Hreinlætistæki, timbur – Norsk Björk

Grein/Linkur: Björkin á fram-tíð í Noregi

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

September 1995

Björkin á fram-tíð í Noregi

Þegar er hafin framleiðsla á parketi úr íslenskum nytjaskógum. Því skyldi ekki vera von á íslenskum birkibaðkerum? Draumurinn um skógi klætt Ísland milli fjalls og fjöru á langt í land með að rætast og líklega rætist hann aldrei, enda engin ástæða til. Hins vegar er nauðsyn aukinnar skógræktar hafin yfir allan vafa; enginn gróður bindur jarðveg jafnvel í umhleypingasamri veðráttu og enginn gróður hefur eins bætandi áhrif á loftslagið.

Það hefi þótt saga til næsta bæjar á upphafsárum skóg ræktar hérlendis á þessari öld, ef einhver hefði haldið því fram í alvöru að fyrir næstu aldamót yrði farið að rækta nytjaskóg á Íslandi.

Sú er þó raunin

Upp úr miðbiki þessarar aldar, þegar framleiðsa svokallaðra gerviefna hófst fyrir alvöru, töldu margir að skógarnir mundu missa mikið af gildi sínu þar sem timbur yrði ekki eins eftirsótt til bygginga og til iðnaðarframleiðslu, plastið og steinsteypan væru framtíðin þótt ekki væri dregið í efa að aldagömul efni, svo sem gler og postulín héldu velli og það hafa þau sannarlega gert.

Afturhvarf til fortíðar

Þegar framleiðsla á nútíma hreinlætistækjum hófst þótti postulínið sjálfsagt efni í salerni og handlaugar en glerjungshúðað steypujárn í baðker og vaska. Ryðfría stálið varð síðar ráðandi efni í vaska, en baðker eru nú nær eingöngu framleidd úr þunnum stálplötum, að sjálfsögðu húðuðum.

En það fór ekki hjá því að plastið héldi innreið sína og er nú nær eingöngu notað í heita potta, sem hvergi hafa náð jafnmikilli útbreiðslu og hérlendis, en einnig eru nú framleiddar handlaugar og baðker úr plasti og þessi tæki eru einnig fáanleg úr ryðfríu stáli og þykja sérlega heppileg á stöðum þar sem mikið mæðir á, svo sem á veitingastöðum; íslenskir veitingamenn hafa þó ekki uppgötvað þessa hagkvæmni.

Timbrið hefur lítið komið við sögu á þessum vettvangi, þó munu eldri borgarar þessa lands margir hverjir hafa tyllt bossa sínum á trésetu einhvers útikamars upp til sveita, enda voru slík náðhús á flestum sveitabæjum og víða í þéttbýli fram á miðja öldina, eftir það hurfu þessi örnasetur og þótti það mikill menningarauki víðast hvar.

En hvað er að gerast?

Hjá smugufjendum er margt athyglisvert að gerast, enda eiga þeir mikla skóga og hafa haft af þeim nytjar öldum saman og þaðan fengum við stórvið í okkar fáu en glæstu stórbyggingar á miðöldum og er þar Skálholtsdómkirkja mest.

En nú hafa sem sagt Norðmenn hafið merkilega þróun með sína skóga og þeirra afurðir. Það er einkenni norrænna skóga að viðurinn er mjúkur og á það við um allar tegundir. Vilji menn fá harðvið verður að leita á suðlægari breiddargráður, en nú er reynt að auka notagildi norrænna trjátegunda með því að „blanda“ í þær plastefnum. Ekki er þeim þó hrært saman í einhverskonar hrærivél, í stuttu máli má skýra þessa tækni þannig að timbrið er sett í tank með undirþrýstingi, plastefni skotið inn í tankinn, sem þá þröngvar sér inn í timbrið. Norska orðið yfir þetta er „impregnering“ segjum að íslenska orðið yfir þessa tækni sé að „inndreypa“ timbrið.

Þess vegna munum við eiga kost á því bráðlega að kaupa baðker, handlaug eða jafnvel salerni úr norskri björk.

Norðmenn telja sig sjá stóraukna möguleika á nýtingu bjarkar sem er mjúkur viður, ekki aðeins til framleiðslu hreinlætistækja, heldur einnig til framleiðslu margskonar nytjahluta.

Fréttir herma að nú þegar sé hafin framleiðsla á íslensku parketi úr íslenskum nytjaskógum, en því skyldi ekki vera von á íslenskum birkibaðkerum?

Fleira áhugavert: