Tröllárvirkjun – Í nýtingarflokk
Grein/Linkur: Virkjunin sem enginn vill á leið í nýtingarflokk
Höfundur: Sunna Ósk Logadóttir, Heimildinni
.
.
Júlí 2024
Virkjunin sem enginn vill á leið í nýtingarflokk
Skógivaxinn dalur og ósnortin víðerni yrðu fyrir áhrifum áformaðrar Tröllárvirkjunar á Vestfjörðum. Verkefnisstjórn leggur til að kosturinn fari í nýtingarflokk rammaáætlunar en landeigendur segja nei takk. Virkjunaraðilinn er ekkert sérstaklega spenntur heldur og vill frekar horfa til annars dals í nágrenninu.
Þegar Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri hafði samband við fulltrúa Reykhólahrepps í þeim tilgangi að meta samfélagsleg áhrif fyrirhugaðrar Tröllárvirkjunar komu þeir af fjöllum enda enga vitneskju haft um áformin. Nær ekkert samráð hefur verið haft við eigendur lands sem virkjunin myndi standa á og eru þeir reyndar alfarið á móti byggingu hennar. Orkubú Vestfjarða, sem setti virkjunarhugmyndina fram, er svo sjálft ekkert sérstaklega spennt fyrir henni.
En engu að síður hefur hún ratað af teikniborði ríkisfyrirtækisins Orkubús Vestfjarða til umfjöllunar verkefnisstjórnar rammaáætlunar sem nú hefur lagt til að hún fari í nýtingarflokk. „Við teljum að Vatnsdalsvirkjun sé mun hagkvæmari kostur en Tröllárvirkun og hafi talsvert minni umhverfisáhrif,“ segir Elías Jónatansson Orkubússtjóri við Heimildina. „Þetta er náttúruparadís,“ segir Nanna Jónsdóttir landeigandi.
Vatnsdalsvirkjun er hins vegar ekki til umfjöllunar rammaáætlunar enda áhrifasvæði hennar innan friðlandsins í Vatnsfirði. Orkubúið óskaði eftir því í fyrra að ráðherra umhverfismála myndi með hraði aflétta hálfrar aldar verndun fjarðarins en því hefur verið harðlega mótmælt af stofnunum og heimamönnum. Niðurstöðu ráðherrans er enn beðið.
„Það er rétt að hafa það í huga að ólíklegt er að hægt sé að fara í óhagkvæma virkjunarkosti þótt þeir fari í nýtingarflokk,“ segir Elías. „Það er því ekki sjálfgefið að virkjunarkostur sem fer í nýtingarflokk stuðli að auknu afhendingaröryggi raforku né hjálpi til við orkuöflun fyrir orkuskipti, það gerist ekki nema tekin sé ákvörðun um að virkja og til þess þarf virkjunin að standa undir sér. Virkjunarkostur á borð við Tröllárvirkjun mun að öllum líkindum þurfa talsvert hærra raforkuverð en til dæmis Vatnsdalsvirkjun og Hvalárvirkjun til að verða að veruleika, svo dæmi sé tekið.“
Hann heldur samanburðinum áfram og segir að Vatnsdalsvirkjun myndi draga meira úr notkun dísilknúins varaafls en virkjun í Tröllá. Hún myndi framleiða meira rafmagn og efla raforkukerfið meira sem og orkuöryggið. Ef ráðherrann fellst á affriðun, sem heimafólki óar mörgu við, þyrfti aðeins að semja við einn landeiganda en ekki sex líkt og í tilfelli Tröllárvirkjunar: Ríkið sjálft.
„Þessi dalur. Þessi náttúruparadís. Hún er það sem ég myndi mikið frekar vilja arfleiða mín ættmenni að frekar en virkjun og peningum“ – Nanna Jónsdóttir landeigandi.
Verkefnisstjórn rammaáætlunar hefur lagt fram til samráðs drög að flokkun fimm nýrra virkjunarkosta. Þrír þeirra eru á Vestfjörðum og lagt er til að þeir fari allir í nýtingarflokk. Fallist Alþingi á það myndu þeir bætast í hóp Austurgilsvirkjunar og Hvalárvirkjunar, kosta í vatnsafli á Vestfjörðum sem þann stimpil hafa fengið.
Færu kostirnir þrír í nýtingarflokk er þó nánast útilokað að þeir yrðu allir að veruleika þar sem útfærsla tveggja þeirra, Hvanneyrardalsvirkjunar og Tröllárvirkjunar, gerir ráð fyrir nýtingu sama vatnasviðsins að hluta. Hefur verkefnisstjórn áform um að gera tillögu að því hvor virkjunin ætti að vera í forgangi að loknu samráðsferli því sem nú stendur yfir.
Þröngur og skógivaxinn dalur
Um miðjan áttunda áratug síðustu aldar lagðist byggð í Múlahreppi í eyði. Meðal eyðijarðanna er Skálmarnesmúli við norðanverðan Breiðafjörð er áður var höfuðból sveitarinnar og kirkjustaður. Þar ólst Nanna Jónsdóttir upp sem nú er búsett í Efri-Rauðsdal en hefur sterkar taugar til heimaslóðanna líkt og afkomendur hennar og aðrir eigendur jarðarinnar. Vattardalur innst í Vattarfirði, þar sem meðal annars stöðvarhús yrði reist sem og vegur og þrýstipípa lögð, tilheyrir Skálmarnesmúla. „Það ætti að vera nóg að landeigendur segðust ekki vilja virkjunina,“ segir Nanna við Heimildina, „en svo veit maður aldrei hvað skeður.“
Landeigendurnir sex og fjölskyldur þeirra segja í umsögn sinni vegna áformanna það vera á ábyrgð núverandi kynslóða að vernda náttúrusvæði fyrir komandi kynslóðir og tryggja að náttúruperla á borð við Vattardal verði ósnert. Þeir skora því á verkefnisstjórnina að endurskoða hug sinn og leggja ekki til að Tröllárvirkjun fari í nýtingarflokk rammaáætlunar.
„Þú sæir það sjálf ef þú horfðir á þennan dal,“ segir Nanna, spurð um ástæður þess að hún er mótfallin virkjun. Vattardalur er vaxinn birki- og reyniskógi og berjaland mikið og gott. Um hann rennur Vattardalsá og í henni er ágæt veiði. „Þetta er ósnortið land og náttúruparadís,“ segir Nanna. Dalurinn er þröngur og ef til virkjunar kæmi yrði því ekki komist hjá sýnileika mannvirkja og miklum umhverfisáshrifum. „Dalurinn færi eiginlega alveg undir þetta.“
Elías tekur að vissu leyti undir þetta og segir að vegna kostnaðar yrði hæpið að koma stöðvarhúsi Tröllárvirkjunar fyrir neðanjarðar.
Nanna ólst upp við að tína ber í Vattardal og veiða í Vattardalsá en efsti hluti hennar, Tröllá, yrði virkjaður. Nú eru það börnin og barnabörnin sem þangað leggja leið sína til sömu verka.
Ekkert samráð
„Það hefði svo sem mátt tala við okkur, ég segi það ekki,“ svarar Nanna kurteisislega er hún er spurð hvort henni þyki ekki frekt að skipuleggja virkjun á jörð í einkaeigu – án samráðs við eigendur. Henni finnst skrítið að hugmyndin sé komin svona langt í ferlinu án nokkurra viðræðna.
Fyrir nokkrum árum var sótt um rannsóknarleyfi á svæðinu. „Þá sögðumst við nú ekki sjá tilganginn með því þar sem við værum á móti því að þetta yrði raskað land.“
Landeigendur hafa hins vegar ekkert með það að segja hvort land þeirra er rannsakað vegna virkjunaráforma. Því verða þeir einfaldlega að kyngja. Rannsóknir voru gerðar en Nanna segist sannast sagna ekki hafa átt von á að áfram yrði haldið með málið. Landið er erfitt yfirferðar, það einkennist meðal annars af stórum og miklum giljum. Nanna segist hafa heyrt að talið sé að virkjun á þessum stað yrði dýr framkvæmd sem myndi aldrei borga sig – ekki fyrir þau 13,7 MW sem hægt yrði að sækja með henni.
En engu að síður er nú virkjunarhugmyndin búin að fá umfjöllun í rammaáætlun og tillaga gerð að nýtingu.
„Ef þeir ætla eitthvað að halda áfram með þetta þá endar það með því að þeir verða að tala við landeigendur. Það hefði nú mátt fá fram afstöðu okkar áður en þeir eyða einhverjum milljörðum í að skoða þetta.“
Og afstaða þeirra er skýr. Að mati Nönnu er það ekki hennar kynslóðar að ákveða hvað verður. Það sé verkefni þeirrar næstu. „Þessi dalur. Þessi náttúruparadís. Hún er það sem ég myndi mikið frekar vilja arfleiða mín ættmenni að frekar en virkjun og peningum.“