Cher sendir íslenskt vatn til Flint í Michigan
Í apríl 2014 var í sparnaðarskyni farið að taka vatn úr Flint-ánni til neyslu í stað þess að fá það frá Detroit. Strax fóru að berast kvartanir frá borgarbúum um vont bragð og lykt af vatninu og sérkennilegan lit.
Skömmu síðar jukust heimsóknir til lækna vegna ýmissa kvilla, höfuðverkja og útbrota. Sjónvarpsstöðin ABC segir að október 2014 hafi verksmiðja á vegum General Motors hætt að nota vatn frá Flint vegna ryðmyndunar.
Í oktober á nýliðnu ári staðfestu rannsóknir blýmagn í neysluvatni og í blóði barna, en blýeitrun getur leitt til náms- og hegðunarvandamála hjá börnum.
Yfirlýsing Obama um neyðarástand í Flint losar um 5 milljónir Bandaríkjadala til neyðaraðstoð frá alríkisstjórninni í Washington. Ríkisstjórinn í Michigan, Rick Snyder, bað í vikunni um 31 milljón dala frá alríkisstjórninni og sagði að Michigan-ríki gæti ekki eitt staðið undir því sem gera þyrfti. Snyder kallaði í vikunni þjóðvarðliðið til hjálpar til að útdeila vatni á flöskum og síum til borgarbúa.
Margir hafa lýst yfir stuðningi við íbúa Flint og heitið aðstoð.Söngkonan Cher sagði í tilkynningu í gær að hún ætlaði í samstarfi við Icelandic Glacier að senda yfir 180.000 flöskur af vatni til borgarinnar.
Hún kvaðst fyrirtækinu þakklát fyrir framlag þess til verkefnisins. Vatnið yrði flutt til Flint á morgun, mánudag, flöskurnar síðan settar í endurvinnslu og það sem fyrir þær fengist rynni til eldhúsa þar sem fátækir og heimilislaus fá mat sér að kostnaðarlausu.
Heimild: RÚV