Gufustrókar og antilópur við gátt helvítis – Þjóðgarðurinn „Hell’s Gate“ Kenía
Sebrahestar og antilópur á beit. Í bakgrunni rísa gufustrókar við gáttina að helvíti. Svo er umhorfs í Kenía eftir mikla uppbyggingu jarðhitavirkjana þar í landi, einkum í þjóðgarðinum Hell’s Gate.
Ríflega þriðjungur íbúa landsins, sem samtals eru um um 45 milljónir, búa ekki við rafmagn. Þá verður rafmagnslaust víða með reglulegu millibili, jafnvel í höfuðborginni Naíróbí.
En Miklugjárdalurinn, þar sem heimsálfan er smám saman að klofna í sundur, gengur þvert í gegnum Kenía. Gefur hann Keníumönnum tækifæri sem mörgum nágrönnum þeirra býðst ekki, að vinna rafmagn úr hita jarðarinnar.
Íslensk fyrirtæki hafa mörg haslað sér völl í Kenía og frætt heimamenn um þær aðferðir sem notaðar hafa verið hér á landi. Green Energy Group, íslensk-norskt orkufyrirtæki, hlaut til að mynda verðlaun Bloomberg fréttastofunnar sem frumkvöðull ársins 2014 á sviði nýorku. Þá hafði fyrirtækið reist fimm litlar jarðvarmavirkjanir í Kenía.
Þá gerðu EFLA verkfræðistofa og Þróunarsamvinnustofnun Íslands sérstakan samstarfssamning í febrúarmánuði um verkefni tengd jarðhita í Kenía. Verkefnið er einn þáttur í áætlun ÞSSÍ um þróun jarðhita og uppbyggingu þekkingar á sviði jarðhitanýtingar í Austur-Afríku. Verkefnið er fjármagnað í sameiningu af ÞSSÍ og Norræna Þróunarsjóðnum (NDF).