Oft verður ekki hjá því komist að brjóta upp gólf til að endurnýja gamlar skólplagnir.

Oft verður ekki hjá því komist að brjóta upp gólf til að endurnýja gamlar skólplagnir.

Oft verður ekki hjá því komist að brjóta upp gólf til að endurnýja gamlar skólplagnir.
Það eru aðeins skolplagnir, sem krefjast þess að brjóta þurfi botnplötu og jafnvel veggi. Annað er sjálfsagt að endurnýja án nokkurs múrbrots.Það eru blómleg viðskipti með eldri íbúðir á þeim svæðum þar sem þenslan er í algleymingi, á suð-vesturhorni landsins. Oft er það ungt fólk sem að kaupa sína fyrstu íbúð og hvernig ber það sig að við skoðun áður en kaupin eru gerð?

Staðsetning eignarinnar hefur mikið að segja, gamla Reykjavík og gamli Kópavogur hafa aðdráttarafl, skipulag íbúðar og útsýni einnig, eldhúsinnrétting, gólfefni og bað hafa þýðingu, jafnvel ofnar, eldavél og gluggastærðir.

En það sem ekki sést gleymist oftast; lagnir, hvort sem það eru skolp- hita- og vatnslagnir og oft þarf að huga að raflögnum, þar kann fleiru að vera ábótavant en gömlu úr sér gengnu töflunni.

En hvað þarf helst að varast?

Skolplagnir

Hvort sem íbúðin er í kjallara, á hæðum eða í risi þarf hver og einn að gera sér grein fyrir því að skolplögnin í grunninum er sameign allra og jafn nauðsynleg öllum íbúum hússins. Ef hún bilar er það ekkert einkamál þess sem býr á botnplötu hússins, hvort sem er í kjallara eða á jarðhæð, ekki frekar en að það er ekkert einkamál þess sem býr í risina að þakið lekur.Þetta ætti öllum að vera ljóst en ótrúlega oft þarf sá sem býr á botnplötunni að heyja harða baráttu til að fá aðra íbúa hússins til að skilja vandamálið og fá þá til að taka þátt í því átaki að endurbæta skolplögnina í grunninum.

Fyrstu einkenni þess, að sú lögn sé farin að gefa sig, er raki á gólfum og upp á veggi, ólykt, jafnvel stíflur og getur endað með dansandi skolpmaurum á gólfi. Hins vegar er til miklu nákvæmari mælikvarði á að skolplögnin sé farin að gefa sig og það er almanakið, tíminn.

Hve gamalt er húsið, hve gömul er lögnin?

Ef lögnin er orðin 40-50 ára er kominn tími til að búa sig undir endurlögn, ekki bíða þar til allt er komið í óefni.

Rör í gólfraufum

Á árunum 1950-70 lentum við í þeirri skelfilegu blindgötu að fara að leggja hita- og neysluvatnslagnir í gólfraufar, það er búið að kosta einstaklinga, tryggingarfélög og þjóðarbúið gífurlegar fjárhæðir vegna vatnsskaða.Ef þú ert að kaupa íbúð athugaðu þetta gaumgæfilega; eru lagnir í gólfraufum í grunnplötu.

Ef svo er skaltu ganga út frá því sem gefnu að allar slíkar lagnir eru ónýtar, hvort sem einhverjir rakablettir á gólfum eða upp í veggi sjást eða ekki. Og umfram allt, ekki fara að brjóta upp gólfraufarnar og leggja nýjar lagnir í þær; þær verður að gera óskaðlegar, gleyma þeim og leggja nýjar lagnir eftir skynsamlegri lagnaleiðum.

Eirlagnir

Á árunum 1960-70 kom nýr bjargvættur fram á lagnasviðið, eirrörin. Þau voru lögð inn í veggi og ekki síður í gólfraufar. Þá þóttust menn hafa himin höndum tekið, hér var þó efni sem ekki mundi tærast af utanaðkomandi raka.Ef til vill ekki, en annað tóku menn ekki með í reikninginn; eirrörin þoldu ekki hitaveituvatnið.

Hita- og neysluvatnskerfi úr eirrörum víða á hitaveitusvæðum hafa verið að hrynja á undanförnum árum, sérstaklega eru þau kerfi illa farin sem eru úr mjög grönnum rörum. Þegar slík eirrör eru fjarlægð er það einkenni þeirra að þau eru orðin næfurþunn, með þykka svarta húð að innan úr koluðu stökku efni og rörin má oft brjóta eins og spaghetti.

Ofnar

Gamlir „nostalgíu“ pottofnar hafa verið að komast í tísku á síðustu árum, hafi slíkir ofnar verið fjarlægðir úr gömlum húsum hafa færri fengið en vildu.En þar er ekki allt sem sýnist, vissulega eru ofnarnir ódrepandi gagnvart tæringu. Hins vegar kunna þeir að vera svo fullir af útfellingum liðinna ára og áratuga að þeir séu sem næst stíflaðir, nema e.t.v. örfá element.

Þó virðast gömlu helluofnarnir íslensku endast furðu vel, oftast vel opnir að innan, en skelfilegir skítsafnarar í báraðri bakhliðinni.

Af þessari upptalningu eru það aðeins skolplagnir sem krefjast þess að brjóta þurfi botnplötu og jafnvel veggi, annað er sjálfsagt að endurnýja án nokkurs múrbrots.

Meginreglan þarf þó ætíð að vera þessi; hugsum fyrst, framkvæmum síðan.