Plastlagnir – Óskaðlegt eða skaðlegt umhverfinu

Grein/Linkur: Er allt plast óskaðlegt umhverfinu?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Júlí 1995

Er allt plast óskaðlegt umhverfinu?

Það eru ekki bara grænfriðungar, sem berjast gegn notkun PVC-efnisins. Yfirvöld í ýmsum löndum Vestur- Evrópu eru tekin að rumska.

Það er ekki nokkur vafi á því að plaströr eru framtíðarefni í húsalögnum hérlendis. Plastið mun þó enganveginn útrýma öðrum efnum; efnisvalið fer eftir aðstæðum á hverjum stað.

Ekki er víst að öllum sé ljóst hvað plast er og hvaðan það kemur eða úr hverju það er unnið, en í stuttu máli kemur plastið fram á sjónarsviðið á þessari öld um leið og olíuvinnsla úr jörðu hefst fyrir alvöru.

Plast er unnið úr jarðolíu eða gasi og er í raun „aukabúgrein“ olíuvinnslunnar, en æði stór búgrein og fer stöðugt vaxandi.

Plastið kemur víða við og það er notað í nær öllum iðnaði , en gerum ekki málið flókið; höldum okkur við plast í lögnum. Þar koma þrjú efni aðallega við sögu; í fyrsta lagi polyeten, sem allir þekkja sem svörtu rörin sem notuð eru í kaldavatnslagnir, svört og gul snjóbræðslurör og pexrör, sem í framtíðinni verða líklega ráðandi til innanhússlagna (rör-í-rör); í annan stað polypropen, sem þekkt eru sem grá frárennslisrör til innanhússlagna og ljósgrá snjóbræðslurör; í þriðja lagi PVC, sem þekkt eru sem appelsínugul frárennslisrör til grunn- og jarðvatnslagna og í hreinsikerfum sundlauga. Rétt er að nefna fjórðu plasttegundina, polybuden, sem notuð hefur verið allmikið hérlendis til hitaveitulagna í dreifðum byggðum og til snjóbræðslulagna.

Brotnar niður af sólarljósi, og þó

Flest plastefni brotna niður af útfjólubláum geislum sólar, en þetta er litið á sem veikleika ef nýta á efnið í lagnir, þessvegna er við frumvinnslu hráefnis eða við framleiðslu á rörum og tengjum, ýmsum efnum blandað saman við plast til að auka mótstöðukraft þess gegn sólarljósi og öðrum utanaðkomandi áhrifum. Svört polyetenrör eru svört af því að í plastið er blandað sóti til að auka þol þess, en hreint polyeten er nánast gagnsætt efni.

Þessi íblöndunarefni eru flest óskaðleg og gegna veigamiklu hlutverki í endingu og eiginleikum efnisins, en þegar notkun lýkur gerum við kröfu um að efnið brotni niður sem snarast, sem að sjálfsögðu gengur ekki eftir. Þessu mun verða mætt í framtíðinni með aukinni áherslu á endurvinnslu, krafa nútímans er endurnýting allra hluta og skilagjald er lausn nútímans til að fá sem flesta til að vinna að því að halda náttúrunni hreinni.

Strangar kröfur eru um íblöndunarefni í plast sem notað er í lagnir sem flytja drykkjarvatn, því það eru ekki aðeins efni til varnar sólarljósi, sem blandað er í plastefnin, heldur ýmis önnur efni, svo sem litarefni, mýkingarefni og fleira mætti upp telja.

PVC er „svartipétur“

Við getum sagt að öll fyrrnefnd plastefni séu umhverfisvæn nema eitt; PVC. Ekki er þar átt við efnið sem fullunna vara, heldur fyrst og fremst er átt við frumvinnsluna. Þá er blandað í plastið ýmiskonar efnum og þar stendur hnífurinn í kúnni, plastefnið sjálft er óskaðlegt.

Það er fyrst og fremst íblöndun klórs í þetta plast, sem hefur haft umhverfisspjöll í för með sér, en þversögnin er að einmitt íblöndun klórs hefur gert PVC ódýrast allra plastefna; offramleiðsla af klóri hefur haldið verði þess niðri og þar með einnig verði á PVC rörum.

Það er umhverfi hráefnisverksmiðjanna, sem verður harkalega fyrir barðinu á þessum aukaefnum en einn af eiginleikum PVC, umfram önnur plastefni, er að það er svo auðvelt að blanda í þau ýmsum aukaefnum.

Nú er svo komið að það eru ekki aðeins Grænfriðungar sem berjast gegn framleiðslu og notkun PVC, yfirvöld í ýmsum löndum V- Evrópu eru að rumska og sum eru þegar tekin að þrengja að hrávöruframleiðslunni.

Hérlendis er ekki um neina hrávöruframleiðslu plasts að ræða, en tveir plaströraframleiðendur framleiða plaströr úr PVC og má segja að þau séu ráðandi í grunn- og jarðvatnslögnum.

En það er engin ástæða fyrir okkur að hafa áhyggjur þó PVC hverfi af lagnamarkaði; við eigum aðra og vænlegri kosti.

Polyeten er „plastefni norðursins“, efni sem við höfum langa og góða reynslu af, efni sem heldur sveigju sinni allt niður í 40 stiga frost og fleiri kosti mætti telja.

En hvers vegna hefur þetta efni ekki verið valið frekar en PVC?

Það er best að röraframleiðendur, innflytjendur, hönnuðir, fagmenn og húsbyggjendur svari hver fyrir sig, en þó liggur svarið í augum uppi.

PVC er ódýrara en polyeten og það er eingöngu svolítill munur í krónum, sem ræður valinu, ekki gæði eða tæknilegar forsendur, þar stendur PVC polyeten langt að baki.

Þetta virðist enginn hafa þorað að segja eða viðurkenna fram að þessu.

Nú er mál að rumska, framleiðendur PVC röra ættu að búa sig undir að skipta yfir á polyeten sem allra fyrst, annars lenda þeir í ógöngum, allir aðrir þurfa einnig að vakna, það er tími til kominn.

Frárennslislagnir úr polyeten er hægt að sjóða saman. Einnig má tengja á hefðbundinn hátt

Fleira áhugavert: