Íran – Einn allra stærsti olíuframleiðandi heims
.
Júní 2008
„Killing an Arab“
„Standing on the beach, with a gun in my hand. Starting at the sea, staring at the sand. Staring down the barrel, at the Arab on the ground. I can see his open mouth, but I hear no sound“.
Allt sæmilega þroskað fólk man eftir laginu frábæra, „Killing an Arab“ með Robert Smith og félögum í Cure. Textinn er ekki hugsaður sem skítkast um Araba frá hendi Cure, heldur er þetta tilvísun til atburða í skáldsögu Albert Camus; Útlendingurinn eða l'Étranger.
Allt sæmilega þroskað fólk veit reyndar líka að Persar eru ekki Arabar. En Bush veit auðvitað ekki neitt um nokkurn skapaðan hlut. Nema að hann og félagar hans þurfa að komast yfir olíulindir heimsins. Með öllum tiltækum ráðum. Í þessari færslu ætlar Orkubloggið aðeins að spá í Íran.
Fjölmiðlar hafa skilmerkilega greint frá „hræðilegum“ áformum Íransstjórnar um að koma upp kjarnorkuverum. Ísraelar óttast að í reynd ætli Íranar að framleiða kjarnavopn. Og Bandaríkjamenn taka undir þetta og ýmislegt bendir til þess að Bandaríkin muni senn ráðast á Íran.
Þetta er allt hið versta mál. Öfgamennirnir sem stjórna Íran með harðri hendi eru vissulega vísir til alls. Á móti kemur að Íran hreinlega verður að úvega sér meiri orku. Og þá er kjarnorkan eðlilegur valkostur.
En hver er hin raunverulega ástæða þess að Bandaríkin viðra árás á Íran?
Það er nokkuð augljóst að Íran getur brátt staðið frammi fyrir algeru neyðarástandi í orkumálum. Þjóðin er í dag yfir 70 milljónir manna! Og fer hratt fjölgandi. Olíuframleiðslan vex aftur á móti engan veginn jafn hratt. Íran er afskaplega háð tekjum af olíu- og gasútflutningi sínum. Sem mest fer til Kína og Japan. Enn fremur er efnahagsástandið í landinu bágborið. Það er því hreinlega lífsnauðsynlegt fyrir Írana að framleiða meiri orku innan lands. Nefna má að Íranar standa framarlega í nýtingu vatnsorku. En til að fá raunverulegan og stóran valkost, er kjarnorkan kannski eðlilega það sem menn líta til.
Myndin hér sýnir vel hvernig olíuframleiðsla Írans hefur verið að dansa í kringum 4 milljón tunnur á dag síðustu árin. Íran, eins og mörg önnur olíuframleiðsluríki, virðist ekki geta aukið olíuframleiðsluna svo neinu nemi. Þrátt fyrir að nú bjóðist gott verð á markaðnum. Vísbendingar eru um að framleiðslan þar sé í hámarki. Ef Íran gæti aukið framleiðsluna myndi það tvímælalaust gerast, t.d. fyrir tilstilli fjárfestinga frá Kína.
Fjölgun írönsku þjóðarinnar og vonandi efnahagsuppgangur hennar í framtíðinni, mun leiða til þess að Íranar sjálfir þurfa að nota æ meiri orku. Það þýðir minni olíuútflutning og skertar tekjur. Þess vegna þurfa Íranar orku frá kjarnaverum. Þetta er ekki flókið. Og ekki ósanngjörn stefna.
En lítum burt frá kjarnorkuplönunum. Og skoðum einfaldlega strategískt mikilvægi Íran sem olíuframleiðanda.
Íran er einn allra stærsti olíuframleiðandi í heimi. Aðeins Sádarnir, Rússland og Bandaríkin framleiða meira af olíu. Íran er lika 4. stærsti olíuútflytjandinn. Einungis Saudi Arabía, Rússland og Noregur eru stærri. Það er því kannski ekki skrýtið þó Bush og félagar horfi löngunaraugum til Íran. Sem forðabúrs.
Vegna gífurlegra náttúruauðlinda í Íran ætti að vera hægt að leysa þetta mál. Jafnvel án kjarnorkuvera. Ég óttast þó að það sé þegar búið að ákveða „lausnina“. Það verði innrás. En það er afskaplega ógeðfelld lausn. Íranar hljóta, eins og aðrar þjóðir, að eiga rétt til að ákveða hvaða orkulindir þeir nýta. Þeir hljóta líka að verða hvattir, eins og aðrir, til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, með því að leggja aukna áherslu á orkuframleiðslu sem hefur minni loftslagsáhrif. Sama hvað hver segir; kjarnorkan er og verður helsta lausnin til að sporna gegn losun koltvíoxíðs. A.m.k. þegar litið er til ca. næstu 50 ára.
Ætli það sé ekki best að láta Cure enda þetta: „I can turn, or I can fire the gun. Staring at the sea, staring at the sun. Whichever I choose, it amounts to the same. Absolutely nothing!“