Skítur í Skerjafirði
Klóak var losað út í Skerjafjörð í um klukkustund í gær á meðan dælur í fráveitustöð Orkuveitunnar í vesturbæ Reykjavíkur voru hreinsaðar. Aðeins er tilkynnt um slíkt ef losunin stendur lengur en í þrjá til fjóra tíma og því var engin tilkynning send út til borgarbúa um hana.
Íbúi við Skerjafjörð sem hafði samband við mbl.is varð mengunarinnar var síðdegis í gær. Lýsti hann því þannig að klóakið hefði teygt sig með straumum út fjörðinn báðum megin, náð út að Lönguskerjum og utar.
Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, segir að dælur hafi verið hreinsaðar í fráveitustöðinni við Faxaskjól í gær. Það hafi staðið yfir í um klukkustund en á meðan hafi stöðin farið á yfirfall. Því hafi klóak farið út í sjó.
Við reglubundið viðhald eða bilanir séu stöðvarnar settar á yfirfall á meðan ef álagið á þær sé þannig. Sjái Orkuveitan fram á að það ástand standi yfir lengur en í fjóra tíma sé heilbrigðiseftirlitinu tilkynnt um það. Eftirlitið meti svo hvort gefnar séu út sérstakar tilkynningar um það. Í gær hafi viðhaldið hins vegar staðið í tæpan klukkutíma.
Spurður hvort ekki geti samt verið ástæða til að láta vita af mengun af þessu tagi, meðal annars í ljósi þess að sjósund sé vinsæl iðja í firðinum, segir Eiríkur að svo kunni að vera. Verklag sé vitaskuld alltaf til skoðunar og betrumbóta.
Í skriflegu svari Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur við fyrirspurn mbl.is segir að einungis sé tilkynnt um yfirfall dælustöðva til eftirlitsins ef stöð sé á yfirfalli í þrjár til fjórar klukkustundir.
Blautklútar algengustu sökudólgarnir
Það sem gæti hins vegar fækkað tilfellum þar sem hreinsa þarf dælur með þessum afleiðingum er upplýsingar til almennings um hvernig eigi að nálgast fráveitukerfið.
„Því miður notar fólk klósettin heima hjá sér og fráveitukerfið svolítið eins og ruslafötur þannig að við þurfum að taka upp dælur öðru hverju og hreinsa úr þeim dót sem ekki á að fara í fráveitukerfið,“ segir Eiríkur.
Alls konar tauefni, til dæmis klæðnaður, berist þannig ofan í kerfið og sest fyrir í dælum, sem þarf þá að stoppa og þrífa. Algengast segir Eiríkur að starfsmenn dælustöðvanna séu í vandræðum með blautklúta og fleira af því tagi sem ekki eigi að fara ofan í klósett.
Heimild: Mbl