Borun – Allir vilja bora

Grein/Linkur:  Flöskuháls í borunum því allir vilja bora

Höfundur:  Þórdís Arnljótsdóttir Rúv

Heimild:  

.

Bor Ræktunarsambands Flóa og Skeiða fyrir Landeldi vestan Þorlákshafnar. RÚV – Kristinn Þeyr Magnússon

.

Flöskuháls í borunum því allir vilja bora

Síðustu tvö ár hefur ásókn aukist svo í borun að margra mánaða bið er hjá stærsta fyrirtækinu, Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða. Hitaveiturnar sitja nú ekki einar að borfyrirtækjunum, því fiskeldi á landi og Carbfix þurfa líka margar holur.

Erfitt verður fyrir hitaveitur að anna aukinni eftirspurn á næstunni, segir í skýrslu sem kynnt var fyrir helgi að beiðni umhverfisráðherra. Helstu hindranir eru aðgengi að fé, sérfræðiþekkingu og tækjum. Helstu tækin eru borar. Þessi bor er nú á fullu hjá fiskeldisstöð Landeldis rétt vestan Þorlákshafnar.

„Við tókum eftir því fyrir um það bil tveimur árum að þá fundum við fyrir meiri þrýstingi frá hitaveitunum og heyrðum að það væri mikið í gangi hjá þeim. Svo kom inn þetta fiskeldi sem er búið að malla svolítið en það kom svona aukin pressa á það,“ segir Guðmundur Ármann Böðvarsson framkvæmdastjóri Ræktunarsambands Flóa og Skeiða.

Fyrir utan hitaveiturnar og landeldið er Ræktunarsamband Flóa og Skeiða að vinna fyrir Carbfix.

Borholan er fóðruð um leið og borað er

Í fiskeldinu eru boraðar allt að 100 metra djúpar holur bæði til að ná upp jarðsjó og ferskvatni og svo eru líka boraðar rannsóknarholur. Búið er að bora fimmtíu holur, ekki allar fullkláraðar. Og þær verða margfalt fleiri í síðari áföngum.

„Í raun og veru þá borast fóðringinn og hamarinn sem er neðst, þið sjáið að hérna inni er borstrengurinn, neðst á honum er hamarinn og hann er tengdur fóðringunni. Þannig að um leið og við erum að bora þá erum við að sjá fóðringuna niður,“ segir Kristinn Ingólfsson bormaður.

Tvöfalt stærra en fyrir tveimur árum

Alls eru níu borar í notkun og hátt í 50 starfsmenn hjá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða. Það er langstærsta borunarfyrirtæki landsins á lághitasvæðum.

„Biðlistinn hjá okkur hefur aukist verulega síðustu tvö ár,“ segir Guðmundur Ármann, „núna er orðin margra mánaða bið hjá okkur.

Á þessum tveimur árum hefur fyrirtækið þó næstum tvöfaldast að stærð. Næstu hitaveituverkefni eru á Vestfjörðum, Eyjafirði og Austurlandi.

Hefur borað í nokkrum heimsálfum

Margir bormenn koma langt að. Kristinn Ingólfsson er til dæmis búsettur á Taílandi þótt hann sé úr Flóanum og vinnur í Ölfusinu í 28 daga senn og hvílir sig hinum megin á hnettinum jafn lengi.

Þú hefur unnið í öllum heimsálfum eða hvað?

„Í nokkrum. Ég hef fengið þann heiður að kynnast svona nokkrum kúltúrum og menningu.“

Hvað er skemmtilegast við þetta?

„Bara vinnan og félagsskapurinn, ævintýrin. Maður þarf kannski að vera létt geggjaður. Það eru ekki nokkrar blaðsíður sem vantar heldur kannski heilu kaflarnir í okkur bara, ég veit það ekki.“

Fleira áhugavert: