Rafmagn um sæstreng – Eins og að setja kvóta á uppboð í útlöndum

Rúv

Viðtal við Viðar Garðarson og Svein Valfells í Speglinum

Klikka á mynd til heyra viðtal

Eins og að setja kvóta á uppboð í útlöndum

Viðar Garðarsson segir að það að selja rafmagn um sæstreng til Bretlands sé svipað og að bjóða upp fiskveiðiheimildir á mörkuðum í útlöndum. Sveinn Valfells segir að skynsamlegra sé að hvetja til verðmætasköpunar á orkunni hér heima en að flytja hana út.

Umræðan um sæstreng milli Íslands og Bretlands er enn einu sinni komin í hámæli. Bretar virðast vera áhugasamir um að fá orku frá Íslandi og þegar Cameron forsætisráðherra þeir kom hingað í síðustu viku var ákveðið að koma á fót vinnuhópi til að fara í saumana á því hvort framkvæmdin er gerleg. Það er verið að tala um að leggja einn lengsta sæstreng af þessari tegund milli landa í heimi, yfir þúsund kílómetra og mesta dýpi verður yfir einn kílómetri. En það eru skiptar skoðanir. Sveinn Valfells eðlisfræðingur og hagfræðingur og Viðar Garðarsson markaðsráðgjafi hafa ýmislegt við sæstrengshugmyndina að athuga. Þeir mættu í Spegilinn.

80 til 140 dollarar

Það er verið að tala um að Íslendingar gætu fengið 80 til 140 dollara fyrir hverja megavattstund á sama tíma og Norðurál greiðir 15 dollara. Er ekki augljóst að Íslendingar eiga að nýta sér þetta tækifæri?

Sveinn bendir á að Landsvirkjun sé fyrirtæki í eigu allra Íslendinga og ef þetta verð væri í boði myndi vissulega safnast upp arður innan fyrirtækisins.

„Stór hluti af arðinum er líka lágt orkuverð á Íslandi. Og þegar við erum að spá í það hvert verðið verður ef við tengjumst Bretlandsmarkaði þá verðurm við líka að spá í það hvaða áhrif það hefur á verðið hér á innanlandsmarkaði. Hvað munu miklar fjárhæðir færast úr vasa íslensks almennings til Landsvirkjunar,“ segir Sveinn.

Hann bendir líka á að verðþróun á Bretlandsmarkaði gæti orðið okkur óhagstæð. Bretar hafi ekki verið eins fljótir og önnur lönd að tileinka sér nýja tækni þannig að verðið þar sé háð mikilli óvissu.

Viðar segir að ef ársreikningur Landsvirkjunar sé skoðaður komi í ljós að meðalverðið á megavattstund sé 27 dollarar. Hann segir að áætlað sé að sæstrengurinn kosti 800 milljarða íslenskra króna. Þetta sé áhættuverkefni og ætla megi að ávöxtunarkrafan sé 15 til 20%.

„Það þýðir að bara flutningurinn á orkunni milli landanna er á bilinu 110 til 150 dollarar á hverja megavattstund. Menn hafa forðast að nefna hversu mikill flutningskostnaðurinn er. Ef hann er dreginn frá er nánast ekkert eftir,“ segir Viðar.

Eigum að nýta orkuna hér heima

Hann telur að verðmætasköpun á orkunni innanlands sé okkur mikilvægari en að senda hana beint út óunna. Það sé svipað og að senda fiskveiðiheimildir á uppboð í öðrum löndum fremur en að veiða fiskinn sjálfir og vinna hann.

Í Speglinum í gær kom fram að Norðmenn reka 5 sæstrengi. Fjórir þeirra liggja milli Noregs og Danmerkur og einn til Hollands. Vinna er hafin við lagningu strengja bæði til Þýskalands og Bretlands. Norðmenn telja sig græða á sæstrengjunum. Hvers vegna geta Íslendingar það ekki líka?

Sveinn segir að aðstæður í Noregi séu allt aðrar en á Íslandi. Orkumarkaðurinn þar sé tíu sinnum stærri en á Íslandi. Einnig séu fjarlægðir allt aðrar og styttri.

„Þannig að þeir eru minna háðir Bretlandi en við myndum verða. Þyrftum að leggja mun lengri streng og yrðum með lítinn hluta á Bretlandsmarkaði en stóran hluta af orkunni hér heima.“

Viðar segir að rannsóknir hafi verið gerðar á því hvert arðurinn af orkusölunni til annarra landa fer í Noregi.
„Það hefur sýnt sig að arðurinn fer fyrst og fremst til þeirra sem eru að flytja orkuna. Hvorki orkuframleiðendur né almenningur í Noregi hafa notið góðs af þessum viðskiptum,“ segir Viðar

Sveinn tekur undir með Viðari að það sé skynsamlegra að nota orkuna hér heima.
„Ef fólksfjölgunin heldur áfram og ef hagvöxtur á að halda áfram að aukast þá verðum við að að gera aðra hluti en að selja út hrávöru. Miklu skynsamlegra er að hvetja til verðmætasköpunar í kringum orkuna,“ segir Sveinn.

Þröngur pólitískur hópur

Sveinn segir að það séu mjög þröngir hagsmunahópar nátengdir Íhaldsflokkunum sem hafi áhuga á að kaupa orku af Íslendingum. Orkukaup héðan skipti litlu máli fyrir Breta. Hann spyr hver hin pólitíska áhætta sé. Hvað gerist ef ný ríkisstjórn tekur við Í Bretlandi og hvað ef Skotar myndu ákveða að kljúfa sig frá Bretlandi?

„Þú veist ekkert hverjir verða við stjórn í Bretlandi eftir nokkur ár. Það er gríðarleg pólitísk áhætta í þessu máli. Ef allt færi á verri veg gætu þeir jafnvel sett á okkur hryðjuverkalög eins og þeir gerðu með bankana,“ segir Sveinn.

 

 

Heimild: RÚV

 

 

Fleira áhugavert: