Er snjóbræðslan í lagi?
.
Október 2008
Haustið er komið og fyrsti snjór að falla – huga þarf að lagnakerfum í tíma
Þegar október gengur í garð er ekki nokkur vafi á því að það er komið haust. Vonandi hefur það í för með sér að nokkurt hlé verði á þeirri yfirgengilegu vætutíð sem hefur dunið á þessu eylandi í norðurhöfum, raunar heldur vætan áfram að koma en nú sem snjór. Það minnir okkur á það að huga þarf að skófatnaði bílanna, ekki gengur lengur að láta þá renna um götur og vegi á oft og tíðum lélegum sumarbúnaði. Sérkenni landans koma oft skýrast í ljós einmitt á haustin þegar allt verður víðáttuvitlaust á öllum dekkjaverkstæðum á fyrstu hálku- og snjóadögum, fyrirhyggjan ekki okkar sterkasta hlið, það sannast í fleira en fjármálum.
Ekki sofna á verðinum
En húseigendur þurfa að hyggja að fleira. Því hefur verið haldið fram að aðeins tvennt geti fengið húseiganda til að hyggja að lögnum og lagnakerfum í húsi sínu; í fyrsta lagi ískuldi á heimilinu eða ökklavatn þegar stigið er fram úr rúmi að morgni.
Auðvitað eru þetta nokkrar ýkjur en vissulega er það einkenni Íslendinga að fyrirbyggjandi aðgerðir eða skipulagt viðhald er nokkuð sem þeir hafa ekki mikinn áhuga á, en þó hefur það nokkuð batnað á síðustu árum.
En veturinn er á næsta leiti og þá er ekki úr vegi að huga að því hvað hver og einn ætti að athuga – eða láta athuga – svo hann geti verið í þokkalegum málum á komandi vetri, hvorki í ískaldri íbúð né ökklavatni.
Gull í pípunum
Það er víst nánast ætlast til þess á þessum síðustu tímum að vera uppi með barlóm, en látum fréttastofur ljós- og prentmiðla um það, þeir standa sig geysivel í því hlutverki.
Það kemur fyrir að einn og einn maður komi á skjá eða blaðsíðu og stingi svolítið í stúf, haldi því fram að við Íslendingar búum við aðstæður sem flestar þjóðir mættu og ættu að öfunda okkur af. Eitt er víst að heita gullið sem veltur upp úr jörðinni af eigin rammleik eða með hjálp tækninnar og mannsins, heita vatnið, er ótrúlegur munaður sem ekki á sinn líka á byggðu bóli. Vissulega kemur heitt vatn víðar úr jörðu á jarðkringlunni en hvergi á þessum sama hnetti hefur þessi auðlind verið jafn-vel nýtt sem hérlendis.
Það er ágætt að vera minntur á það þegar víða sjást blikur á lofti að við eigum okkar gull eða ígildi þess.
Er allt eins og það á að vera?
En til að koma sér að efninu þá var erindið það að minna alla húseigendur á að huga að lagnakerfum sínum í tíma, ekki draga það eins og dekkjaskiptin. Það er ótrúlega algengt að hitakerfi húsa eru í megnasta ólagi og það er látið dankast mánuð eftir mánuð, ár eftir ár. Það er nokkuð þekkt í fjölbýlishúsum að svo virðist sem hitakerfi gangi af gömlum vana en svo er nú ekki raunin. Oft er það einhver ráðagóð eldri kona eða maður sem hefur komist upp á lag með að opna ýmsa ventla þegar kólnar og loka þeim aftur þegar hlýnar.
En þetta getur tæpast talist hitastýring í samræmi við nútímann og þá möguleika sem til eru.
En nú væri ekki úr vegi að kanna hvort þrýstijafnarinn, þetta ótrúlega snjalla tæki, er í lagi eða hvort hann er orðinn stirður, jafnvel fastur. Ofnlokana þarf einnig að athuga, pinnar þeirra eiga það til að festast og gefa sáralítið eða ekkert rennsli inn á ofninn. Þetta hefur kannski ekki komið að sök í sumar en þegar kólnar þá kemur gallinn í ljós, hiti ekki nægur þegar á þarf að halda.
Er snjóbræðslan í lagi?
Svo eru það allar snjóbræðslurnar. Hefur eitthvað verið fiktað við ýmsa krana að vorlagi til að tryggja að snjóbræðslan taki ekki til sín vatn yfir sumarið? Flestar snjóbræðslur við minni hús eru sem betur fer með einföldum og beintengdum búnaði. Þetta eru þær snjóbræðslur sem oft hafa gengið áfallalaust í áratugi en það er gott að muna að allir lokar og allur búnaður, hve einfaldur og ágætur sem hann er í upphafi, á það til að stirðna og jafnvel festast. Þetta getur orsakað það að snjóbræðslukerfið vinnur ekki eins vel og áður, lítil orsök sem oft skaðar góða virkni.
Hirða þarf um blöndunartækin
Þá má ekki gleyma einu sem er yfirleitt öskubuskan á heimilinu sem enginn hugsar um en það eru sjálfvirku hitastýrðu blöndunartækin. Hver sá sem selur slík tæki ætti að láta þeim fylgja nákvæmar leiðbeiningar og það á íslensku, hvernig skuli hirða tækin. Sérstaklega ætti að fylgja þeim áætlun um hvenær og hve oft á að skipta um einstreymisloka í tækjunum. Þeir verða óþéttir á nokkrum árum og afleiðingin er oft millirennsli, oftast að heitt vatn rennur inn í kaldavatnskerfið, jafnvel með þeim afleiðingum að það stendur gufumökkur upp úr klósettinu þegar sturtað er.
Vöntun á góðri handbók
En hvað segja húseigendur um það að þeir fengju í hendur handbók sem leiðbeindi þeim um allt sem varðar lagnir og lagnakerfi í húsum?
Slík handbók þyfti að vera auðskilin, ekkert hátimbrað tækniorðalag. Þar mættu jafnvel koma fram leiðbeiningar um hvað hin „handlagna húmóðir“ getur gert til að bjarga sér sjálf og hvað hún ætti ekki að hætta sér í bardaga við.
Svo er ekki loku skotið fyrir að karlarnir geti í sumum tilfellum einnig gert gagn á þessu sviði eins og öðrum.