindarlón, Hágöngulón, Hálslón, Hrauneyjalón, Hreysislón, Kelduárlón, Krókslón, Kvíslavatn, Sauðafellslón, Sporðöldulón, Sultartangalón, Ufsárlón, Vatnsfellslón og Þjórsárlón – og spurning hvort Þórisvatn eigi einnig að teljast með.
Og mannvirkin eru ekki bara í hálendisjaðrinum. Kvíslaveita er samheiti á tólf stíflum, sjö skurðum, botnrásum og lokumannvirkjum, og þau mynda alls fimm lón, og það í hjarta miðhálendisins neðan Þjórsárvera.
Vegakerfi hálendisins er einnig fjölskrúðugt, búið er að gps-mæla fjögur þúsund kílómetra af slóðum. Vegagerðin hefur skilgreint 1.920 kílómetra sem landsvegi á hálendinu, 505 kílómetra sem stofnvegi og 105 kílómetrar af hálendisvegum eru þegar komnir með bundið slitlag.
Svo getur hver og einn dæmt fyrir sig hvort honum finnist hálendi Íslands ósnortið. En kannski er það umhugsunarvert að þrátt fyrir öll þessi mannvirki þá virðist sú ímynd haldast býsna sterk að hálendið sé ósnortið.
Heimild: Vísir